Stefnumót Emilíana Torrini og The Colorist Orchestra fundu hvort annað. Sem betur fer.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. mars, 2023.

Allir litir regnbogans

Racing the Storm er nýjasti breiðskífu­ávöxtur Emilíönu Torrini og The Color­ist Orchestra. Rýnum aðeins í þetta merka samstarf.

Það fellur á með ljúfri löð ef ég má orða það þannig. Tónlistin umvefur mann, þægilega já, en ekki samt í bakgrunninum beint. Þetta er stemningsmúsík en hvaða stemning er þetta? Erum við í Evrópu? Arabíu? Söngröddin gjörsamlega kunnugleg því hún er okkar, Mörlandans. Og Ítala reyndar líka. En hverjir eru að spila? Jú, Belgar. Það er kaffilykt af þessu, weilísk leikhússtemning næstum því en um leið óræðar „ambient“ stemmur, eins og lögin séu toguð niður úr undarlegri kammerveislu sem fram fer á himnum, hvar Tom Waits og David Lynch ganga um beina.

Hæ! Ég er ekki alveg farinn, lesendur góðir. Engar áhyggjur. Ég datt bara ofan í stemningu því að það er það sem þessi plata, Racing the Storm, snýst um. Emilíana Torrini syngur, hin belgíska The Colorist Orchestra sér um undirleik. En svo rennur þetta tvennt saman svo undurblítt eitthvað og maður vaknar á aftasta bekk í kvikmyndahúsi á landamærum Belgíu, Frakklands, Ítalíu og Íslands.

Samstarf orkestrunnar og Emilíönu hófst fyrir átta árum síðan en þá endurvann hún efni eftir Emilíönu í samstarfi við söngkonuna. Tónleikar fylgdu. Platan sem kom út þá, 2016, er tónleikaplata en nú var arkað í hljóðver. Aarich Jespers og Kobe Proesmans, leiðtogar The Colorist Orchestra, fóru að semja lög ásamt Emilíönu og fyrst um sinn var unnið að framgangi verksins með fjarrænum hætti enda geisaði heimsfaraldur.

En förum meira inn í plötuna, reynum að ná utan um heildina en tökum líka hvert og eitt lag í sundur. Fyrir það fyrsta, það er gott að sjá Emilíönu á flugi. Alltaf virk, vissulega, en oft undir radarnum og plöturnar koma stopult. Því miður fyrir okkur aðdáendurna. Þannig að þetta verk er kærkomið. Gagnrýnandi Allmusic.com, Timothy Monger, reynir á dálítið klisjukenndan hátt að stilla fram hinu norræna og suðræna í dómi sínum um plötuna en mér finnst það ekki eiga við. Emilíana hefur aldrei stillt sér fram sem ísprinsessu, ímyndarskapalón sem margar söngkonur frá Norðurlöndum máta sig við og það skiljanlega. En Monger hefur rétt fyrir sér, að það er reykmettun í gangi hér og næturklúbbastemmari. Og Monger hefur alveg rétt fyrir sér líka þegar hann segir að þó að The Colorist Orchestra sé þekktust fyrir endurtúlkanir þá geti hún líka byggt sitt eigið. Og í þessu tilfelli, ásamt með gildandi listakonu, sjálfri Emilíönu Torrini.

Á meðan „Mikos“ opnar plötuna mjúklega, leitt af marimbu og seiðandi röddu Emilíönu, er óðar skipt um gír í næsta lagi, „You Left Me In Bloom“. Japanskir straumar rúlla í gegnum lagið meðal annars, görótt heimstónlistarhanastél sem virkar vel. En platan er glettilega fjölbreytt. Í bland við stemningsbundin lög eru lög sem mætti kalla hreinna popp. Sjá t.d. „Hilton“ þar sem brennimark Emilíönu er afar greinilegt. Lagið byrjar eins og hæg útgáfa af „Jungle Drum“ áður en það fer í rafbundnari áttir.

Ég lýsi heildrænni, eiginlega draumkenndri stemningu í upphafi en um leið eru sveigjur og beygjur inni í rammanum. Tiltek líka „A Scene From A Movie“ sem er nákvæmlega það. Emilíana syngur ekki einu sinni en samt finnur maður fyrir henni!

Ég er búinn að henda upp lögum, skoða þau í króka og kima en ég ætla að enda á upphafinu. Þessi plata er stemning fyrst og síðast, ferðalag svo ég fái nú að henda í eina klisju líka. Mest um vert er þó að það er virkilega styrkjandi að heyra okkar allra bestu á flugi og megi hún vera á því lengi enn.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: