Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 28. október.

Þegar innrásin var gerð

Mutter Courage er tónlist þeirra Helga Hrafns Jónssonar og Valgeirs Sigurðssonar við samnefnt leikrit Bertolts Brechts. Þetta magnaða verk var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á fimmtudaginn sem Mútta Courage og börnin.

Leikritið, Mutter Courage und ihre Kinder, var skrifað árið 1939 af þeim Bertolt Brecht og Margarete Steffin og eru leiðarstefin eyðingarmáttur stríðsins (og kapítalismans) ásamt sjálfsbjargarviðleitni einstaklinganna. Það er heldur betur hægt að taka undir kynningartexta Þjóðleikhússins þar sem segir að verkið tali nú til okkar af „endurnýjuðum krafti“. Leikritið fjallar um „ólíkindatólið Múttu Courage sem ferðast um í stríðshrjáðri Evrópu með söluvagn sinn“ svo ég haldi áfram að vitna í umræddan texta og hefur hún „lifibrauð sitt af því að selja hernum varning og einsetur sér að komast af ásamt stálpuðum börnum sínum þremur. Mútta Courage er hörkutól, kjaftfor og fyndin, sölumaður af guðs náð, en sú spurning verður sífellt ágengari hver sé í rauninni að græða.“

Leikritið inniheldur nýja tónlist eftir Valgeir Sigurðsson og Helga Hrafn Jónsson sem er nú komin út á streymisveitum. Helgi syngur öll hlutverkin á plötunni við nýja texta eftir Bjarna Jónsson. Hópur leikara sér hins vegar um þann þátt á sviðinu undir styrkri leikstjórn Unu Þorleifsdóttur.

Helgi segir frá því á Fjasbókarsíðu sinni að hann og Valgeir hafi brallað ýmislegt saman undanfarna tvo áratugi. Grallaraskapur í hljóðverinu samfara innspili á alls kyns plötur og uppátroðslum á tónleikum um veröld víða. Lögin sem prýða þennan grip eru ellefu (ásamt for- og eftirmála) og er heildartími tæpar fjörutíu mínútur. Tónlistin er falleg og áferðin er mött. Tónarnir eru pastellitaðir, hvar þeir fanga ömurðartíma styrjalda. Brúnhvítar senur koma upp í hugann þegar hlustað er, mútta að basla en uppgjöf ekki inni í myndinni. Já, tónlistin er falleg en hún er um leið sorgleg. Angurværð er líka eitt einkennanna, því að í melódíunum er von innan um melankólískt flæðið. Meira um það hér á eftir.

Það er hrikaleikur í formálanum, styrjaldarógn tónsett með viðeigandi áhrifshljóðum. Fyrsta lagið er „Mutter Courage“ hvar hetjan er kynnt. Tónlistin er blanda af líf- og rafrænu, píanóslag í fylgd með ókennilegum drungahljóðum og sprengingum (hljómur plötunnar er annars unaður). Þetta er áhrifaríkt upphaf og Helgi tekur sér stöðu nokk glæsilega. Söngrödd hans er þess til að gera blíð en hún er sterk um leið og innlifun öll er sönn og hrein. Söngurinn liggur nálægt okkur og Helgi klifrar upp í hálfgildings falsettu á völdum köflum. „Eilífur“ er sungið af meiri ákefð, meiri spennu, líkt og Helgi ætli að leiða eitthvert hrikalegt leyndarmál í ljós. Raddbeitingin önnur og Helgi er naskur á kröfur leikhússins. „Yvette“ er leitt með píanóspili, undir því klór og þrusk, og Helgi fer með melódíuna upp í hæstu hæðir (sjá sérstaklega um 1:30). Stingandi flutningur, það er bara þannig.

Svo má telja. „Eyktarkvæði“ er æst og hlaðið, píanóspilið „evrópskt“ og þannig blær yfir öllu í raun, eðlilega. En vel eru þau hrif fram knúin. „Kvæðið um Salómon“ er rólegra, mæddur píanóleikur og andi Jeffs Buckley á kreiki, svei mér þá. Þeir félagar valda vel jafnvægi hins lífræna og tölvugerða eins og áður segir (sjá hið ólmandi „Frá Ulm til Metz“) en svo koma líka tandurhreinar ballöður, svona að mestu („Í garðinum miðjum“).

Lokalagið, „Ég læt ykkur ekki eyðileggja fyrir mér stríðið“, er hrífandi og gott dæmi um samspil ljóss og myrkurs, hins létta og hins þunga, hins hræðilega og hins vonbjarta, allra þeirra andstæðna sem eru dregnar listavel fram í þessari vel heppnuðu leikhúsmúsík.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: