mc lyte

Í dag hlustuðum ég og stelpurnar mínar (Ísold 7 ára og Karólína 5 ára) á kvennarapp eingöngu. Það glumdi um íbúðina c.a. frá síðdegi og fram til miðnættis. Systir mín sendi mér hlekki í gær m.a. á búlgarskt kvennarapp og það var greinilega kveikjan að þessu tema. Þetta var mjög skemmtilegt og ég verð að deila þessu.

Ég hóf leika á einhverri safnplötu með Queen Latifah sem var ekki skemmtileg. Heyra mátti harðkjarnatakta frá fyrri hluta ferilsins sem voru upplífgandi en það var of mikið af silkimjúku, rembingslegu, lyftutónlistarlegu sálarsulli og R&B-i. Hvað gerðist Latifah!? Ég tók svo smá snúning á meistarann, Missy Elliott, rúllaði nokkrum í gegn en var ekki alveg með hugann við hana. Setti síðustu plötuna hennar, The Cookbook á og eitthvað af Supa Dupa Fly og Da Real World. MC Lyte var næst, sem er í miklum hávegum höfð hjá grúskurum. Fyrsta plata hennar frá 1989, Lyte as a Rock, vakti mikla athygli hérna í Haggis-landi, hjá föðurnum og dætrunum tveimur. Dúndurstöff, myljandi hart, hrátt og töff. Skemmtilegt hvernig hipp hoppið frá þessum tíma er oft nánast eingöngu slagverk og taktur með smá grófu svuntuþeysara „blíbi“ á bakvið. Snilld og mæli með þessu. Hér er þjónvarpshlekkur á eitt lagið, „Paper Thin“.  Næst smellti ég svo nafntoguðu meistarastykki á, The Miseducation of Lauryn Hill. Tilkomumikið verk og hafði ekki misst vott af einlægum kraftinum sem einkennir hana. En ég spyr aftur. Hvað gerðist? MC Trouble var næst. Þetta undrabarn kom út einni plötu, Gotta get a Grip (1990) en dó svo voveiflega í svefni, fékk kast vegna heilaæxlis sem hún bar. Spekingar eru enn að pæla í því hvað hefði getað orðið og það hefði sannarlega getað orðið eitthvað, sé miðað við plötuna. Um hana leikur hrokafullt öryggi þess sem hefur allt að vinna og engu að tapa en Trouble var ekki nema nítján þegar hún kom út. Bahamadia kom svo með allt annan vinkil. Fyrsta plata hennar Kollage (1996) er í þessum mjúka, höfgi bundna djassstíl sem Gang Starr keyrðu, enda var hún skjólstæðingur þeirrar mætu sveitar. Kvöldið var svo klárað með plötum Rah Digga (Dirty Harriet, jafn grjóthörð og titillinn gefur til kynna), Da Brat (fyrsta plata hennar, sæmó) og hinnar bresku Monie Love (Down to Earth, 1990. Stórfín alveg).

Semsagt. Stuð. Það var virkilega þægilegt að hafa kvenraddirnar linnulausar frekar en testósterónbarkana. Margt sem vakti athygli  mína. Allar voru þær þeldökkar og amerískar, utan Monie Love (ég heyrði um eina hvíta, Tairrie B., tékkaði ekki á henni). Ég rannsakaði þetta með einföldum google leitum, „best women in hip-hop“ og þvíumlíku og það virðist glettilega lítið knýjandi og krefjandi vera í gangi í dag í þessum geira. Vakning og verk vel af hendi leyst voru mest áberandi c.a. ’90 til ’95. Líklega er fullt að gerast en við vitum hverjir fara með völdin þegar á að fjalla um svona hluti. Ferill þessara listamanna sem ég nefni er þá oft stuttur eða fer mjög fljótt undir radarinn. Plötunum sem er hampað eru nánast undantekningarlaust fyrstu plöturnar. Missy Elliott sker sig úr að þessu leytinu til, var að gera mjög svo góða hluti, tímamótahluti, plötu eftir plötu. Og hún heldur sig fjarri eins og svo margar þungavigtardömur þarna. Hverju sætir þetta?

 

Hér eru hlekkir sem nýttust ágætlega við atið:

http://rateyourmusic.com/list/MicG/the_top_25_female_hip_hop_acts_

http://femalehiphop.blogspot.co.uk/

http://therapup.net/2012/08/7-female-rappers-you-should-never-call-femcee/

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: