julia_holter_rick_bahto023 (2)

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. ágúst, 2013]

Oft er í Holter heyrandi nær

• Julia Holter er rísandi stjarna í jaðartónlistinni
• Þriðja hljóðversplata hennar, Loud City Song, kemur út 19. ágúst á vegum Domino

Það er erfitt að setja Juliu Holter inn í eitt þægilegt box, eins og svo oft er með þá listamenn sem hafa eitthvað bitastætt fram að færa. Í tónlist hennar mætast ólíkir straumar sem hún veitir í eitt fagurgert tónafljót; eins konar skurðpunktur einrænnar, svefnherbergislegrar nýbylgjutónlistar, nútímatónlistar og svo jaðarbundinnar raftónlistar. Holter er frá Los Angeles og vegferð hennar hingað til og uppeldi birtist í tónlistinni, hún er klassískt menntuð en vinir og félagar hennar starfa hins vegar í jaðar- og neðanjarðartónlistargeirum borgarinnar. Tvær plötur liggja nú eftir hana, Tragedy (2011) og Ekstasis (2012). Báðar eru þær epískar að byggingu en um leið er í þeim undarleg næmni og innilegheit enda tók Holter þær upp meira og minna í svefnherberginu sínu. Á nýju plötunni, sem er nokkurs konar óður til heimaborgarinnar, vinnur hún hins vegar í fyrsta skipti með hljóðfæraleikurum og upptökustjórnanda. Platan kemur út 19. ágúst næstkomandi og í ljósi fyrri afreka Holter er talsverð eftirvænting eftir gripnum.

Tvist og bast

Holter fæddist árið 1984 í Los Angeles og er af vel menntuðu og tónelsku fólki. Holter útskrifaðist úr CalArts (California Institute of the Arts) og leggur enn rækt við þann þátt í lífi sínu en hún kennir unglingum sem misst hafa fótanna í lífinu tónlist í sjálfboðavinnu. Það var upp úr 2008 sem Holter fór að semja og taka upp af krafti og liggja lög eftir hana á tvist og bast á safnplötum, sjötommum og þvíumlíku. Hún á meðal annars lag á safnplötunni Beaterblocker #2 en þar koma og við sögu þeir Keith Fullerton Whitman og Eluvium, andlega skyldar sálir. Plötur hennar til þessa hafa vakið upp mikið umtal og aðdáun og henni hefur verið líkt við listakonur á borð við Laurie Anderson, Kate Bush og Joönnu Newsom. Gagnrýnandi Pitchfork nær að orða þetta nokkuð vel í dómi sínum um Tragedy þar sem hann finnur réttilega samhljóm í tónlist Holter og gotapoppsböndum sem gáfu út undir merkjum 4AD á níunda áratugnum (Dead Can Dance þá helst). Tónlist Holter er þannig dulúðug og mikilúðleg en eins og segir nærgætin á sama tíma.

Söngljóð

Tragedy er byggð á verkum Evripídesar og á Ekstasis vann Holter m.a. með ljóðmæli þekktra skálda. Á Loud City Song er hún hins vegar að skoða heimaborgina sína og hún veltir því fyrir sér hvernig hægt sé að finna eitthvað satt í samfélagi sem virðist bæði yfirborðslegt og gervilegt (í nýlegu viðtali við Pitchfork tiltekur hún nóvelluna frægu Gigi í þessu sambandi en platan átti að bera það nafn á tímabili). Stórgerðar hugmyndir fylgja því Holter sem fyrr en í þetta sinnið er hún nær nútímanum en einnig nær sjálfri sér. Hún segir í viðtalinu við Pitchfork að hún sé að rýna í möguleikana sem í boði eru fyrir borgarbarn eins og hana; á hún að flýja út fyrir borgarmörkin og frá áreiti mannlífsins eða á hún að umfaðma þann veruleika og jafnvel hlæja lítið eitt að honum um leið? Lifa í sátt fremur en í togstreitu? Hún tekst á við þessar spurningar í samstarfi við aðra í fyrsta skipti, réð sér t.a.m. upptökustjórnanda, Cole M. Greif-Neill (sem var eitt sinn í Ariel Pink’s Haunted Graffiti), og nýtur liðsinnis fjölda hljóðfæraleikara. Forsmekk að þessu söngljóði um Borg englanna má nú finna á youtube (sláið inn „julia holter world“).

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: