Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 31. ágúst.

Þessi ófétis jazz!

Röggi er samnefnd plata Rögga eða Rögnvalds Borgþórssonar. Gítarleikarinn knái hefur verið samverkamaður fjölda frammáfólks í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár en bregður sér nú fram fyrir tjaldið.

Það er við hæfi að þessi pistill skuli birtast á lokadegi Jazzhátíðar Reykjavíkur enda hefur Rögnvaldur/Röggi verið iðinn við þann kola allan sinn feril. Hann hefur leikið undir með ýmsum söngvurum, er meðlimur í Uppáhellingunum og hefur leikið með Moses Hightower svo eitthvað sé nefnt. Kvartett Þorgríms Jónssonar, Paniik Mehlóna (Tómas Jónsson) og ýmsar djasssveitir, hvort heldur sem þær starfa eitt kvöld eða fleiri, hafa fengið að njóta krafta Rögga. Svo hefur hann spilað talsvert í leikhúsinu í ýmsum uppsetningum.

Fyrirsögnin er til heiðurs Tómasi R. Einarssyni en hann gaf út plötu með þessum kersknislega titli árið 1985. Frumburður þessi er enda djassaður þó að ýmsu sé hent ofan á þá grunnstoð. Með Rögga á plötunni eru þeir Tómas Jónsson (hljómborð), Birgir Steinn (bassi), Matthías Hemstock (trommur), Kristofer Rodriguez (slagverk) og Sölvi Kolbeinsson (saxófónn). Umslagsmynd er eftir Viktor Daða, Albert Finnbogason tók upp og hljóðblandaði en Ívar „Bongó“ Ragnarsson hljómjafnaði. „… finnst mér þessi plata gefa góða mynd af mínum stíl og mörgum þeim núönsum sem ég hef verið að vinna í sem gítarleikari síðustu árin,“ sagði Röggi á fjasbókarvegg sínum er hann ýtti verkinu úr vör.

Platan er sjö laga og byrjar af krafti. „And it was you“ er hálf-progglegt að manni finnst (smá King Crimson-grimmd flögrandi um) en um leið eru suðrænir tónar á stjákli. Tómas kemur sterkur inn með sinn gáskafulla, ætíð skapandi stíl og einhvern veginn er bæði hægt að dilla sér og strjúka á sér hökuna við þetta lag. „Bíða og sjá“ er hins vegar reggí (eða „röggí“ eins og einhver gárunginn sagði á vegg Rögnvaldar). Lagið er tæpar átta mínútur og heilmikið ferðalag. Grúvið helþétt og Röggi mundar gítarinn, nema hvað, gefur okkur bæði surgandi strömm og „hreint“ og fallegt sóló. „Eldra“ fylgir svipaðri forskrift, krúttlegra um sig þó. Lagið „Rasta“ þarf svo sem ekki að kynna stíllega í löngu máli, titillinn er lýsandi. Þetta er eitt af þremur tökulögum plötunnar en lagið á Eric nokkur Gale og hann á einnig næstsíðasta lagið, „East side west side“. Gale var fjölsnærður gítarleikari á sinni tíð, lék m.a. blús- og djassbræðing en „Rasta“ er tekið af plötunni Negril (1975) sem tekin var upp í Harry J-hljóðverinu goðsagnakennda á Jamaíku. Þaðan er líka lagið „East side west side“. Lokalag plötunnar, „De Pois Do Amor, O Vazio“, er þá eftir Bobby Thomas, djasstrommara sem lék m.a. með tríói Junior Mance á sjöunda áratugnum. Þá er bara ógetið fjórða frumsamda lagsins, „Ferðast part 1 og 2“, sem er rólyndissmíð í upphafi, strípuð og innileg allt þar til brestur á með Trúbrots-sturlun, orgelið í botni og allt að verða vitlaust. Erfitt að pinna þetta lag niður sem sýnir vel að Rögga er margt til lista lagt og ekki beint hægt að giska á hvað sé handan við næsta tónhorn.

Það er góður andi á þessari plötu og svona þægileg verð-að-koma-þessu-frá-mér-ára yfir. Það er ekki að spyrja að samspilinu, hvað þá hljómburðinum, sem er til stakrar fyrirmyndar. Röggi hefur verið traustur á kantinum um árabil en hann má alveg gera meira af því að standa í miðju sviðsljósinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: