Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. júlí, 2017

Nóg í gangi neðanjarðar

 

Myrkfælni er nýtt samstarfsverkefni tveggja stúlkna sem ætlað er að kynna íslenska neðanjarðartónlist, heima og ekki síst erlendis, með útgáfu á tímariti, tónlist og fleiru.

Þær Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir og Kinnat Sóley Lydon standa að Myrkfælni en þær hafa verið giska öflugar hvað íslenska neðanjarðartónlist varðar undanfarin ár. Sólveig er meðlimur í Kælunni miklu auk þess að gera sólótónlist og fyrir tveimur árum stofnaði hún útgáfu- og viðburðafyrirtækið Hið myrka man sem hefur verið aðsópsmikið í tónleikahaldi, útgáfu o.fl. í Reykjavík. Kinnat er hönnuður sem hefur hannað plötuumslög, dreifimiða og veggspjöld fyrir íslenskar sem erlendar sveitir.

Hvað hið nýstofnaða verkefni Myrkfælni varðar er megingáttin þar samnefnt tímarit, sem ætlað er að kynna íslenska neðanjarðartónlist fyrir áhugasömum og þá ekki síst fólki sem er erlendis. Tímaritið kemur út 1. ágúst næstkomandi og er farið í prentsmiðjuna. Að sögn þeirra Sólveigar og Kinnat hafa þær orðið þess áskynja að athyglin utanfrá beinist einkum að íslenskum tónlistarmönnum sem eru komnir nokkuð vel á veg með sinn feril og þau bönd og listamenn sem eru kirfilega neðanjarðar, en þó með talsverð umsvif, eiga það til að falla á milli þilja. Þessu vilja þær breyta og koma á nokkurs konar tengingu á milli íslensku neðanjarðarsenunnar og þeirra sem í gangi eru í öðrum löndum. Blaðið er á ensku og inniheldur greinar um útgáfufyrirtæki, hljómsveitir og tónlistarhátíðir auk gagnrýni. Það kemur út í 1.000 eintökum og fer fjöldi eintaka til ýmissa dreifiaðila erlendis, í yfir 50 borgum. Þær stöllur leggja áherslu á að þó að netið sé yfir og allt um kring í dag hafi prentmiðlar ennþá mikið gildi, sérstaklega í neðanjarðarsenunum, og verður áhersla lögð á að gefa tímaritið út á þann hátt þó að netið verði og nýtt upp að vissu marki.

Samfara tímaritinu er safnplata eður safnstreymi komið út á Bandcamp-síðu Myrkfælni. Platan inniheldur rúmlega tuttugu lög með hinum og þessum listamönnum sem koma og við sögu í tímaritinu góða. Suma kannast ég við, bæði af safnkassettum sem hið ágæta fyrirtæki Ladyboy Records hefur gefið út og svo af svipuðum útgáfum sem Hið myrka man hefur staðið að (Myrkramakt I og II). Á Myrkfælni kennir ýmissa grasa, talsvert er um níunda áratugar gotarokk og -raf, eða tilbrigði við slíkt öllu heldur, en það er tímabil sem Kælan mikla, Hið myrka man og Myrkfælni sækja í, bæði tónlistarlega og fagurfræðilega. Kælan mikla, Kvöl, Rex Pistols, Kuldaboli og Madonna + Child (sem gefa út plötu brátt) sigla öll um þessi myrku djúp og þá er gaman að heyra í Döpur (verkefni Veganæsparsins Krumma og Linneu) sem fara út í netta „rafafls“-tónlist eða „power electronics“ eins og Englar kalla það víst. Countess Malaise og Lord Pusswhip sjá um rappið á meðan Dead Herring PV, ROHT og Dauðyflin snara upp hávaðapönki og -rokki. Andi og AAIIEENN eru hins vegar á raf- og teknónótum. Og er þá ekki allt upptalið.

Persónulega er ég einkar hrifinn af þessu framtaki öllu. Í grasrótinni fá hlutirnir iðulega að gerjast óáreittir og oft er útkoman falleg og heiðarleg sköpun. Að styðja við slíkt er lífsnauðsynlegt, hreinlega, og ég óska því Sólveigu og Kinnat til hamingju með herlegheitin.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: