byrta[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 24. ágúst, 2013]

Hvenær mun BYRTA til?

• Ósjálfstæði Færeyja hindrar framgang og útbreiðslu þarlendrar dægurtónlistar
• Gleggst merki þessa má sjá í hinum árlegu Nordic Music Prize

Þessi pistill átti upprunalega að vera um nýja plötu Franz Ferdinand (þeirra fjórða. Þykir hressileg. Kemur út eftir helgi. Fyrsta smáskífan, „Right Action“, er flott). Hins vegar ruddist annað mál fram fyrir, hugleiðingar um Norrænu tónlistarverðlaunin (Nordic Music Prize) sem verða afhent í fjórða sinn á næsta ári. Jónsi okkar hreppti verðlaunin þegar þau voru fyrst veitt en þeim svipar til Mercury-verðlaunanna bresku þar sem áhersla er á listrænt innihald fremur en frægð og hve markaðsvænar plöturnar eru. Norræn dómnefnd sér um að velja tólf plötur úr fimmtíu platna potti en alþjóðleg dómnefnd sker svo úr um sigurvegarann. Ég á sæti í téðri dómnefnd, sem er skipuð einum fulltrúa frá Norðurlöndunum fimm, og nú er nefndin farin að tala sig saman um markverðustu plöturnar á fyrri hluta þessa árs. Ég lét hugann reika um ýmislegt góðgæti sem hefur verið að detta inn í löndunum öllum og minntist m.a. plötu BYRTU sem er dúett Færeyinganna Guðriðar Hansdóttur og Janusar Rasmussen. En fattaði svo jafnóðum. BYRTA á ekki séns. Sama hversu stórkostleg platan nú er. Og það er reyndar sama hversu góð plata kæmi frá Færeyjum í ár, hún ætti aldrei möguleika á að keppa um Norrænu tónlistarverðlaunin, þó hún sé að sönnu norræn. Nú skal ég útskýra fyrir ykkur af hverju.

Menningarleg kúgun?

Þrátt fyrir að Færeyjar ættu að vera á ábyrgð Dana er það svo, alltént í tilfelli þessara verðlauna, að færeyskar plötur eru álitnar „færeyskar“ fremur en danskar. Þær detta því algerlega á milli þilja. Það er enginn illvilji eða meðvituð kúgun sem stýrir þessu, dómnefndaraðilinn danski, geðprýðismaður hinn mesti, útskýrði þetta fyrir mér, hálfpartinn afsakandi. Dómefndin hefur rætt aðgerðir hvað þetta varðar sín á milli, að undirlagi undirritaðs, en engin lending er í sjónmáli eins og er. Athugið að Grænlendingar eru að sjálfsögðu undanskildir líka. Þessa stöðu Færeyinga og Grænlendinga er vísast hægt að heimfæra á norræn verðlaun og viðurkenningar af öllu tagi og ég er ekki að setja Norrænu tónlistarverðlaunin sérstaklega niður. Þau virka bara eins og sambærileg verðlaun gera. Tilgangur skrifanna er hins vegar sá að beina sjónum að þessu danska/færeyska vandamáli.
Auðvitað er þetta ekki í lagi og sýnir glöggt þá hentistefnu sem fylgir því úrelta hjálendufyrirkomulagi sem Danmörk býr við. Í Færeyjum búa tæplega 50.000 manns og tónlistarlífið þar er æði blómlegt en af ofangreindum sökum á umheimurinn ekki sama færi á að kynnast því. Þetta er ekki ósvipað því að Vestfirðir væru undanskildir Íslensku tónlistarverðlaununum. Tímamótaplötur Mugison hefðu þá verið úti á gaddi gleraðri jörð. Vegna þess að?

Gjaldið sem þarf að greiða

Færeysk plata hefur vegna þessa ekki komið til álita á Norrænu tónlistarverðlaunum hingað til og mikilvirkir listamenn eins og Eivör Pálsdóttir, ORKA eða Teitur lúra á milli þilja eins og áður segir. Ef færeysk plata næði óvænt mikilli alþjóðahylli, líkt og Sigur Rós gerði t.d. með Ágætis byrjun, yrði henni þó hiklaust kippt inn sem „danskri“, því þannig virka þessir hlutir. Sem sýnir enn betur hversu fáránlegar þessar aðstæður eru. Ástæða þessa alls er þó ljós. Á meðan Færeyingar eru ekki sjálfstæð þjóð hafa þeir ekki þá átyllu sem þarf til að koma hlutunum í sanngjarnt horf. Þetta er gjaldið sem þarf m.a. að greiða fyrir ófullveldið. Ég lýk þessu með upphafssetningu að frétt um BYRTU sem birtist á vefsíðunni Scandipop í sumar en hún stærir sig af því að flytja fréttir af nýrri og spennandi tónlist frá Norðurlöndunum. Hún segir meira en mörg orð um stöðu mála (þýtt úr ensku): „Jæja, þetta er í fyrsta skipti í fimm ára sögu síðunnar sem þetta gerist. Við segjum núna frétt frá „hinu“ norræna svæðinu – Færeyjum.“

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: