jonathan wilson 2013

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 19. október, 2013]

Blíði andinn fagnar

• Jonathan Wilson fylgir eftir hinni lofuðu Gentle Spirit með plötunni Fanfare
• Spilar á Íslandi 25. nóvember

Nú gefst manni raunverulegt tækifæri til að nota hinn margnýtta – en ágæta frasa (ég hef alltaf fílað hann) – „sannkallaður hvalreki“ þar sem fyrirhugaðir tónleikar Jonathans Wilsons eru ekkert minna en það, sannkallaður hvalreki fyrir tónlistaraðdáendur hér á landi. Þessi fyrrum mikilvirki tónlistarlegi baktjaldamaður steig af þunga fram fyrir tjöldin í hitteðfyrra með plötunni Gentle Spirit og uppskar mikið lof fyrir og þótti verkið með þeim bestu það ár, flauelsmjúkur og umlykjandi óður til hippískrar tónlistar þeirrar sem ástunduð var í Kaliforníu í upphafi áttunda áratugarins, einkanlega á Laurel Canyon-svæðinu (CSNY, Joni Mitchell o.fl.).

Grunnur

Á þeim grunni byggði Wilson þetta frábærlega útsetta og heilsteypta verk þar sem öll hans uppsafnaða reynsla fékk að blómstra svo um munaði. Wilson gat sér nefnilega upphaflega orð sem upptökustjóri og tilkomumikið safn hans af upprunalegum hljóðversgræjum þar sem hliðræn tækni (analog) var nýtt fremur en stafræn dró til hans listamenn á borð við Chris Robinson (Black Crowes), Will Oldham, Elvis Costello, Gary Louris (The Jayhawks), Erykuh Badu, Jenny Lewis, Shooter Jennings (sonur Waylons) og Father John Misty (J. Tillman úr Fleet Foxes). Wilson og Chris Robinson hrundu þá af stað opnum spilakvöldum eða „djömmum“ í hljóðveri Wilsons í áðurnefndu Canyon-gili þar sem við sögu hafa komið, auk margra þeirra sem upp hafa verið taldir; Jakob Dylan, meðlimir úr Wilco og Pearl Jam og ósköpin öll af tónlistarmönnum sem hafa verið að spila með þungavigtarfólki eins og Neil Young, Springsteen, Van Morrison o.fl. Wilson er þakkað fyrir að hafa endurvakið hið töfrum slegna andrúmsloft sem lék um gilið í fyrndinni og margir af þeim sem upplifðu Laurel Canyon-tímabilið á sínum tíma mæta á þessi kvöld til að minna sig á að það er tónlistargyðjan sem fer með endanlegt vald í öllum þeirra málum.

Galdur

Eins og sjá má var Wilson þegar orðinn býsna þekkt nafn í tónlistarheiminum og kominn með margvíslegar tengingar við gildandi listamenn. En það er meira en að segja það að stíga upp úr upptökustólnum og upp á svið og slíkar gírskiptingar ganga ekki alltaf snurðulaust fyrir sig. Stundum alls ekki reyndar. En það tókst svo um munaði í tilfelli Wilsons; menn fundu á Gentle Spirit að hann hafði það einnig í sér að miðla eigin efni, ekki bara annarra. Og við værum heldur ekki að tala um hann hér ef sú plata hefði verið eintóm fortíðarþrá, galdur og geta Wilsons liggur í nútímavæðingu þessa merka hljóðheims og sá hæfileiki hans skilar honum því umtali og aðdáun sem hann nýtur í dag. Á Fanfare vinnur hann áfram með þennan heim en hann er stærri – epískari – leið sem Wilson vildi fara og fyrsta varðan á henni var Steinway-píanó sem var leigt í gegnum Craigslist-miðlarann á netinu. Steinway-píanóið varð síðan að tákni í huga Wilsons fyrir þann metnað sem hann langaði til að leggja í verkið. Tengingin við gamla Laurel Canyon-tímann var svo fullkomnuð með innleggi frá Graham Nash, David Crosby og Jackson Browne. Þá eru sum lögin samin með bresku þjóðlagagoðsögninni Roy Harper en Wilson aðstoðaði við upptökur á nýjustu plötu þess meistara, Man & Myth, auk þess sem hann hefur yfirumsjón með heiðrunarplötunni What You Need Is What You Have, The Songs of Roy Harper.
Eins og segir í inngangspunktum þá spilar Wilson á Íslandi, í Kaldalóni í Hörpu, 25. nóvember. Um upphitun sér andans skyldur maður, Snorri Helgason, en nýjasta plata hans, Autumn Skies, kom út fyrir stuttu.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: