eitt cover

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 28. nóvember, 2015

Gætt að…


Eitt er plata eftir þá Jón Ólafsson og Futuregrapher sem er listamannsnafn Árna Grétars Jóhannessonar. Jón leikur á píanó en Futuregrapher sér um hljóðgervla og áhrifs- og vettvangshljóð. Jón og Árni hljóðblönduðu en Finnur Hákonarson hljómjafnaði. Möller Records gefur út.

Það sýnir alltaf djörfung og þor er menn stíga út fyrir rammann, við erum dýr vanans og auðvitað er þægilegra að sýsla við það sem maður kann frekar en að vera að paufa við eitthvað sem er manni framandi. En afrakstur slíkra ævintýra getur verið bæði gagnlegur og góður, jafnt fyrir þann sem tekur stökkið og nærumhverfið. Slíkt á svo sannarlega við hér.

Eitt er sveimi bundin plata (e. „ambient“) þar sem tónlistin lykst um hlustandann, gárar í bakgrunninum fremur en að kalla eftir athygli en þegar vel tekst til smýgur hún inn í mann, eða drýpur inn í mann, hægt og sígandi. Jón Ólafsson og Futuregrapher virðast við fyrstu sýn standa ansi langt hvor frá öðrum í tónlistarlegu tilliti en er það svo? Þegar maður hugsar um það þarf samstarfið ekki að koma svo mikið á óvart. Þó að Jón sé hvað þekktastur fyrir glúrið og áferðarfallegt popp í gegnum Nýdönsk og sólóefni sitt, og svo veru sína í Bítlavinafélaginu, hefur hann alla tíð verið leitandi og forvitinn. Hann er kannski að svala þeirri þörf nú með hvað mest afgerandi hætti en lítum á önnur dæmi: Hin stórskemmtilega Possibillies fór t.d. iðulega skringilegar leiðir (og gaf út tvöfalda vínylplötu, Töframaðurinn frá Riga, þar sem fjórða hliðin var auð en bar þó titillinn „Töframaðurinn hugsar“). Jón sá um hljóðmottuna á ljóðadiski Ceres 4 sem hann gaf einnig út í gegnum merki sitt og var hún sveimkennd mjög. Einnig tók hann upp og gaf út plötu Vinabandsins, þar sem hópur eldri borgara söng saman, dásamlega einlæg og falleg plata. Futuregrapher hugsar á líkan hátt, piltur sá er með galopinn huga og hefur snert á flestum geirum raftónlistarinnar á ferli sínum. Þeir félagar eru í raun sjálfsagðir bólfélagar fremur en óvæntir.

En hvernig er svo útkoman? Það er nærandi andi í Eitt og flæðið kallar fram þessar klassísku sveimplötur; meistarar eins og Brian Eno koma upp í hugann og líka þessi evrópska raf-sveimklassík frá síðari hluta áttunda áratugarins og eitthvað inn í þann níunda. Minimalistar eins og Gavin Bryars og samtímaskáldið Nils Frahm svífa og í kring. Þeir félagar eru alls ekki að finna upp hjólið, þetta er sveimplata með sígildu sniði og sterkt framlag í þennan nefnda geira, stendur jafnfætis mörgu því besta sem maður hefur heyrt þaðan. Árni leggur rafmottur af mikilli natni og Jón breiðir píanóið yfir af viðlíka næmi – þeir félagar dansa einhvern veginn fallega hvor í kringum annan. Platan rúllar þægilega áfram, það er heilandi að hlusta, en aldrei er hún ódýr og minnir ekki á þá hroðvirknislegu nýaldarframleiðslu sem maður heyrir gjarnan í anddyri nuddstofa.

Þar koma tónlistarmennirnir Jón og Árni inn þar sem platan hefur rökrétta heilsteypta uppbyggingu. Píanóið er t.a.m. sparlega notað oftast nær og það er unnið markvisst með þögnina þótt Jón taki stundum á sprett, Satie-legar melódíur gera t.d. vart við sig. Lögin minna hvert á annað þó að blæbrigðamunur sé og þetta er undirstrikað í titlum stundum; „Sálmur“ er… tja… sálmalegt og heyra má barnsraddir í „Börn“. Það er þá ókennileg spenna – ég veit að þetta hljómar þversagnakennt – í sumum lögunum sem gefur þeim aukna vigt og dýpt.

Virkilega vel heppnað verk og að sama skapi lukkulegt samstarf. Ég hlakka til að heyra næsta skammt, sem ku vera í undirbúningi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: