Drunur Bára Gísladóttir er á feiknaflugi á Silvu og slær hvergi af.
Ljósmynd/Anna Maggý.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. júní, 2023.

Litið inn um rifinn skjá

Bára Gísladóttir, tónskáld, listakona, kontrabassaleikari og stórsnillingur, gaf út plötuna Silva í ársbyrjun. Um er að ræða klukkustundarlangt drunuverk og vissara að spenna beltin eins og svo oft þegar þessi magnaða hæfileikakona á í hlut.

Silva kemur út á hinu virta Sono Luminus og er skrifað fyrir „bjagaðan“ kontrabassa, hvar hljóðin eru send niður ýmsar brellubrautir með hjálp frá Ableton apparatinu. Öll hljóðin eru því úr kontrabassanum, þó þau hljómi alls ekki þannig á köflum.

Hugmyndin er sérstæð, það er höfundur sér fyrir sér skóg sem vex ekki upp heldur niður. Einhverju sem vex náttúrulega upp á við er snúið á rönguna og í stað ljóss og lofts er myrkur og massi. En það er lífgjafinn engu að síður. Pælingin er ekki neikvæð.

Bára segir í fréttatilkynningu/lýsingu á verkinu að þó að hennar platti sé klassísk tónlist dragist hún að stílum eins og tilraunatónlist, þungarokki, teknói, óhljóða- og drunulist. Og þetta má heyra glögglega í hennar ferli þar sem fara bæði skrifuð verk fyrir tónleikahallir og plötur fyrir okkur rokkhundana. Segir Bára Silvu vera ávöxt þessa og það er rétt mat hjá henni. Hljóðritun fór fram í Kaupmannahöfn þar sem Bára býr en platan var svo hljóðblönduð og hljómjöfnuð af Daniel Shores í Reykjavík.

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með Báru undanfarin ár og hvernig tónlist hún hefur verið að þróa. Á HĪBER (2020) lék hún sér með andstæður, þagnir og helbert brjálæði. Caeli (2021), sem hún vann með Skúla Sverrissyni, var meira í flæði og það tiltölulega áhlýðilegu. Víddir (2022) gerði út á vissa stigmögnun, með hjálp frá brassi og slagverki, svo rosalegt verk að það var tilnefnt til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

Ég ræddi aðeins við Báru í Messenger-skilaboðaskjóðunni í janúar og þar spurði hún mig hvort ég væri „í stuði“ fyrir klukkutíma drón. Ég hélt það nú og við tók tjáknaflipp sem erfitt er að miðla í gamaldags texta. „Muna að stilla MJÖG HÁTT,“ sagði hún og ég gantaðist með að það yrði nú ekki vandamál (og setti inn fjólubláa púkann). Því var svarað með þungarokkshornum!

Við hæfi reyndar því að þar erum við að einhverju leyti. Drunuverk („drone“) svo sannarlega og fyrsti hlutinn gæti verið úr ranni Sunn O))). Það er „avant-garde“ andi yfir en líka hreint og beint rokk. Verkið bungast og beljast áfram eins og berserkur en Bára skreytir það á stundum með hvellum, björtum hljóðum. En alla jafna erum við umhverfð þungum, nötrandi hljómum sem allt gleypa.

Eftirspil verksins eða „coda“ er glæst. Tónlistin stoppar næstum því á 46. mínútu eftir talsverðan hamagang en fer svo upp í hrárri, lágværari óhljóð. Minnir dálítið á William Basinski og The Disintegration Loops, hvernig verkið svona varla hangir saman, eins og það sé að gliðna í sundur og hverfa. Minnir og á lok Tarkovsky-mynda (Andrei Rublev, Nostalgia) þar sem það kemur svona stillilegur, ljóðrænn „ambient“ rammi í endann á allri sturluninni.

Ég hlustaði hátt og þetta var ótrúlegt eins og venjulega. Þvílík listakona sem Bára Gísladóttir er og ég þreytist aldrei á að breiða út boðskapinn. Kannið þessa tónlist, helst í gær, á öllum þeim veitum og vettvöngum sem þið hafið aðgang að. Fyrirsögnin er svo óbein tilvitnun í ljóðmæli eftir frænku mína, Theodóru Thoroddsen, svona ef þið voruð að spá í henni.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: