Tveir Ólafur Björn Ólafsson og Jo Berger Myhre.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 4. júlí, 2020.

Að byggja á bjargi

Hljóðfæraleikararnir Ólafur Björn Ólafsson og Jo Berger Myhre hafa nú gefið út tvær plötur í sameiningu og hafa þær vakið verðskuldaða athygli í tónlistarkreðsum Norðurlandanna.

Ólafur okkar Björn Ólafsson er að upplagi trymbill eins og við þekkjum en hann hefur og standsett sig sem margháttaðan hljóðfæraleikara og tónskáld á síðustu árum. Jo Berger Myhre er kontrabassaleikari en fer, eins og Ólafur, inn á mörg tónlistarleg svið sömuleiðis. Fyrsta plata þeirra sem dúetts var The Third Script (2017) en sú síðari, Lanzarote , kom út síðasta haust. Fyrir báðar plötur hafa þeir verið tilnefndir til ýmissa verðlauna, t.a.m. norsku Spellemann-tónlistarverðlaunanna og íslensku tónlistarverðlaunanna. Í báðum tilfellum í svofelldum opnum flokki, enda tónlistin afar óræð verður að segjast.

Fyrri platan var unnin svo til eingöngu af þeim félögum en í þetta sinnið fengu þeir aðstoð frá Íslandi. Eiríkur Orri Ólafsson blæs í trompet og Ingi Garðar Erlendsson blæs í túbu og básúnu. Það er Hubro, norsk útgáfa sem er helguð þarlendri djass- og spunatónlist, sem gefur út, en það er undirmerki Grappa, sem er stærsta óháða útgáfa Noregs. Plötuumslögin eru hönnuð af Yokoland og fylgja sömu fagurfræðilegu línu (ekki ósvipað og hjá ECM). Lanzarote var hljóðrituð í Reykjavík og Ósló en þeir félagar hafa einnig náð að spila efnið á tónleikum, m.a. í Mengi hér á landi.

Tónlistin er óræð eins og segir. Á mörkum „ambient“-tónlistar og einhvers konar djass. Giska aðgengileg en með óvæntum snúningum um leið. Hægstreym og stillt með miklu rými. Platan er ekki nema rétt rúmur hálftími en að sama skapi þétt og áhrifarík, einmitt fyrir þær sakir. Stök píanóslög fá að titra lengi lengi og blástur þeirra Eiríks og Inga liggur undir í einslags snotrum drunga ef hægt er að lýsa því svo! Meðfram þessu skjóta raf- og áhrifshljóð upp kolli. Stundum er framvindan eins og um framsækna nútímaklassík sé að ræða en maður heyrir líka í rokk- og poppbakgrunni þeirra félaga nokkuð greinilega. Allir þessir ólíku vinklar byggja síðan undir sannfærandi og heilsteypt verk. Lanzarote er nefnilega falleg plata. Stillt og íhugul. Sorgbundin en uppfull af vonarglætum um leið.

„Platan tók lengri tíma en sú fyrsta,“ segir Óli Björn í opinberri tilkynningu: „En líkt og síðast, þá er þetta byggt á spuna fyrst og fremst. Svo er nostrað hressilega við þetta í eftirvinnslunni; hljóðfærum og hljóðum bætt við eins og þurfa þykir.“ Lanzarote er nafn á eyju í Kanaríeyjaklasanum en líka nafn á prósa eftir Michel Houellebecq en þeir félagar hafa verið að lesa verk hans og ræða. Jo Berger Myhre segir í sömu tilkynningu að þeir hafi heillast af andstæðunum hjá Houellebecq, þessu tilfinningaríka og þessu gróteska, og að platan búi yfir þessu sama að einhverju leyti.

Upphafslagið „Grain of sand“ er þá tileinkað Jóhanni Jóhannssyni heitnum en hann og Ólafur störfuðu náið saman í gegnum hin ýmsu verkefni. Lagið hljómar eins og meðvituð hylling, býr yfir sömu djúpu melankólíunni og mörg verka Jóhanns. Ólafur heldur áfram í nefndri tilkynningu: „Lagið er uppfullt af sorg,“ staðfestir hann. „Við sömdum það nokkrum dögum eftir harmafregnina. Lanzarote er líka um leið sá staður sem við hittumst síðast á. Við höfðum spilað saman á tónleikum í helli einum og sögðum bless á flugvellinum. Grínuðumst með að næst yrðum við að fara á ströndina.“


Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: