Kraftwerk, 1978 Florian Schneider, fremstur.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. maí, 2020.

Far vel Florian

Tilkynnt var um andlát Florian Schneider í vikunni, en hann stofnaði til hinnar þýsku Kraftwerk ásamt Ralf Hütter árið 1970. Engin sveit, fyrir utan Bítlana mögulega, hefur haft jafn rík áhrif á þróun og þroska dægurtónlistarinnar.

Við hlöðum nú rafhlöðu vora / Kraftur iðar líkt og farið sé að vora“. Nokkurn veginn svona (afsakið hörmulegt rím, en ég bara varð) hljóma upphafslínur „The Robots“, lagsins sem opnar breiðskífu Kraftwerk frá 1978, The Man-Machine ( Die Mensch-Maschine ). Við fréttum hins vegar af því í vikunni, á miðvikudaginn nánar tiltekið, að rafhlaða Florian Schneider væri endanlega uppurin. Ónýt. Hann varð 73 ára og háði stutta rimmu við krabbamein. Það er eitthvað rétt við það að þegar þetta er ritað er nákvæmur dánardagur ekki kominn á hreint, sem er í takt við þá dulrænu áru sem Schneider gaf af sér. Hann og Hütter voru Lennon og McCartney raftónlistarinnar, þó að ég treysti mér vart til að ákveða hvor þeirra hann var. Kannski Harrison?

Ég sá Kraftwerk í Kaplakrika árið 2005. Ekki nóg með það, heldur sá ég meðlimi á Thomsen eftir tónleikana. Það var súrrealískt. Þarna sátu þeir, liðsmenn áhrifaríkustu hljómsveitar allra tíma, á einum básnum eins og ekkert væri sjálfsagðara. Og gáfu færi á sér. Eftir því sem líða tók á kvöldið hóf fólk að rölta til þeirra og votta þeim virðingu. Ég þorði hins vegar ekki. Fylgdist bara með. Þeir voru rétt hjá mér, tveggja metra reglan brotin með glans.

Florian Schneider var af arkitektaættum og það segir heilmikið um þennan magnaða hljóðhönnuð. Það var Schneider sem ýtti Kraftwerk úr vör upprunalega, en hann og Hütter voru saman í tónlistarháskóla í Düsseldorf. Shneider hafði aðgang að fjölskylduauðnum og gat því keypt nýjar og móðins græjur. Saman hófu þeir félagar svo að smíða tónlist og sveitin „sló í gegn“ með plötunni/verkinu Autobahn (1974). Jafnt og þétt hófu þeir félagar svo að einfalda hljóðheiminn, tölvuvæða hann frekar, poppa sig upp getum við sagt, sem bar glæsilegan ávöxt á plötunni The Man-Machine (1978). Síðasta plata Kraftwerk frá blómaskeiði hennar var síðan Computer World (1981), líkast til þeirra besta, sýn þeirra á hlutina svo gott sem fullkomin. Sköpunin varð hægari og bitminni eftir þetta, sumir segja að fullkomnunarárátta Schneider hafi jafnvel spilað þar inn í. Hann átti svo eftir að yfirgefa sveitina, þó að ekki sé vitað nákvæmlega hvenær það var, ekki frekar en með dauðdagann.

Kraftwerk er mér mjög kær. Ég man þegar fyrstu tónarnir frá „Europe Endless“ hófu að óma í litla herberginu mínu í Árbænum. Mér fannst þetta dálítið einkennilegt (ég var mestmegnis að hlusta á hávaðanýbylgju og pönk á þessum tíma) en það var eitthvað þarna sem ég hreifst af. Ég og bróðir minn elskulegur hlustuðum síðan endalaust á þessar plötur. Hlutverk Kraftwerk sem brautryðjanda í tölvutónlist verður nefnilega seint ofmetið og heilu tónlistarstefnunum var hrundið af stað fyrir tilstilli hennar – stundum fleiri en einni í einu og sama laginu. Hipphopp, teknó, hústónlist, „industrial“, nýrómantík; öll þessi fyrirbæri eiga allt sitt meira og minna undir Kraftwerk. Ég verð líka að benda á hversu fjölhæf og margslungin sveitin var. Þetta var alls ekki stálkalt og sterílt. Heilmikill fíflagangur fylgdi þeim og lunkinn húmor. Kraftwerk gat verið yfirmáta tilgerðarleg en líka poppaðri en Pet Shop Boys. Lögin voru epísk („Europe Endless“), grjóthörð og nánast sláandi („Trans-Europe Express“ og hið guðdómlega „Metal on Metal“) og fyndin („Pocket Calculator“). Þarna voru kinnroðalausir slagarar („The Model“) og lög til þess fallin að græta rígfullorðið fólk („Compute Love“. Gæsahúð!).

Ég sagði ykkur hins vegar ekki frá því hér í upphafi að Florian mætti ekki á Thomsen. Hann fór meira að segja snemma af sviði í Kaplakrika sökum lasleika. Hefði verið gaman að sjá hann, því að nú hefur hann endanlega yfirgefið sviðið. Horfir á okkur úr speglasal eilífðarinnar, með þessu kankvísa glotti sínu. Far vel Florian.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: