Svalir Það er gengisára yfir ungliðunum í Sameheads.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. september.

Naskt nýbylgjurokk

Sameheads er nýbylgjurokksveit sem vakti verðskuldaða athygli á Músíktilraunum fyrir réttum tveimur árum. Tónlykt er fyrsta breiðskífa hennar en hún kom út nú í júní.

Sameheads, sem lönduðu 3. sæti lögðu sig eftir sígildri töffaranýbylgju hvar Cure, Interpol og Fontaines D.C. lágu til grundvallar. Efnilegt verður að segjast, ímyndin svöl og gítarvinna með miklum myndarbrag.“ Svo reit ég fyrir tveimur árum síðan í kjölfar Músíktilrauna og birti textann á Fjasbókarreikningnum mínum. Já, Sameheads voru svalir gaurar, fimm strákar að gera indírokk og töffaraheitin eftir því. Það var þétt hljómsveitarára á sviðinu, þeir geisluðu, og þó að sveitin væri enn tiltölulega losaraleg og hrá í samspili bætti þessi mikli sjarmi það allt saman upp.

Það er Heavy Knife Records sem gefur út en platan var tekin upp af Alfreð Drexler. Jóhann Rúnar Þorgeirsson hljóðblandaði svo og hljómjafnaði. Sveitin er skipuð þeim Degi Eggertssyni (söngur), Baldri Skúlasyni (gítar), Þorvaldi Tuma Baldurssyni (bassi), Tómasi van Oosterhout (trommur) og Oliver Devaney (gítar).

Upplýsingar um bandið eru af skornum skammti og því brá pistilritari á það ráð að sækja upplýsingar á Fjasbókarsetur sveitarinnar. Ég sendi skilaboð þar og þeim svaraði Dagur. Ég tók því við hann stutt netviðtal. Fyrst spurði ég út í framtíðaráform, hvernig haustið lægi og svona. „Í haust er planið að halda útgáfutónleika fyrir plötuna,“ svarar hann. „Við náðum ekki að græja það þegar hún kom út þar sem ég var í skiptinámi en ég er kominn til baka núna. Svo er Upprásin á dagskrá í byrjun desember (tónleikaröð tileinkuð grasrót íslenskrar tónlistar í Hörpu).“ Dagur segir að þeir félagar hittist reglulega og æfi og hugmyndir að nýju efni séu farnar að taka á sig mynd. Aðspurður um áhrifavalda á tónlistina nefnir hann Purrk Pillnikk, black midi og Fontaines DC, þetta hafi verið í reglulegri spilun þegar fyrsta platan var að fæðast. Hann lýsir þá upptökuferlinu sem lúmskt strembnu: „Ef ég á að vera hreinskilinn þá gekk pínu brösuglega að koma plötunni út,“ segir Dagur og andvarpar í gegnum internetið. „Allskonar seinkanir og truflanir í ferlinu. En á endanum kom þetta út alveg eins og við vildum og allir hrikalega sáttir. Við höfðum líka ótrúlega gaman af þessu og þótt þetta hafi tekið góðan tíma þá var alltaf stemning í hópnum.“

Fyrir mann sem ólst upp við neðanjarðarrokk níunda og tíunda áratugarins er margt kunnuglegt hérna. Sú tónlist, veri það breskt skógláp, bandarískt jaðarrokk að hætti Sonic Youth og Dinosaur Jr. eða gotapopp Cure, rúllar hérna um með einum eða öðrum hætti. Og eins og Dagur nefnir sjálfur, einnig nýrri sveitir eins og Fontaines D.C. og black midi sem eru sjálfar undir áhrifum frá þessari sígildu nýbylgju.

Fyrsta lagið, „gutl“, er naumhyggjulegt, með smá súrkálsáhrifum (NEU! o.fl.) og þróast út í gítarorgíusúpu, hvar viðgjafagítarar (e. feedback) eru botnaðir. „Gummi T“ er dökkt, samtíma síðpönk, áleitið og æst og „Hringitónn“ hefst með gítarlykkju sem minnir á skapalón síðrokkssveita sem störfuðu um aldamótin. Mogwai-ískur hávaði og letileg rödd Dags yfir. Platan er dálítið eins og Tapas-bar hvað nefndar tónlistarstefnur ræðir, mismunandi áherslur og það eru t.a.m. vel tilraunakennd lög hérna („Street Youths“) og svo meira grípandi („Naut-hólsvík“). Og eitthvað þar á milli. Þetta er til marks um að sveitin er í raun enn í leit að hinum „rétta“ tóni um leið og allt er svo spennandi og forvitnilegt þegar þú ert að byrja í hljómsveit. Það er verið að prufa eitt og annað, með misjöfnum árangri, eðlilega. Lofandi frumburður og sjáum svo hvort að eitthvað nýtt spretti ekki fram í vetur.

s

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: