Sigur Loreen fór hamförum á sviðinu og uppskar eftir því. — Ljósmynd/Sarah Louise Bennett, eurovision.tv

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 20. maí, 2023.

Hvernig vinnur maður Eurovision?

Loreen hin sænska vann Eurovision um síðustu helgi nokkuð örugglega en var samt ógnað af Finnum á lokasprettinum. Spáum og spekúlerum aðeins í söngvakeppnisspilin nú þegar rykið er tekið að setjast.

Loreen var það heillin, eitthvað sem hafði reyndar verið búið að tala um nokkuð lengi. Eins og þetta væri bara komið, það þyrfti ekki að halda keppnina. Ég var ekki á þessum vagni og er ekki. Finnst lagið heldur líkt síðasta vinningslaginu hennar og þetta atriði að mörgu leyti skugginn af „Euphoria“, laginu sem hún sigraði með árið 2012. Einhvern veginn ná Svíar að ýta á alla réttu takkana þegar kemur að popp-arkitektúr og meira að segja þegar þeir fara út að brún, gerast tilraunakenndir eða flippaðir, þá hefur maður samt á tilfinningunni að allt sé þetta reiknað upp í topp af sænskum snyrtipinnum í flekklausum og afskaplega „módern“ skrifstofum í miðbæ Stokkhólms. Nei, ég var ekki að kaupa þetta.

Ég er aftur á móti ekki fúll, leiður eða í ójafnvægi vegna þessa. Ég er á einhvern dásamlegan hátt að eldast með Eurovision og æsingi og úlfúð hefur verið skipt út fyrir zen-bundna yfirvegun þar sem ég nýt þess að hlusta, horfa, meta og taka inn, gildir einu með sigurvegarann. Ja, svona þannig lagað …

Mér finnst þróun keppninnar hafa verið svo góð. Sem sjónvarpsefni er þetta algerlega frábært og tónlistin – og framsetning hennar – er svo fjölbreytt. Sviðið og tæknin eru fullnýtt til að vera með magnaðar flugeldasýningar hvar dans, söngur, leikur og hin ýmsu skilaboð koma saman í einum skurðpunkti. Austur-Evrópa kom með frábæra vinkla inn í keppnina á sínum tíma, þau lönd hafa keyrt þessar þjóðlagaáherslur, allt frá Ruslönu til Kalush Orchestra og þau lönd komu inn með harmrænar, „avant-garde“ áherslur sem mátti m.a. sjá í framlagi Serbíu í ár. Smyrjið lögin með slavneskum sársauka og þá er Arnar Eggert kominn í gírinn!

Ég skýt því inn hér, úr því ég er með lesendur, að það er mikil synd að sjá hanteringu Ísraela á keppninni. Moroccanoil, ísraelskt fyrirtæki, er helsti stuðningsaðili keppninnar og eflaust ástæða þess að Nettu, sigurvegaranum frá 2018, var tryggt sæti í Liverpool-syrpunni. Eftir að ákall Lennons um heimsfrið, „Imagine“, hafði verið sungið og leikið kom hún svífandi á friðardúfu, syngjandi lag eftir Dead or Alive. Sem var vel við hæfi, enda ríkisstjórn hennar búin að sprengja upp nokkur saklaus börn í Gaza svona á rétt á meðan keppnin rúllaði. Samkennd með harmi Úkraínufólks var mikil í keppninni, öll snerist hún um það og er það vel, en Palestína, sem fær nákvæmlega sömu meðferð af hendi Ísrael, er ekki til. Hræsnin í alþjóða- og menningarpólitíkinni ríður ekki við einteyming.

Ég spyr í fyrirsögn, hvernig vinnur maður Eurovision? Ég ætla nota restina af plássinu sem ég hef til að vera með smá útúrsnúning. En þó ekki. Sigurinn felst nefnilega í hlutunum sem eru hliðarafurðir við tónlistina en eru samt aðalmálið þegar maður hugsar það til enda. Fólk er fært saman, það nýtur Eurovision-teita, treystir bönd og keppnin í raun nokkurs konar hversdagsleg helgiathöfn. Allt þetta kristallaðist til dæmis í því að ég átti samtal við tvær manneskjur, sem ég þekki ekkert, um viðlagið í finnska laginu, uppi við kjúklingakælinn í Bónus. Sitt sýndist hverjum en það var hlegið, pælt og gantast. Mannlegheitin í botni, eins og dásamleg Eurovision-hækkun. Þetta eru töfrar keppninnar. Sigurinn. Endamarkið skiptir engu, ferðalagið er málið.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: