Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 27. janúar, 2018

Gjafir jarðar


Seiðlæti er dúett þeirra Úní Arndísar og Reynis Katrínar en á plötunni Þagnarþulur eru gyðjur Fensala ákallaðar með tónlist og ljóðum.

Unnur Arndísardóttir, eða Úní, hefur nú um nokkra hríð gert út frá Stokkseyri þar sem hún leggur stund á allra handa andans starfsemi, með ríka tengingu við náttúruna og móður jörð. Unnur kennir jóga og heilar, býður uppá einkatíma í tónaheilun, spálestrum og blómadropum svo fátt eitt sé nefnt. Úní er bæði seið- og tónlistarkona og er alin upp við andleg mál en móðir hennar Arndís Sveina, nuddari, heilari og seiðkona, hafði rík áhrif á hana og Úní hefur ferðast víða um heim og numið þar ýmsar andlegar leiðir. Hún miðjar sig hins vegar í dag á Íslandi og t.a.m. er hún ein upphafskvenna Nordic Wisdom Circle sem er hópur skandinavískra andlegra kennara sem kenna norræna visku og andlegar norrænar athafnir.

Úní sinnir jafnframt tónlistinni af festu. Árið 2009 gaf hún út hina stórgóðu sólóplötu Enchanted og auk þess reka hún og eiginmaður hennar Jón Tryggvi Unnarsson dúettinn UniJon. Úní semur og syngur en hún var í söngnámi í Reykjavík, Englandi og Bandaríkjunum. Seinustu fjórtán ár hefur hún unnið náið með Reyni Katrínar, heilara og galdrakarli. Reynir samdi ljóð tileinkuð gyðjunum úr norrænu goðafræðinni og Úní hefur nú samið tónlist við ljóðin hans sem komu út á plötunni Þagnarþulur síðasta haust. Kalla þau sig Seiðlæti og framkvæma þau saman heiðnar athafnir þar sem sungið er til gyðjanna. Tónlist þeirra má nálgast á www.seidlaeti.bandcamp.com en lög bera nöfn eins og „Frigg“, „Gná“ og „Gefjun“. Þeir feðgar Bassi Ólafsson og Ólafur Þórarinsson leggja gjörva hönd á heiðinn plóg sem og ektamaðurinn Jón Tryggvi. Karlakór Hveragerðis kemur þá einnig við sögu. Bassi sá um að hljóðrita, hljóðblanda og hljómjafna en upptökustjórn var í höndum Bassa og Seiðlætis.

Eins og nema má af umslagi plötunnar, en ljósmyndina sem það prýðir má og sjá í meðfylgjandi kynningarmynd, er hvergi slegið slöku við er undirstrika skal boðskapinn. Tónlistin er í senn seið- og kynngimögnuð en umfram allt þjóðleg þar sem trumbur, heiðinn samsöngur og áhrifshljóð knýja á upplifunina. Dulúðin dansar yfir hverjum tóni en það næmi sem Úní hefur borið á borð í eigin tónsköpun sveipar alla framfærslu og vinnslu, eitthvað sem skilar áhrifaríku, heilsteyptu verki.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: