Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 13. maí, 2023.

Dásemdir og djöflasýra

Úrslitin í Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, fara fram í Liverpool í kvöld. Hér verður farið yfir það sem undanúrslitin buðu upp á og óhætt að segja að allur tónlistar- og skemmtiskalinn hafi verið undir.

Mér finnst svo gott að finna það að ég vex meira inn í þessa keppni með hverju ári. Þetta er sambland af meyrnun og þroska tel ég og ég á í sama sambandi við jólin. Elska þetta af öllu hjarta.

Keppnin í ár er einstök, hvar Liverpool í Englandi hýsir keppnina í raun réttri fyrir Úkraínu og af ástæðum sem ég þarf ekki að setja fram hér sérstaklega.

Kíkjum aðeins á fyrra kvöldið og ég þarf ekki að taka það sérstaklega fram heldur að lögin voru frá því að vera út í snilld til algerrar hörmungar (og athugið, þessi pistill ber ekki með sér tæmandi yfirferð). Og hvaða lið er alltaf að segja að þetta sé allt saman rusl? Það er ekki rétt! Ég ætla bara að segja það hér og nú: ef þú fílar ekki Júróvisjón þá fílar þú ekki tónlist!

Alltént, hvar var ég? Já, fyrra kvöldið. Noregur snarar upp soðgrýlu þar sem minni úr Star Wars og Lord of the Rings gera vart við sig. Hræðilegt! Og við skulum byrja á botnskafinu. Írland mætir með líkast til versta framlag sitt frá upphafi, illa sungið og klæðnaðurinn svo skelfilegur að ég vissi ekki hvert ég ætlaði. Karíus og Baktus–bræður tróðu svo upp í umboði Aserbaídsjans, Proclaimers fátæka mannsins. Svo var margt þarna á milli. Ég var ekki að fullu sannfærður um framlag Svíþjóðar þótt flott væri. Malta slapp til, Kabarettstuð Portúgals var aðeins of óstuðvænt og lempuð Sam Smith–ballaðan frá Sviss var hvorki né. Seiðkarlinn frá Moldavíu sem var nýkominn úr „svitaholu“, jú jú, flott en maður hefur séð þetta milljón sinnum áður. Femínískur kraftur Tékklands, í bland við slavneskan sársauka, var hins vegar æðislegur. Frábærlega útfært atriði með vísun í Spice Girls og Pussy Riot á sama tíma. Eins og með svalt „avant-garde“–framlag Serbíu, lína sem þeir hafa fylgt oft í gegnum tíðina, og pólitískt gáskagrín Króatíu (Residents á þorrablóti í Grímsey). Finninn var líka flottur, ég er svona að fíla hann betur og betur.

Seinna kvöldið hófst með flötu tölvupoppi frá Danmörku (Danir eru ekki bara í landfræðilegri flatneskju) og hlutirnir versnuðu í framhaldinu. Bleika söngvaskáldið frá Rúmeníu gekk nánast frá mér. Eitt sem fer líka í taugarnar á mér eru allar þessar gaurahljómsveitir. San Marínó og Slóvenía t.d. Það er einhver eitruð karlmennskulykt þarna sem mér líkar engan veginn. Svo voru þarna furðuatriði. Ég botnaði t.a.m. ekkert í gríska skátanum sem hljóp og hoppaði um sviðið.

En nóg var af sælgæti samt. Albanar frábærir með teknóskotið þjóðlag, sterkt og ástríðufullt. Litháen með sannfærandi og sálarríka ballöðu og gotneska dramað frá Georgíu tikkaði í öll mín box. Mér fannst áströlsku þungarokkararnir æði, glúrinn samsláttur á þunga og melódíu, og Belgar voru með lag sem greip mann frá fyrstu sekúndu. Austurríki átti svo innslag kvöldsins. Jaðarskotin stemma um Edgar Allan Poe, svöl og grípandi, flutt af valdefldum konum sem skildu allt eftir á sviðinu. Snilld! Og gleymum ekki Diljá. Virkilega sterk og kraftmikil framkoma hjá henni hvar hún fullnýtti hvert andartak til hins ýtrasta.

Góða skemmtun í kvöld, kæru landar, og munið nú eftir grunnstoðum og eðliseigindum popptónlistar. Hún á að afþreyja og skemmta en það er ekki þar með sagt að hún þurfi að vera rusl eins og ég hef bent á hér. Og ekki gleyma ídýfunni!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: