Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. júní, 2023.

Svo uppsker sem sáir

How to Start a Garden er fyrsta sólóplata Nönnu, Nönnu Bryndísar Hilmarsdóttur úr Of Monsters and Men. Rýnum aðeins í eigindir þessarar velheppnuðu frumraunar.

Það getur verið gott að stíga út fyrir þægindarammann þegar maður er listamaður, reyna sig við eitthvað nýtt, óvænt og skringilegt. Taka sólóskrans utan við „dagvinnuna“, eins og margt frægt tónlistarfólk hefur gert með ýmislegum árangri. Nanna lýsti því yfir í viðtali við kollega minn, Höskuld Ólafsson, í blaði þessu: „Mig langar að gera alls konar. Við í OMAM erum að taka upp plötu og ég vil gera fleiri plötur með hljómsveitinni og kannski plötu með einhverjum allt öðrum. Mig langar bara að GERA!“

Ég var nefnilega næstum því … athugið, næstum því … búinn að gleyma því að Nanna Bryndís hóf ferilinn sem söngvaskáld og kom fram undir nafninu Songbird. Hún hlóð síðar utan á sig nokkrum gaurum og skráði hersinguna til leiks í Músíktilraunum árið 2010. Og fór svo að sigurhnossið varð þeirra.

Þannig að, aftur í ræturnar, eða hvað?

Plötunni er upptökustýrt af þungavigtarmönnum, þeim Aaron Dessner og Josh Kaufman úr hljómsveitunum The National og The War on Drugs. Dessner hefur Íslandstengingar, m.a. í gegnum Ragnar Kjartansson, en hefur auk þess verið að vinna með Taylor Swift nýverið auk þess að stýra vinnu á nýjustu plötu Eds Sheeran, takk fyrir.

Það er værð yfir þessari plötu. Melankólía jafnvel. Þessi tilfinning er þú labbar út snemmmorguns að hausti og myrkrið er svona að læsa sig um landið. Það er þoka og smá væta í grasinu. Ljúf dagrenning í uppsiglingu, smá dökkleit, en þú veist að birtan er skammt undan og nýr dagur að rísa. Þetta eru þverstæður, ekki ósvipaðar þeim sem unnið er leynt og ljóst með í gegnum plötuna. „Að halda ró sinni í hvers konar stormi,“ eins og Nanna segir sjálf. „Platan er á milli svo margs. Tekin upp á Íslandi og í New York á meðan ég var að umfaðma nýja byrjun á svo mörgum sviðum.“

Tónlistin fylgir þessu sniði. Hún er bæði vonrík og mædd. Það er mildi yfir og mýkt og þrátt fyrir háklassa hljóm og upptökunostur er þetta söngvaskáldsplata. Nanna er komin heim að því leytinu til. Fyrsta lagið, sem jafnframt er titillagið, hefst með „grófum“ kassagítarstrokum. Tjáningarrík söngrödd Nönnu er hvíslandi og inn kemur píanó og ókennileg rödd eins og úr talstöð. Andinn yfir er í senn hlýr og skrítinn.

„Sputnik“ er ekki ósvipað og í fjarska eru hljóðskreytingar sem gefa laginu – og lögunum – sérkenni. Þriðja lagið, „Crybaby“, nýtir sér hljóðversbrellur einnig, þar sem gítarinn kemur inn eins og úr næsta dal í upphafi áður en rödd Nönnu, angurvær en sterk, svífur inn.

Platan tikkar áfram í þessum gír. Hefðbundin lög, til þess að gera, en pakkað inn í þessa lokkandi værðarvoð. Eitt af sterkari lögunum er „Milk“, þar sem Nanna fer nokkuð rækilega út að brún í túlkun. Hellir úr hjartanu undir fallegri rísandi melódíu. Áhrifaríkt lag og nokkuð vel stingandi, miðað við restina af plötunni. „Something isn‘t right…“ syngur hún brostinni röddu.

Gerðarleg frumraun hjá Nönnu og allir þræðir í hendi þó að platan hafi verið unnin á óvissutímum. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessi ferill hennar á eftir að þróast.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: