Töff Vigdís Howser Harðardóttir kallar ekki allt ömmu sína.
— Ljósmynd/Berglaug Garðarsdóttir

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 27. júní, 2020.

Hefndin er sæt

Nóg er á seyði í íslensku hipphoppi og sérstaklega hafa komið út áhugaverðar plötur úr ranni kvenna. Fyrir stuttu gaf Fever Dream til dæmis út sex laga plötu, Baby Girl Vendetta.

Fever Dream er listamannsnafn Vigdísar Howser Harðardóttur. Hennar varð fyrst vart sem hluta af Reykjavíkurdætragenginu en lag, „Reyndu bara“, kom svo út 2017 og plata einnig, Nom De Guerre . Hún er sjö laga á Spotify, en þar er einnig að finna stök lög (Fever Dream er einnig með SoundCloud-svæði). Baby Girl Vendetta kom svo út í maí síðastliðnum, en hún var unnin í Berlín, hvar Vigdís býr um þessar mundir. Ljóst er að sú yndislega borg er að styðja vel við okkar stúlku, maður finnur fyrir heilnæmri sköpunargleði á plötunni og Vigdís nær að streyma frjálslyndinu og framsækninni sem leikur um borgina inn á hljóðrásirnar.

Fever Dream er neðanjarðarrappari samkvæmt skilgreiningunni og er ekki í ósvipuðum gír og Countess Malaise. Svona hryllingsdæmi í gangi og vel af hráleikanum. Þær eru líka báðar að ýta á hugmyndir okkar um kvenleika og kynjahlutverk, toga þær og teygja og fá neytendur til að hugsa og sjá hlutina í nýju ljósi. Stíll þeirra er samt ólíkur, þá sérstaklega með tilliti til sjálfrar tónlistarinnar. Fagurfræði Fever Dream er annars forvitnileg. Hún vísar að einhverju leyti í „pin-up“ list fimmta og sjötta áratugarins, hvar módel eins og Bettie Page fóru mikinn í sokkaböndum og ýjað var að þræla- og húsbóndaleikjum. Umslagið á Baby Girl Vendetta er skýr vísun í þetta tímabil en einnig er nettur „voodoo“-blær yfir. Ég hugsa líka um „psychobilly“ eins og Cramps. Vigdísi tekst að samþætta þetta allt á sannfærandi hátt. Ímyndarsköpun Fever Dream (sjá Instagram) er líka einkar valdeflandi, hún er kynæsandi en hikar ekki við að vera með hár undir höndum um leið. Skemmtilegir bjúgverplar á lofti þarna og „sjokk“-takkinn í mikilli notkun. Er það vel.

Tónlistin á Baby Girl Vendetta er fjölsnærð og lögin af ýmsum toga. Fer stirðlega af stað reyndar, „Gang gang“ er flutt með rapptækni sem ég er ekki alveg viss um lengur (og Vigdís útskýrði fyrir mér að það væri viljandi asnalegt). Kraftmikil byrjun engu að síður. „Storage“, þar sem DEATXWISH kemur við sögu, er aftur á móti mjög flott. Svalt flæði og mikið „avant-garde“ skuggadæmi í gangi. „Bouncing“ er enn betra, Vigdís syngur og melódían fín þó að lagið sé meira eins og skissa. Hvet hana til að vinna meira með svona hugmyndir í næstu umferð. „Back Then“ er ekki ósvipað, hæg og andvaka Lip Peep áhrif. „Don’t Call Me“ setur svo slaufu á plötuna á hressilegan hátt. Textinn þar er svakalegur, afar „líkamlegur“ svo ekki sé meira sagt. Jafnvægið er gott á plötunni, hráleiki í bland við poppaðri smíðar. Vigdís veldur þessum mýkri þáttum vel og mögulega vísa þeir til framtíðar. En ég myndi hafa drulluna með líka. Nauðsynlegt.

Eins og segir, gerjunin í þessum efnum er mikil nú um stundir. Reykjavíkurdætur eða Daughters of Reykjavík gáfu út nýja plötu, Soft Spot, fyrir stuttu og var skellt á forsíðu The New York Times fyrir vikið. Þá er ekki langt síðan þær Cell7 og Countess Malaise voru í Osló vegna Norrænu tónlistarverðlaunanna, þar sem þær voru tilnefndar fyrir Íslands hönd ásamt líka Hildi Guðnadóttur (sem var svo sæmd verðlaununum).


Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: