10841854_335191240023181_7529161843057077270_o (1)

Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

 

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 14. febrúar, 2015

„Þú gætir jafnvel unnið Eurovision…“

• Úrslitin í Söngvakeppni Ríkissjónvarpsins ráðast í kvöld
• Rýnt af alefli sem alúð í lögin sjö sem keppa í Háskólabíói

Keppnin sem allir elska að hata og hata að elska, Eurovision, verður haldin í Austurríki í maí og eðlilega sendum við söngelskir Íslendingarnir okkar fulltrúa út, eins og við höfum átt vanda til síðan 1986 (sjá kersknislega tilvísun í fyrirsögn). Í gegnum tíðina hef ég skrifað nokkra tugi metra af hugleiðingum um þessa keppni og aldrei leiðst atið. Það er einhver galdur í þessari uppákomu, einhver fölskvalaus gleði yfir þeirri ánægju sem hafa má af popptónlist með stóru P-i sem dregur okkur að skjánum trekk í trekk. Það er líka sameiningarafl falið í keppninni, þetta er eini tíminn á árinu þar sem allir og amma þín líka hafa skoðun á tónlist. Greinarhöfundur er þar síst undanskilinn og hér fara pælingar um lögin sjö sem keppa til úrslita í kvöld. Þetta er athyglisverður samtíningur í ár, mörg lögin eru lítt Eurovisionleg en öll hafa þau eitthvað við sig enda eru þetta jú þau lög sem komust að endingu í gegnum nálaraugað.

Fly (Fyrir alla)

Lag: Daníel Óliver Sveinsson og Jimmy Åkerfors
Texti: Daníel Óliver Sveinsson og Einar Ágúst Víðisson
Flytjandi: CADEM (Caroline Waldemarsson, Daníel Óliver, Emelie Schytz)

Hér er keyrt á evrópska ruslpoppið af fítonskrafti og engin grið gefin. Sænski skólinn var það heillin enda höfundur með margvísleg tengsl inn í þann bransa. Áherslan er á taktvissa framvindu og svitastokkin klúbbastemningin er tilfinnanleg. Haganlega samsett og allt það og vel hægt að hrista skanka og dilla bossa við en um leið er það full línulegt og tilþrifalítið og sker sig þannig lítt frá þeim þúsundum laga sem koma úr sama ranni.

Feathers (Fjaðrir)

Lag og texti: Hildur Kristín Stefánsdóttir og Guðfinnur Sveinsson
Flytjandi: SUNDAY (Hildur Kristín Stefánsdóttir, Guðfinnur Sveinsson, Vignir Rafn Hilmarsson og Helga Kristín Ingólfsdóttir)

Þetta er án efa „svalasta“ lag keppninnar, einkar módernískt mætti segja og lítt Eurovisionlegt þannig séð (þó að skilgreiningin „Eurovisionlegt“ sé í raun orðin dauð og ómerk í dag). Lagið streymir þunglamalega áfram og hvassir tölvutaktar gára undir seiðandi söng Hildar Kristínar Stefánsdóttur. Draumkennt, órætt flæði einkennir það en hins vegar vantar óþægilega upp á lagasmíðina sem slíka, þetta er eiginlega meiri stemma heldur en lag. Og ekkert að því, en að ósekju hefði mátt krydda þetta aðeins til.

Piltur og stúlka

Lag og texti: Björn Þór Sigbjörnsson, Tómas Hermannsson og Björn Jörundur Friðbjörnsson
Flytjendur: Björn og félagar (Björn Jörundur Friðbjörnsson, Unnur Birna Björnsdóttir, Hafrún Kolbeinsdóttir og Pétur Örn Guðmundsson)

Þetta lag er meistarasnilld, svo ég noti nýlegt orðfæri. Hér er ansi mörgu troðið í einn þriggja mínútna pakka, blæbrigðin mörg og ólík. Uppbyggingin er sérkennileg, lagið eiginlega laun-súrrealískt, alveg rosalega „íslenskt“ og maður sér höfundana glotta við tönn þegar þeir settu það saman. Versin, og hvernig samsöngvarnir þar eru útsettir, fylgja snilldarstílbrögðum, framvinda lagsins er flott – það dregur mann fastar að sér eftir því sem á líður – og epískt viðlagið er vel heppnað. Sviðsframkoma og frammistaða einstakra söngvara er þá með miklum glæsibrag en fremstur fer þó meistari Björn Jörundur. Það er eins og glettinn og söngvís glæpaforingi frá Chicago hafi tekið yfir sviðið og hann leiðir lagið með stórglæsilegum leikrænum tilþrifum. Ég gæti skrifað endalaust um þetta undarlega magnaða lag en ég verð að stoppa plássins vegna.

Unbroken (Lítil skref)

Lag og texti: Ásgeir Orri Ásgeirsson, Pálmi Ragnar Ásgeirsson og
Sæþór Kristjánsson
Flytjandi: María Ólafsdóttir

Svo ég haldi aðeins áfram með skilgreiningu sem ég var að dæma dauða og ómerka rétt áðan, þá er þetta kannski Eurovisionlegasta lagið í kippunni. Stóreflis dramapopp að hætti Celine Dion og menn eru ekkert að spara til í epíkinni. Lagið gengur þannig vel upp, viðlagið krækir fast í mann en stjarna lagsins er þó söngkonan unga, María Ólafsdóttir. Hún ljær því nákvæmlega það púður sem lagið kallar á; söngurinn er orkuríkur, ástríðufullur og einkar sannfærandi. Vel gert.

Dance Slow (Í kvöld)

Lag og texti: Elín Sif Halldórsdóttir
Flytjandi: Elín Sif Halldórsdóttir

Einfalt, viðvæmnislegt og snoturt. Mjög svo reyndar. Söngröddin er falleg, blíð og sakleysisleg. Hún er við það að bresta á köflum og gefur það henni enn meira vægi. Léttar gítarstrokurnar og klæðnaður Elínar á sviði undirstrika nokkurs konar Pollýönnuanda og reyndar bera alltumlykjandi krúttlegheitin smíðina nánast ofurliði á köflum. Heiðarlegur, innilegur flutningurinn nær þó að varna því að lagið detti ofan í hreina klisju. Og að flytja eigið lag og texta á sviði í svona keppni, ekki nema sextán vetra, fær mann til að taka hofmannlega ofan.

Once Again (Í síðasta skipti)

Lag: Pálmi Ragnar Ásgeirsson, Ásgeir Orri Ásgeirsson og Sæþór Kristjánsson
Texti: Pálmi Ragnar Ásgeirsson, Ásgeir Orri Ásgeirsson, Sæþór Kristjánsson og Friðrik Dór Jónsson
Flytjandi: Friðrik Dór Jónsson

Friðrik Dór er flottur og vefur þessu lagi – og áhorfendum eins og sjá mátti – kankvís um fingur sér. Nett Michael Bublé/Robbie Williams ára stafar af okkar manni og þessi háa rödd tengir inn í þessa ofurvinsælu, jarðtengdu söngvara (Ed Sheeran o.fl.). Það er klassi yfir lagasmíðinni, hún er gamaldags, viljandi hallærisleg nánast og borin upp af traustri, dugandi melódíu. Friðrik keyrir þetta svo allt saman í gegn á áreynslulausum sjarmanum.

Milljón augnablik

Lag: Karl Olgeir Olgeirsson
Texti: Haukur Heiðar Hauksson og Karl Olgeir Olgeirsson
Flytjandi: Haukur Heiðar Hauksson

Líkt og með „Piltur og stúlka“ er þetta lag dulítið furðulegt. Það er bundið markvissri stígandi frá fyrsta tóni til hins síðasta, líkt og það sé alltaf að byrja, „tækni“ sem er mjög greinilega sótt í brunn Coldplay og Sigur Rósar. En það sem mest er um vert, þessi glúrna og óvenjulega leið skilar ansi áhrifaríkri tónsmíð. Þetta stöðuga ris dregur mann ljúflega inn og um lagið renna upplífgandi, styrkjandi straumar. Haukur Heiðar er þá mjög öruggur í söngnum og leiðir lagið glæsilega til lykta.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: