1112nickcave11

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 16. febrúar, 2013]

„Ský, ský… burt með þig“

• Fimmtánda hljóðversplata Nick Cave & The Bad Seeds kemur út á mánudaginn
• Push the Sky Away er hægstreymt, sveimi lagt verk

Hjartað tekur aukakipp, ávallt, þegar maður les frétt um að Nick Cave sé að fara að snara út nýju verki, veri það bók, kvikmyndatónlist, handrit þar að lútandi eða plata með Grinderman eða sveit sinni The Bad Seeds. Nú á mánudaginn kemur út ný hljóðversplata með síðastnefnda fyrirbærinu og kallast hún hinu mikilúðlega nafni Push the Sky Away.
Titillinn gefur ýmislegt til kynna hvað varðar innihaldið, dreymið og dulúðugt verk sem líður lymskulega um eyrun. Allt öðruvísi en síðasta verk, Dig!!! Lazarus Dig!!! (2008), sem bjó líka yfir vísbendingum um innihald í titli, tónlistin hrá og rokkuð og meira að segja glettin á tímabili. Áhrif frá Grinderman, bílskúrshljómsveit Cave sem gaf út tvær plötur árin 2007 og 2010, voru þónokkur þar. Þannig að enn og aftur er um gírskiptingu að ræða en platan á undan Dig!!!…, Abattoir Blues/The Lyre of Orpheus (2004) bar með sér enn aðra áru; var stór, dramatísk og strengjahlaðin. Þessar þrjár plötur mynda endurreisnartímabil Cave en Nocturama (2003) var óvenju fátækleg. Hér sést, svart á hvítu, að ekki er fyrir afköstum að fara varðandi Bad Seeds, enda Cave á kafi í alls kyns vinnu annarri.

Um hríð

The Bad Seeds var um hríð stór hópur manna, átta til níu manns á tímabili, en heldur hefur kvarnast úr hópnum. Félagarnir eru fimm á Push the Sky Away, í raun allir meðlimir Grinderman auk trymbilsins Thomas Wydler. Þungavigtarmennirnir Mick Harvey og Blixa Bargeld horfnir á braut en tónlistarbróðir Cave hin síðustu ár hefur verið hinn mikilhæfi Warren Ellis (The Dirty Three m.a.) en þeir hafa og unnið í sameiningu að kvikmyndatónlist.
Upptökur á plötunni nýju fóru fram í Frakklandi, í La Fabrique, hljóðveri sem er í 18. aldar setri rétt utan við smábæinn Saint-Rémy-de-Provence í Suður-Frakklandi. Upptökustjórnandi var sem fyrr Nick Launay sem hefur vélað um allar fyrrgreindar plötur Bad Seeds. Cave kom með lögin svona hæfilega tilbúin og hann og Ellis tálguðu þau svo til þarna suður frá. Cave segir að andi plötunnar, sem er mjög heildstæður, þar sem hvert lag flýtur einhvern veginn áfram og tekur við af hinu næsta, eins og alda á eftir öldu, sé tilkominn vegna hinnar þægilegu einangrunar í setrinu. Nálgast má mjög skemmtilega stiklu á youtube þar sem fylgst er með Cave og köppum hans að störfum (sláið inn „push the sky away trailer“).

Manneskjulegheit

Umræðan um anda plötunnar kom upp í bráðskemmtilegu viðtali við Cave sem flutt var á BBC 6 þann 10. janúar í þætti Marks Radcliffe og Stuart Maconie. Með aldrinum hefur Cave leyft sér að stíga úr hlutverki hins ósnertanlega, dulúðuga snillings og leyft manneskjulegheitunum að flæða fram, eitthvað sem hefur styrkt hann ef eitthvað er. Að geta hlegið að sjálfum sér ber vott um öryggi og Cave leyfir sér léttúð í dag, upp að vissu marki eðlilega (jakkafötin eru m.ö.o. ennþá stífpessuð). M.a. ræddi hann um það vinnulag sitt að mæta á skrifstofu og vinna jafnt og þétt að hlutunum, aðferð sem margir eiga ennþá erfitt með að samsama villingnum, rokkaranum Cave.
„Skrifstofan er reyndar í kjallaranum mínum,“ sagði Cave, sem býr í Hove, rétt hjá Brighton. „En ég fer út um dyrnar hjá mér og kyssi konuna bless, til að hafa þetta formlegt.“ Í framhaldinu upplýsti hann svo að ljósmyndin fyrir umslagið, sem sýnir hann ásamt nakinni konu, hefði verið tekin í svefnherberginu hans og nakta konan væri kona hans, Susie Bick. „Þið megið horfa á umslagið í takmarkaðan tíma,“ bætti hann við kíminn.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: