Per Bloch og Kokoro-félagar Ljósmynd/Charlotte Lakits.

Skrifað í tengslum við Nuuk Nordic Culture Festival, hátíð í Nuuk sem við sóttum heim dagana 9. – 12. október.

Norræna menningarhátíðin í Nuuk (eða Nuuk Nordic Culture Festival) var bæði fjölær og fjölsnærð. Formlegheit voru í lágmarki (án þess að allt væri í rugli), áhersla á alþýðulist fremur en rándýra, þekkta tónlistarmenn, og reynt eftir mætti að virkja bæði Jón og séra Jón. Tónlist, mitt sérsvið, var þarna í unnvörpum en einnig dans, saumar, fatahönnun, skartgripir, leiklist, ljósmyndir, ljóðaupplestur, fyrirlestrar, pallborð, matur, bókmenntir, kvikmyndir, íþróttir og svo má telja. Samstarfsáherslan var og rík, það að koma á samböndum og ég var alltaf að hitta á Grænlendinga sem höfðu tekið upp plötu í Færeyjum, með Íslendingum og Dönum eða þvíumlíkt. Ég fann mig oft í spjalli við félaga frá þessum löndum og fattaði þar og þá, hversu fjölbreytileg tengslin hjá manni geta verið.

Heimamenn þrifu auðvitað upp hljóðfærin sín. Söngvaskáld eins og Laura Aviana, raftónlistarmenn á borð við Da Bartali Crew. Það er margt á seyði í Grænlandi, mikil virkni, þó það sjáist kannski ekki (enn) í blaðaumfjöllunum og plötuútgáfum. Svo voru margir góðir gestir að utan, of margir til að telja upp. Yggdrasil, sveit Kristian Blak, hins mikla tónlistargúrú frá Færeyjum, spilaði t.a.m. og hljómsveit frá Anchorage í Alaska, Pamyua, undirstrikaði menningu Inúíta með söng og dansi. Persian Electro Orchestra mætti á svæðið, Resterne af Rigsfællesskabet (Heðin Ziska frá Færeyjum, Jesper Pedersen frá Íslandi/Danmörku og Miké Thomsen frá Grænlandi), Greta Svabo Bach frá Færeyjum o.s.frv.

Ég ætla að rýna sérstaklega í tvo viðburði. Nokkrum dögum fyrir hátíðina fékk ég tölvubréf frá Per nokkrum Bloch, Dana sem býr í Nuuk. Hann var að fara að spila í þjóðleikhúsi Grænlands og bauð mér á þá tónleika. Ekki nóg með það, heldur bað hann mig jafnframt um að kynna sig og meðleikarana á svið. Ég hélt það nú, hér var komið gott færi á að komast „aftur fyri pallin“ eins og þeir segja í Færeyjum. Slást í hópinn, fremur en að standa hjá og fylgjast með. Taka þátt – sem var reyndar einn af meginútgangspunktum hátíðarinnar. Áður en Bloch sté á svið, með Kokoro-verkefnið sitt, lék Jacob Froberg nokkur lög á gítar og píanó. Froberg stýrir Arctic Sounds hátíðinni í Sisimiut og er einnig tónlistarskólastjóri þar. Kokoro er plata, átta laga, sem Bloch gaf út árið 2016. Þar syngur hann lögin á átta mismunandi tungumálum, m.a. er eitt, „Augnsamband“, á íslensku. Mikil vinna liggur að baki verkinu, seta með þýðendum og túlkum, og ég get staðfest að Bloch lagði þetta á sig, íslenska lagið var ljómandi vel heppnað. Sellóleikarar, píanóleikarar og rafsnúðar voru á sviðinu með Bloch og flutti hann verkið allt af mikilli næmni og fegurð, tónleikar sem voru rammaðir inn af listfengi fagurkerans. Allt rétt einhvern veginn.

Á fimmtudeginum var ég mættur í sundlaug Nuuk, í sömu erindum. Framkvæmdastjórinn bað mig um að sjá um kynningarmál (ég skil ekki alveg hvað þeir sáu í mér þar) og voru fjórir listamenn á dagskrá. Fiona frá Colorado, sem vann með tilraunakennda raftónlist og raddir, Jensía frá Færeyjum sem söng og lék á píanó, HULDA, einnig frá Færeyjum sem spann teknóseyð og svo Noosfære, danskur sveimlistamaður. Sundtónleikar eru skemmtilegt konsept, og tónlistin var hæfandi. Ég hef reyndar aldrei gerst svo frægur að komast ofan í vatnið, var á bakkanum fullklæddur og kynnti listamennina til leiks með bravúr. Er að nálgast laugina a.m.k.

Sundtónleikarnir voru tilraun til að setja snúning á dagskránna, bjóða upp á eitthvað öðruvísi, nútímavæða þá jafnvel? Heildarmyndin sem ég fékk í hausinn var a.m.k. mjög góð, þetta er ung hátíð og allt virðist á góðri leið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: