Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 27. janúar, 2018


Argað og gargað

Ruslrokksveitin Pink Street Boys gaf út aðra plötu sína síðasta haust, Smells like boys. Um er að ræða gaddavírsbundið groddarokk í hæsta gæðaflokki.
Á vissum tímapunkti er það ferskasta sem þú heyrir tónlist sem af-flækir allt, fer aftur í ræturnar og er ekkert með neitt pjatt eða pjátur. Ramones voru þannig byltingarkennt afl á sínum tíma þó að tónlistin sem slík væri það ekki, þegar nánar var að gáð. Einfalt rokk og ról, bara heldur hraðara og strípaðra en það sem Elvis og Stooges voru að fást við.

Þannig var það er Pink Street Boys komu fram á sjónarsviðið fyrir nokkrum árum síðan. Tónlistina hafði maður heyrt oft áður, bæði hér (Sogblettir, Bleiku bastarnir?) og erlendis (Stooges, MC5 o.fl.) en eðlilega var eitthvert alveg sérstakt krydd í gangi líka, og í þetta sinnið úr Grafarvoginum, hvaðan meðlimir eru. Pink Street Boys eru ekta, það er hispurs- og kærulaus andi yfir og gengisáran í kringum sveitina er heillandi. Þeim gæti ekki verið meira sama um þig eða áhorfendur, heldur spýta út hávaðasömu og grófu bílskúrsrokki eins og þeir væru að fá borgað fyrir það. Sem þeir eru pottþétt ekki! Strákarnir eru annars þeir Axel Björnsson (gítar, söngur), Jónbjörn Birgisson (gítar, bassi, söngur), Víðir Alexander Jónsson (bassi, gítar, söngur), Alfreð Óskarsson (hrista, stálgítar, söngur) og Einar Björn Þórarinsson (trommur). Síðsumars árið 2014 kom út fyrsta platan, Trash from the Boys, og nú er það Smells like Boys, sem 12 Tónar gefur út. Platan er til á forláta vínyl (auk þess að vera á streymisveitum) og er umslagið vel heppnað, minnir mig dálítið á umslög skussa-rokksveita sem voru að gefa út í endaðan níunda áratuginn á merkjum eins og Amphetine Reptile og Touch & Go. Prýðilegasta upplýsingaspjald er þá innan í umslaginu með glæsilegri ljósmynd af tveimur strákanna. Tónlistin siglir um nákvæmlega sömu mið og síðast og lagatitlar eins og „Nazi Homo Sex“, „Worm“ og „Blast Off“ segja sína sögu.

Hljómsveitin er eðli málsins samkvæmt heit og sveitt á tónleikum og hefur vakið sérstaka athygli erlendra gesta sem hingað koma og hrósa þeir henni jafnan í hástert, t.a.m. fékk hún lofsamlega umfjöllun frá sjálfum David Fricke, Rolling Stone-mógúl, fyrir framkomu sína á Airwaves. Fyrri plata þeirra var þá tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna (Nordic Music Prize).

Dóttir mín, 13 ára, hlustar á lítið annað nú um stundir. Og er það ekki furða. Einfaldleikinn fer alltaf þráðbeint í hjartað.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: