Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 15. júlí, 2017

Fallegt, furðulegt og flott


TSS er listamannsnafn Jóns Gabríels Lorange, sem fyrst varð þekktur sem annar helmingur dúettsins Nolo. TSS á nú að baki fjórar útgáfur, sem nálgast má á Bandcamp, miklir mektargripir allir sem einn.

Smellti mér á tónleika á dögunum með minni kæru systur, sem Bíó Paradís stóð að. Náði þar hinum frábæra Anda (sem ég hef skrifað um hér áður) en missti nær algerlega af TSS, sem mér þótti miður. Það er eins tónleikamenning, upp á tímasetningar, sé að lagast, en fólk af minni kynslóð er vant því að atið hefjist aldrei fyrr en í fyrsta lagi hálftíma eftir auglýstan tíma.

Alltént, ég er reyndar búinn að vera með TSS lengi vel á skrá hjá mér, langaði til að hripa niður nokkur orð af þeirri einföldu ástæðu að hann er að gera dásamlega hluti. Nolo var í miklu dálæti hjá mér á sínum tíma, og eftirfarandi hafði ég að segja um plötu þeirra Nology frá 2011: „Lög sem eru skökk, skæld og hljóma „illa“ – miðað við það sem almennt er talið gott – hljóma þvert á móti vel. Þetta heilnæma skeytingarleysi gagnvart viðteknum fegurðarstöðlum í popptónlist er styrkur Nolo, það sem byggir undir galdurinn.“ Nolo var ferskur andblær í senuna á þeim tíma, „líkt og þruma úr heiðskíru lofti, eða kannski öllu heldur eins og einhver dularfull sending úr geimnum; torkennilegar segulbylgjur frá áður ókannaðri reikistjörnu“, eins og yðar einlægur komst að orði um þá pilta, og átti greinilega erfitt með sig, sökum hrifningar.

TSS stendur alls ekki fjarri þessum lýsingum, tónlistin er á svipaða lund. Stundum er þægilegt, eiginlega nauðsynlegt, að hætta að leita að snertipunktum og samlíkingum í svona skrifum, TSS hljómar eins og þessi eða hinn. Því að þrátt fyrir að það sé vissulega hægt (hey, ég hef atvinnu af slíku!) langar mig í þetta sinnið bara til að tala um hvað þetta er skemmtileg tónlist. Fyrst og síðast. Gamlir svuntuþeysarar, bergmálssöngur, óvæntar sveigjur og beygjur og stundum hreinasta flipp, greinilega „af því bara“. Allt er þetta einfaldlega gott og ég ætla að taka hippísku afstöðuna og segja, leyfum tónlistinni að tala. Hana má nálgast á Bandcamp eins og segir, Meaningless Songs er fyrsta platan (2015) en hin tólf laga Glimpse of Everything kom svo út í fyrra, algerlega frábær (tékkið t.d. á „Stranger than Strangers“). Stuttskífan Self Portrait kom svo út í liðnum nóvember og sú nýjasta, Decaying Man, einnig stuttskífa, í febrúar á þessu ári. Tékkið á þessu sem allra fyrst. Það er allt of mikið af drasli þarna úti. Verið góð við ykkur.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: