Díses, þvílík fyrirsögn! Ég var að hugsa um framsækið, framsókn og þá kom þetta slagorð Framsóknarflokksins upp í hugann. En það á svosem vel við, þegar Jethro Tull gaf út plötuna Thick As A Brick árið 1972 var hún með sanni óstöðvandi, búin að gera hverja merkisplötuna á fætur annarri og nú var komið að umfangsmiklu „verki“ sem sló rækilega í gegn. Tull, leidd af hinum ofursjarmerandi Ian Anderson gat bara ekki tekið feilspor á þessum árum.

Í næstu viku, nánar tiltekið fimmtudaginn 21. júní og föstudaginn 22. júní, munu Ian Anderson og félagar flytja þetta verk í heild sinni ásamt framhaldsverki sem kom út fyrir stuttu, Thick As A Brick 2, í Hörpu.

Ég er mikill aðdáandi Tull. Mjög mikill meira að segja. Það var safnplata frá 1985, Original Masters, sem kom mér á bragðið. Keypti hana tætta og velkta í Safnarabúðinni fyrir 100 kr. Eftir að hafa hlustað um nokkra hríð hugsaði ég eins og samsinna sál orðaði það í lesendabréfi einhvers tónlistarblaðsins: „Ian Anderson…where have you been all my life!“

Á næstu dögum ætla ég að hita aðeins upp fyrir tónleikana. Ég er orðinn svaka spenntur, eins og lítill strákur sem er að fara á fyrstu Iron Maiden tónleikana sína. Watch this space!

Byrjum á greinarkorni um TAAB sem ég skrifaði fyrir málgagnið á sínum tíma:

13. desember 2008 | Menningarblað/Lesbók | 538 orð | 2 myndir

Meistaraverk…eða einn langur brandari?

Jethro Tull hæddust að progginu á Thick As A Brick en skilaboðin brengluðust hins vegar allverulega á leiðinni.

Ef gagnrýnendur vilja konsept-plötu skulum við láta þá hafa hana,“ sagði hinn ægisjarmerandi leiðtogi Jethro Tull þegar hann var að fara á límingunum yfir því að síðasta plata sveitarinnar, Aqualung (1971) var í sífellu sögð vera hugmyndafræðileg heild af nefndum hópi.„Og við skulum hafa hana svo uppskrúfaða og íburðarmikla að fólk hafi aldrei heyrt annað eins.“Afleiðingin af þessum pirringi Anderson varð Thick As A Brick, svo sannarlega tyrfið og íburðarmikið verk en segja má að Anderson hafi vandað sig of mikið, eða hætti hann kannski við grínið í miðju kafi? Því að Thick As A Brick er ekki bara teflt fram sem einu helsta afreki Tull þegar rokksöguna ber á góma heldur er hún oft og tíðum nefnd sem besta progg/konsept-plata allra tíma. Þannig að í vissum skilningi mistókst Anderson þetta hrapallega, mistök sem margir orna sér sælir við.

„Þessi plata var ætluð sem háð á þessi yfirdrifnu verk Yes og Emerson, Lake and Palmer,“ hefur Anderson ennfremur látið hafa eftir sér í viðtölum.

Eins og til að undirstrika þetta er söguþráður verksins illskiljanlegt torf, snýst um ljóð eftir uppdiktað undrabarn, Gerald Bostock eða „Little Milton“. Upprunalega platan var í líki dagblaðs og voru tilvísanir í textann á víð og dreif þar um.

Tónlistin sjálf er hins vegar ekkert minna en mögnuð. Tull voru einfaldlega á það miklu flugi á þessum tíma að þó þeir hefðu reynt að snúa eitthvað út úr eða vera viljandi upphafnir, þá bara gátu þeir það ekki. Liðsskipanin var afar tilkomumikil á þessum tíma og munaði ekki síst um að trymbillinn Barrimore Barlow var nýgenginn í sveitina. Tæknilega fær trommari en um leið bullandi framsækinn og tilraunaglaður og einn vanmetnasti trommuleikari rokksögunnar, segi og skrifa það.

Útkoman úr þessu grallaragríni Andersons varð því óhjákvæmilega glæsilega uppbyggt verk, heilar 43 mínútur að lengd, með glúrnum og óvenjulegum takt- og kaflaskiptum. Platan rokkar hart, en fetar líka hugljúfar slóðir (eins og í glæsilegu, þjóðlagaskotnu inngangsstefinu). Mesta afrekið er þó hversu vel samansett verkið er; stef eru endurtekin með tilbrigðum á hárréttum stöðum og því er slaufað á glæsilegan hátt. Tull fara aldrei fram úr sér og verkið einkennist af jafnvægi, ekki ofhleðslu. Sorrí Ian!

Besti brandarinn þessu tengdu er hins vegar sá að ári síðar lagði Tull í plötuna A Passion Play. Um var að ræða konseptplötu líkt og Thick As A Brick en í þetta sinnið var Anderson fúlasta alvara. Platan, ólíkt fyrirrennaranum, fékk slælega dóma og Anderson var ekki skemmt. Töfrar myndast greinilega þegar menn eru hæfilega slakir á því og eru ekki að pæla of mikið í hlutunum.

En svona er sagan um Thick As A Brick. Háðið náði ekki í gegn og á endanum skiptir það ekki máli. Tónlistin, sem slík, stendur. Eða hvað? Mann grunar Anderson óneitanlega um græsku, hann er einfaldlega þannig karakter. Hann veit eitthvað sem hann vill skiljanlega ekki gefa upp. Gæti það verið að platan hafi eftir allt saman ekki verið lögð upp sem grín, þó hún hafi verið kynnt þannig út á við. Ég held það. Og það er aðaldjókurinn. Í þessum skrifuðu orðum situr Ian Anderson á sveitasetri sínu í Skotlandi, tottar pípu og hlær hátt að okkur hinum … nokkrum kaldhæðnum skrefum á undan okkur.

ARNAR EGGERT THORODDSEN

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: