Brjálaður? Óskar Kjartansson í sínu náttúrulega umhverfi.
— Ljósmynd/Hans Vera.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. maí, 2023.

Allt svo dásamlega brjálað

Djassplata síðasta árs, samkvæmt pistilritara og Árna Matthíassyni, var Gork, eftir Óskar Kjartansson. Hér verður rýnt frekar í þann gæðagrip, auk þess sem höfundur er tekinn tali.

Óskar Kjartansson kallaði saman einvalalið músíkanta til að hræra saman gamla sýru, súrkál og rokkaðan djass. Afraksturinn var Gork. Óskar er vélin sem knýr sveitina áfram, en gefur mönnum frítt spil þegar við á. Stundum leysast lögin nánast upp í óhlutbundinn spuna, en hann veit hvenær á að grípa í taumana til að menn hlaupi ekki útundan sér. Greina má King Crimson-áhrif, en það er nóg við að vera fyrir djasshunda.“

Þannig var textinn sem fylgdi Gork þegar yfirlit yfir tónlistarárið var birt á síðum þessum í desemberenda. Og svona er platan meira og minna. Ferðalagið æði tilkomumikið. Ég vissi af Óskari sem trommuleikara, en efni frá honum hafði ég ekki heyrt og þess vegna kom sendingin þægilega á óvart. Hlustanda er eiginlega stillt upp við vegg, þar sem keyrslan er svo gott sem linnulaus út í gegn.

Ég sló á þráðinn til Óskars og gaf hann sér tíma í stutt skraf á milli kennslustunda. Hann tjáir mér að vinur sinn, Helgi Rúnar Heiðarsson, hafi veitt sér innblástur með að það væri ekki tiltökumál að „henda“ í eina plötu. Óskar gróf upp tíu ára gamlar lagasmíðar sem hann átti til, og við svo búið var haldið í Sundlaugina, með upptökumanninum Alberti Finnbogasyni. Með honum eru svo þeir Tumi Árnason á tenórsaxófón, Gabríel Markan á rafgítar, Valdimar Olgeirsson á bassagítar, og téður Helgi leikur á altsaxófón, baritónsaxófón og tenórsaxófón.

Óskar segir almenna frestunaráráttu og „lífið“ hafa tafið sig frá starfsemi af þessum toga.

„Þessa plötu tókum við upp á einum degi,“ segir hann. „Svo var eitthvað smá fiff á degi tvö. En þetta var mestanpart komið á einum dagparti.“

Tónlistin sé skrifuð, þannig lagað, en Óskar segir að hann hafi passað að hafa laglínur stuttar og einfaldar, þannig að nægt rými væri fyrir spuna. Og það nýta félagar hans sér svo um munar!

Það er athyglisvert að ræða við Óskar um áhrifavalda. Ég nefni brjálsemina á plötunni og þá nefnir hann Korn, Limb Bizkit og Rage Against the Machine. „Þetta kemur þaðan,“ segir hann. Ég sleppi honum samt ekki svona auðveldlega og tiltek King Crimson. Óskar segist einmitt hafa heyrt þetta úr mörgum áttum, en hafi ekki hlustað sérstaklega sjálfur. Ég segi honum að hlusta sérstaklega á titillagið á Red, þar sé þessi sturlaði, hvassi og „illi“ gítar, sem gerir vart við sig á Gork.

Djassarar eins og Jim Black eru líka í hrærunni, en sá fyrirtakstrommari hefur rík tengsl við Ísland, meðal annars í gegnum hljómsveitina AlasNoAxis, sem hann skipar ásamt Skúla Sverrissyni, Hilmari Jenssyni og Chris Speed. „Ég var með Tyft í huga (sem er skipuð nærfellt sama mannskap) og Masada (eitt af verkefnum John Zorn),“ útskýrir Óskar. „Það var mjög einbeittur vilji hjá mér að blanda þessu tvennu saman. Tyft upp á djassrokkið og Masada upp á spunann.“

Óskar leikur allra handa djass, alla jafna, en segir að það sem kitli sköpunarbeinið séu tilraunir. Ekki sé þá loku fyrir það skotið að frekari plötur komi út.

„Ég er samt frekar hægur,“ segir Óskar og það meira að segja hæglyndislega. „Ég á fullt af lögum, en sú plata yrði alls ekki í sömu mynd. Hún yrði eitthvað allt annað. Það er leiðinleg tilhugsun að ætla að henda í Gork 2.“

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: