paul mccartney new

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 12. október, 2013]

Hið eilífa nýjabrum…

• Paul McCartney gefur út plötuna New
• Sú fyrsta með nýju efni í sex ár og unnin með fjórum upptökustjórum

Það telst enn fréttnæmt að Paul McCartney sé að gefa út plötu, mjög svo reyndar. Einhver blaðamaðurinn lýsti því í nýlegu viðtali að McCartney væri líkast til frægasti núlifandi tónlistarmaðurinn og þá með tilliti til fyrri afreka o.s.frv. og hann er ekki langt frá sannleikanum þar. „Einhver blaðamaðurinn,“ segi ég þar sem ég er búinn að lesa fjöldan allan af greinum og viðtölum um þessa plötu á síðustu vikum og ekkert lát virðist á þeim. McCartney sjálfur er þá mjög svo virkur í öllu þessu stússi, andstaðan að því leytinu til við samferðarmann sinn í ofurfrægðinni, David Bowie (sem gaf út nýja plötu í upphafi árs). En svona er McCartney, enn hungraður og enn jafn áhugasamur um þetta sprikl sitt í popp/rokkheimum. Það er eins og ekkert bíti á hann, eiginleiki sem hann segir sjálfur að komi frá fjölskyldu sinni sem er samansett úr eiturhörðum nöglum sem „halda áfram“, sama hvað.

Ei keyptur

Nýja platan heitir einfaldlega New en sú síðasta, Memory Almost Full, kom út árið 2007. Þetta sex ára tímabil hefur reyndar ekki verið sérstaklega rólegt hvað útgáfu varðar; tónleikaplötur, plötur með klassískri tónlist, ný Fireman-plata (þar sem hann býr til raftónlist ásamt Youth) og djassábreiðuplata, allt hefur þetta litið dagsins ljós eftir Memory Almost Full. McCartney er óstöðvandi eins og komið var inn á í upphafi þrátt fyrir sjötugsaldurinn (hann er 71 árs).
Það er nokkuð áhugavert að skoða „hefðbundnar“ hljóðversplötur McCartneys frá fyrsta áratug aldarinnar. Árið 2001 kom Driving Rain út, afar persónuleg plata og nokkuð inn á við en að sama skapi ójöfn. Það var svo með Chaos and Creation in the Backyard (2005) sem McCartney landaði nokkurs konar síðari ára meistaraverki, virkilega sterk plata en þar sneri Nigel nokkur Godrich tökkum (Radiohead). Engu að síður var giska áþreifanlegt í viðtölum að McCartney var dálítið súr yfir því að hafa ekki meiri stjórn á plötunni – og það þrátt fyrir nánast endalausar lofrullur. Hann gaf því út Memory Almost Full tveimur árum síðar, til muna ójafnara verk. Í þetta sinnið fékk hann svo til liðs við sig fjóra unga upptökustjóra (yngri a.m.k.) og því nokkuð spennandi að heyra útkomuna. Getur verið að McCartney sé að kyngja því að stundum er betra að „Let it be“ en að vera stanslaust með puttana í öllu?

Hylling…

Upptökustjórarnir eru þeir Mark Ronson (Amy Winehouse o.fl.; ráðinn eftir að hann hafði spilað í brúðkaupi McCartneys og nýju konunnar hans, Nancy Shevell), Ethan Johns (Ryan Adams o.fl. og auk þess er hann sonur Glyns Johns sem vann með Bítlunum á sínum tíma), Paul Epworth (Adele, Florence and the Machine o.fl.) og Giles Martin (sonur George Martin).
McCartney hefur lýst plötunni sem „fjölbreyttri“ án þess að útskýra það frekar, sum lögin voru samin einn, tveir og bingó („Epworth“), sum þeirra eru endurminningalög og önnur hylling til Shevell. McCartney segist á góðum stað í dag, m.a. vegna nýrrar konu, og lætur móðan mása í viðtölum sem aldrei fyrr. McCartney virðist hafa gert það að reglu að víkja sér ekki undan upprifjunum á fyrri tíma stórfenglegheitum en gætir að því að jafna það út með pælingum um eðli og eigindir þess að vera skapandi listamaður í samtímanum. Vissulega virðist hann oft vera of upptekinn af þessu öllu saman – eins og það sé spurning um líf og dauða að koma þessu öllu til skila (hann mætti t.d. horfa aðeins til George Harrison um hófstillingu hvað þetta varðar) – en um leið kemst hann eðlilega ekki undan sjálfum sér og því sem hann er. Mér finnst ég reyndar greina smá-slaka hvað þetta varðar á stundum og er það vel. En tónlistin sjálf á auðvitað lokaorðið eins og alltaf.

 

Tagged with:
 

One Response to Paul McCartney: Hefur hann eitthvað „nýtt“ fram að færa?

  1. Rétt sem Arnar Eggert Thoroddsen segir: "En tónlistin sjálf á auðvitað lokaorðið eins og alltaf." Líklega er búið að segja allt það sem segja þarf um Paul McCartney.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: