OMAM Beneath The Skin album cover

Dómurinn var skrifaður fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 13. júní, 2015

Hörundsár

Of Monsters and Men – Beneath the Skin

★★★★☆

 

Tónlist og textar eftir Of Monsters and Men. Sveitin stýrði upptökum ásamt Rich Costey. Record Records/Republic Records gefa út, 2015.

Það þurfti að segja mér það þrisvar sinnum, ef ekki oftar, að Of Monsters and Men hefðu farið beint í sjötta sæti bandaríska breiðskífulistans, Billboard, með fyrstu plötu sína fyrir réttum þremur árum. Ég veifaði þessu frá mér, þetta væri líkast til einhver hliðar- eða niðurhalslisti en nei, um var að ræða aðallistann! Þegar það var loksins búið að koma mér niður á plánetuna jörð hríslaðist um mig sælustraumur enda árangurinn stórglæsilegur og sá besti sem íslensk sveit hefur náð fyrr og síðar á umræddum lista. En þetta þurfti líka ekkert að koma á óvart. Allt síðan sveitin sigraði í Músíktilraunum árið 2010 var ljóst að hér færi eðalsveit, til alls líkleg, og það hefur heldur en ekki komið í ljós.Hljómsveitin nýtur nú heimsfrægðar, hefur verið á linnulitlu tónleikaferðalagi allan þennan tíma og platan góða hefur selst í rúmlega milljón eintökum.

Það er alltaf dálítið snúið að fylgja farsælli plötu eftir. Á meðan fyrstu verk koma „kröfulaus“ inn í heiminn er alltaf pressa á næstu skref og listamennirnir standa frammi fyrir ákvörðunum. Á að halda sig við vinningsformúluna eða hlýða á hjartað og taka áhættu? Meðlimir Of Monsters and Men eru glúrnir því að hér má nefnilega heyra sitt lítið af hvoru. Hljómurinn er þróaður áfram en grunnstoðirnar sem stuðluðu að farsældinni eru þarna ennþá. Á fyrstu plötunni, My Head Is an Animal, mátti heyra glaðvær og upplyftandi lög, melódísk mjög og maður hummaði með án þess að verða var við það. Það var því alls ekkert skrítið að þau hófu að dúkka reglulega upp í auglýsingum, kvikmyndum og kaffihúsum enda nánast eins og sérsniðin undir slíkt.

En ef fyrsta platan hoppaði og skoppaði eins og lítill hraðbátur á öldum gleðinnar skríður þessi volduglega áfram eins og stæðilegt flugmóðurskip. Glaðværðinni hefur verið skipt út fyrir íbyggna sálarleit, undiraldan er þung, heildarhljómurinn epískur og gerðarlegur mjög. Lagatitlar eins og „Slow Life“, „Black Water“ og „Empire“ segja sitt. Upptökustjórnandanum, Rich Costey, er greinilega í lófa lagið að framkalla stórar og stæðilegar hljóðmyndir, en hann hefur unnið með Muse t.a.m. og Sigur Rós ásamt því að hann hljóðblandaði Kveik (þessi áherslubreyting OMAM eins og hún er gjarnan skammstöfuð minnir dálítið á Mumford & Sons, sveit sem henni er gjarnan líkt við, en hún færði sig einnig úr þjóðlagaskotnu stuði yfir í stóreflis leikvangarokk á nýjustu plötu sinni).

Það sem sló mig fyrst er hversu tilkomumikil platan er. Rennslið er einhvern veginn fumlaust og það er ekki snöggur blettur á lagasmíðunum. Öll vinnsla er pottþétt og lögin eru einkar leikvangavæn ef svo má segja. Tónninn er settur strax í fyrsta lagi, „Crystals“, og önnur lög fylgja því sniði meira og minna. Seigfljótandi, harmrænar smíðar sem draga hlustandann inn á seiðmagnaðan hátt. „Crystals“ er frábært lag að þessu leytinu til og aðrar álíka gæðasmíðar eru t.d. „Human“ og „Wolves Without Teeth“. Platan er eins og áður segir afar heilsteypt og jöfn en það sverð er þó tvíeggjað. Þegar líður á plötuna er einsleitni í lagauppbyggingu og allri áferð einfaldlega orðin fullmikil og sum lög, ég nefni t.d. „Black Water“ og „Slow Life“, fara næstum framhjá manni, svo kirfilega falla þau í þann ramma sem smíðaður hefur verið. Í einstaka tilfellum er þó ruðst út fyrir formið og er það vel. Ég vil sérstaklega nefna „Organs“, sem er svona „kveikjarar á loft“ ballaða, mjög fallega sungin af Nönnu. Hún á stórleik á plötunni en Ragnar kemur einnig sterkur inn og samsöngur þeirra er til mikillar prýði. „Thousand Eyes“ er þá nokkurs konar inngangsstef að „I of the Storm“, lagið rís og rís með tilheyrandi braki og brestum og minnir helst á flugeldasýningar þær sem Sigur Rós hristi fram á áðurnefndri Kveikur.

Það er líka merkilegt að heyra að platan er til muna „íslenskari“ en fyrri platan, en margir aðdáendur voru ekki endilega að kveikja á því að sveitin væri frá landi elds og ísa. Ég átta mig þó ekki á því hvort þetta er meðvitað útspil eða ekki. Og þrátt fyrir tuð um lagasmíðalega einsleitni trompar alltumlykjandi öryggið sem hér að finna allt slíkt. Heilt yfir er þetta afar vel heppnað verk hjá okkar fólki og ég hygg að platan muni renna enn styrkari stoðum undir glæsifengið veraldarvafstur hennar.

Það er ákveðið minni í popptónlistinni að önnur plata sveitar sem hefur slegið óforvarandis í gegn er iðulega þyngri, dýpri, dekkri, „listrænni“ en sú sem á undan kom. OMAM fetar svo sannarlega þá slóð en á meðan aðrir klaufast í slíku á tilgerðarlegan máta leysir sveitin verkefnið á einkar sannferðugan máta. Ég endaði dóm minn um My Head Is an Animal, sem var birtur í Morgunblaðinu í september 2011, með þessum orðum: „Skilyrði til frekari vaxtar: góð.“ Svo hefur raunin og orðið.

Arnar Eggert Thoroddsen

Tagged with:
 

One Response to Plötudómur: Of Monsters and Men – Beneath the Skin

  1. flottur dómur um fína plötu.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: