[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 4. ágúst]

Ormarnir ógurlegu

• Nýjasta plata Giant Sand er eignuð Giant Giant Sand
• Howe Gelb hefur rekið þessa merku sveit í þrjá áratugi

Tímans traðir verða æ óraunverulegri eftir því sem frá líður, ég er farinn að fatta, mér til mikillar skelfingar að fyrir nálega kvartöld var ég að kaupa plötur úti í búð, þá nýjar. Getur það verið að það séu tuttugu og fjögur ár síðan ég rölti mér fjórtán ára gömlum út í Fálkann á Laugavegi og keypti mér tólftommu með Morrissey? Það er víst svo. Og í ár eru liðnir þrír áratugir síðan Howe Gelb standsetti sveit sína Giant Sand í Tucson, Arizona. Þrjátíu ár. Maður var farinn að trúa því að svona tölur væru bara fráteknar fyrir Rolling Stones en ólíklegustu sveitir eru nú farnar að raka inn árunum. En Giant Sand hvað? Athugum þetta aðeins betur.

Ameríka

Téður Howe Gelb er fæddur í Pennsylvaníu en flutti til hinnar sólbökuðu Arizona á áttunda áratugnum og settist að í Tucson. Árið 1980 kom út plata með hljómsveitinni Giant Sandworms, skírð í höfuðið á skepnunum ógurlegu sem koma fyrir í vísindaskáldsögu Franks Herberts frá 1965 (síðar kvikmynd eftir David Lynch, 1984). Gelb átti síðar eftir að stytta nafnið í Giant Sand og sem slík gaf hún út plötuna Valley of Rain árið 1985. Eftir það hefur efnið flætt frá Gelb en hann fer með alræðisvald í sveitinni sem tekur á sig þær myndir sem passa best við listrænan innblástur Gelbs hverju sinni. Og úr hverju er sá blástur samsettur? Jú, Ameríka og alþýðlegar tónlistarstefnur hennar eru þarna undir; þjóðlagatónlist, blús, kántrí og jafnvel alþýðutónlistin sunnan landamæranna. Krafturinn kom svo frá neðanjarðarrokki og pönki og var sveitinni í upphafi slengt í flokk með sýrulegnum þjóðlagarokkssveitum frá Kaliforníu, oftast kenndar við Paisley Underground stefnuna (Green on Red, Dream Syndicate, Rain Parade og líka andlega skyldar sveitir eins og Thin White Rope). Gelb hefur þó reynst hafa nokkuð einstaka sýn á það hvernig gera á hlutina og t.a.m. er gæðasveitin Calexico runnin undan rifjum Giant Sand. Sveitin hafði þá mikil áhrif á jaðarkántrísenuna sem sprakk út upp úr 2000 og þá hefur Gelb og verið duglegur við að hræra í hin og þessi hliðarverkefni, nefni t.a.m. hina kántrílegnu The Band of Blacky Ranchette og hið nett súra Arizona Amp and Alternator. Sólóplöturnar eru þá nærfellt tuttugu!

Risavaxin

En snúningurinn sem hann hefur tekið í þetta sinnið er athyglisverður og nafnið á verkefninu lýsir sumpart innihaldinu. Hér er semsagt komin risavaxin útgáfa af Giant Sand og platan, Tucson, konseptverk og einslags óður til bæjarins sem Gelb hefur gert út frá í öll þessi ár. „Country rock opera“ kalla Gelb og hans menn þetta og það kallar óneitanlega fram í hugann tvö önnur verk af svipuðum meiði, Southern Rock Opera eftir Drive-By Truckers og svo hina frábæru Thirteen Cities eftir Richmond Fontaine sem var reyndar unnin í samstarfi við nokkra meðlimi úr Calexico og Giant Sand.
Giant Giant Sand er skringilega skipuð sveit (var við öðru að búast er Gelb á í hlut?) en Brian Lopez, Gabriel Sullivan og Jon Villa eru allir með mexíkóskt blóð í æðum á meðan restin af bandinu er skipuð sex Dönum frá Árósum! Þess má geta að lokum að hið ágæta Fire Records hefur verið að endurútgefa plötur Giant Sand að undanförnu, alls sextán stykki og næst á dagskrá eru sólóplötur Gelbs.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: