Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 29. júlí, 2017

Átján laga yndislegheit

Fimmta safnspóla hinnar merku útgáfu Ladyboy Records kom út í síðasta mánuði. Hún inniheldur átján lög með jafn mörgum flytjendum og er hægt að nálgast herlegheitin á Bandcamp einnig.

Nú er um ár liðið frá síðustu safnspólu Ladyboy Records (013) en þessi er með vörunúmerið 018. Það er auðvitað afskaplega mikilvægt að starfsemi íslenskrar grasrótar sé skráð með einhverjum hætti og útgáfa á safnspólum, -plötum, -diskum er einn liður í því. Mikilvægið liggur í að ramma þetta inn með einhverjum hætti; sem sagt safna lögum saman, setja þau í einn bing og búa til viðburð úr útgáfunni. Nokkurs konar „skjáskot“ af ákveðnum tíma, ákveðinni senu. Safnspólur frá níunda og tíunda áratugnum; Snarl, Strump og Skúringar t.d. þjónuðu þessu sama hlutverki og margar mektarsveitir lifa eingöngu, hljóðritunarlega séð, í þessum útgáfum. En í þá daga var þetta líka eina leiðin til að koma hlutunum út. Í dag streymir allt út á netið og fer auðveldlega framhjá fólki eða einfaldlega forgörðum, sé því ekki smalað í einhverja rétt. Hægt og bítandi, get ég ímyndað mér, munu youtube-rásir í raun þjóna hlutverki gömlu safnplatnanna og um margt sniðugra í raun; hægt er að hlaða inn lögum eða skipta út eins og hentar. En það er þetta með „hlutinn“ sem vantar, þetta áþreifanlega.

Og ekki mun ég gráta það, þegar umbúðalausi tíminn rennur upp. Tæknin breytist einfaldlega og það gerir hún tiltölulega hratt. Að koma hljóðriti á fast form er ekki svo gamalt fyrirbæri og það mun hugsanlega hverfa með öllu, rétt eins og vaxhólkarnir forðum daga. En er á meðan er og Ladyboy Records 018 er safnkassetta, upplagið 50 stykki og hulstrið glært en búið er að leysi-grafa það með myndum og táknum. Glæsilegt! Einnig er hægt að streyma innihaldinu eða hala því niður.

Alveg eins og með safnspólurnar gömlu er blanda af kunnuglegum andlitum hér og nýjum gestum. Nokkur nafnanna hafa fylgt útgáfunni lengi vel; Ultraorthodox, Skelkur í Bringu, Harry Knuckles, Lord Pusswhip, Nicolas Kunysz og russian.girls koma hér öll við sögu og þannig er nokkurs konar sögulegri samfellu viðhaldið. Allt virkir listamenn sem m.a. hafa átt sér útskot getum við sagt á þessum safnspólum. Svo eru hér ný andlit. Steindór Kristinsson er reyndar ekki nýtt andlit, þekktur fyrir veru sína í Einóma, en hann leggur hér til tilraunakennda smíð, „Eleni Goes Boing“. Lagið er í stíl við lungann af efninu sem hér er að finna sem er jafnan vel sýrð neðanjarðartónlist, á mörkum hins áheyrilega og mikið er það nú dásamlegt! Ýmislegt rokkkyns sprettur fram er líða tekur á spóluna, Notorious Wave Slicers eiga skringilegt brimrokk, ég hef aldrei heyrt um þessa sveit, veit ekkert hverjir eru í henni. Gætu þess vegna verið aðstandendur Ladyboy og vinir þeirra. Hvað veit maður? Ráðgátur eins og þessar gefa svona söfnum vigt. Gaman líka að Skröttum og Axon Bronson, lag sem hefði getað komið út á Bad Vuugum árið 1990.

Þannig er nú það það. Áfram Ladyboy Records. Gott og þarft starf sem þar er unnið.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: