Hendi inn fimm platna stafla í vikunni. Þar á meðal var dómur um frábæra plötu Eysteins Péturssonar, Það er margt í mannheimi. Langaði til að taka hann sérstaklega út, svona til að gefa honum meiri athygli og vægi. Hann á það skilið.

[Dómurinn var skrifaður fyrir Morgunblaðið og birtist þar, þriðjudaginn 22. maí]

Eysteinn Pétursson – Það er margt í mannheimi

4/5

„Ef Ólöf Arnalds væri eldri maður sem byggi í Breiðholtinu…“ er ein af þeim setningum sem ég hef heyrt í tengslum við þessa dásamlegu plötu Eysteins Péturssonar. Sonur hans, Svavar Pétur Eysteinsson (Prinspóló), sá um upptökur og útgáfu og innihaldið er einlæg og alþýðleg tónlist sem Eysteinn syngur við eigið gítarundirspil. Mörg laganna urðu til á námsárum Eysteins í Kaupmannahöfn og bera með sér skemmtilega sérstæðan blæ. Söngur Eysteins er í senn blíður og hrjúfur, á vissan hátt seiðandi og röddin dregur mann inn í lögin. Sum þeirra, eins og „Ókindarkvæði“, eru naumhyggjuleg þar sem versin ganga í endurteknum lykkjum en hér eru líka galgopalegar smíðar („Má ég fá harðfisk“) og opnunarlagið, „Það sem enginn veit“, er einfaldlega fallegt. Hljómur plötunnar er lágstemmdur og berstrípaður flutningurinn gerir að verkum að maður dokar við og sperrir óhjákvæmilega eyrun. Það er svo nærandi að hlusta á tónlist sem er gerð á hinum einu og réttu forsendum; hinni knýjandi þörf til að skapa. Það gefur óhjákvæmilega eitthvað satt af sér, eitthvað fallegt, eins og þessa plötu hér.

 

 

One Response to Plötudómur: Eysteinn Pétursson – Það er margt í mannheimi

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: