Fjölhæf Ingu Björk er margt til lista lagt.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 17. júlí, 2021.

Bjóðum bjartan hljóm

Inga Björk Ingadóttir, lýru- og hörpuleikari, söngkona, tónskáld og margt fleira tekur markviss skref fram á við á plötu sinni Blær & stilla.

Inga Björk er músíkmeðferðarfræðingur (þerapisti) og starfar sem slíkur í Hljómu, sem er hennar eigin meðferðarstöð, staðsett í Hafnarfirði. Þar var þessi nýja plata hennar einnig tekin upp en áður hefur platan Rómur komið út (2018). Á henni var lýruleikur Ingu í aðalhlutverki en Inga söng einnig yfir lögunum. Plata sú býr yfir blíðri og upplyftandi áferð og alþýðutónlist Íra og vísnasöngur frá Norðurlöndum kom í hugann við hlustun.

Útsetningar og upptökustjórn á Blæ & stillu var í höndum listamannsins, en Haraldur V. Sveinbjörnsson tók upp og hljóðblandaði. Sigurdór Guðmundsson hljómjafnaði. Flytjendur á plötunni eru svo Inga Björk Ingadóttir, Haraldur V. Sveinbjörnsson, Fríða Dís Guðmundsdóttir og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir. Ýmis hljóðfæri, kunnugleg sem ókunnugleg, koma við sögu. Inga á sjálf lög og texta en laglína „Snædrottningarinnar“ er eftir Achim Zitzmann.

Blær & stilla er fyllri en forverinn, sumpart poppaðri á ákveðinn hátt. Það er meiri hljómsveitarandi, sökum þess sem hefur verið greint frá, og tilfinningin er sú að það sé meðvitað verið að losa sig undan ham skrifaðrar og skólagenginnar tónlistar og finna með því fyrir frelsisbundnum vængjaslætti sem fylgir gjarnan hefðum popp- og rokkheima, hvar oft er lengra í höft og Excel-skjöl (sem getur engu að síður verið til bölvunar bæði og blessunar, höfum það alveg á hreinu).

Blær & stilla situr eiginlega á mörkum tveggja heima. Margt hérna er ævintýralegt (sjá t.d. glæsilegt umslagið, sem er prýtt teikningum eftir Birgittu Sif) og næft í einhverjum skilningi en platan nær þó aldrei að sveiflast yfir í að vera fullburða barnaplata. Ekki frekar en plötur múm, sem í upphafi léku sér að minnum úr barnæsku og máluðu upp sakleysislegar og angurværar myndir. Upphafslag plötunnar, „Bjóðum bjartan hljóm“, ber t.d. með sér þjóðlaga- og vögguvísusnið Róms á meðan „Lirfulag“ myndi vissulega smellpassa inn á einhverja barnaplötuna, er einfaldlega þannig í sniðinu. Í þriðja laginu er svo aftur breytt um kúrs, fullorðinslendur taka við og lagið rúllar eins og eitthvað úr ranni Belle & Sebastian eða Joönnu Newsom. Restin af plötunni er aðallega í þessum síðastnefnda gír; dansar á mörkum neðanjarðar- og nútímatónlistar, með viðkomu í næfum þjóðlagalendum þar sem tilveran er í senn falleg, dulúðug og ævintýraleg.

Í janúar var Inga Björk gestur í Popplandi á Rás 2, hvar Lovísa Rut Kristjánsdóttir ræddi við hana og í maí spjallaði hún við Sigurlaugu M. Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. Í báðum þáttum reifaði hún hvernig aðkoma hennar að tónlistarmeðferðinni sem hún vinnur við undirstingur tónlistina sem hún semur á svo margvíslegan hátt. Tónlistin bankar, virðist vera, harkalega í Ingu um þessar mundir, vill að hún semji sig og sem einslags kitlur að Blæ & stillu komu smáskífurnar Straumur og Skammdegi út í fyrra. Þá ber að minnast á vefsíðu Ingu (ingabjork.com) hvar hægt er að finna ýmsan fróðleik um aðkomu hennar að hinum ýmsu verkefnum. Trausti Dagsson hefur þar ofið glæsilegan vef sem er í fullkomnum samhljómi við listrænar eigindir Ingu, hálfgert ævintýraland þar sem allt virðist mögulegt, rétt eins og á sjálfri plötunni. Hana er svo hægt að kaupa á vínyl og nálgast á Bandcamp (ingabjork.bandcamp.com).

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: