Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. september.

Lífsins krákustígur

Upp hátt er ný plata eftir Rúnar Þórisson. Angurværð fyllir lagasmíðarnar og yfir þeim er ljúfsár tregi. Og sem fyrr nýtur Rúnar góðrar samvinnu við nánustu fjölskyldu og vini.

Ég hef átt því láni að fagna að fá að fylgjast með sólóferli Rúnars Þórissonar undanfarin tuttugu ár eða svo og hef skrifað gagnrýni um flest af hans verkum. Lán segi ég því að katalógur Rúnars er áhugaverður og í raun hvalreki fyrir tónlistargagnrýnanda. Plöturnar eru einhvers konar popprokk en samt ekki og ávallt eru óvæntir snúningar og skringilegar vendingar í hljómagangi og takti. Tónlist Rúnars er undir margvíslegum áhrifum, proggið er hér t.a.m., einnig síðpönk það sem Grafík hagnýtti sér en auk þess hefur hann ávallt verið með eyrað niðri við jörðina, numið nýja strauma og nýjar stefnur og brugðist við þeim með eigin tónlistarsköpun.

„Titill plötunnar vísar til þess að þeim sem eru vegvilltir, líður illa eða eiga í vanda auðnist að fylgja vörðum sem vísa veginn upp hæðina, teygja þar hendur upp hátt, horfa á sólina rísa að morgni og stjörnurnar skína í sátt að kveldi,“ sagði Rúnar á fjasbókarreikningi sínum er hann fylgdi verkinu úr hlaði. „Platan er að stórum hluta helguð þeim sem lenda í áföllum, eiga við ótta, kvíða og hvers konar verki eða geðrænan vanda að glíma.“

Hálfdán Árnason leikur á bassa og hljóðgervla og aðrir þátttakendur voru Arnar Þór Gíslason (trommur), Birkir Rafn Gíslason (gítar), Lára Rúnarsdóttir (raddir), Margrét Rúnarsdóttir (raddir), Arnar Guðjónsson (selló), Ágústa María Jónsdóttir (fiðla), Jóhann Ingvi Stefánsson (trompet, horn) og Óskar Guðjónsson (saxófónn). Arnar Guðjónsson hljóðblandaði og hljómjafnaði. Upptökur voru gerðar af Birgi Jóni Birgissyni, Gísla Kristjánssyni og Rúnari Þórissyni sem leikur auk þess á píanó, hljóðgervla og gítar auk þess að syngja.

Plötunni vindur fram á naumhyggjulegan máta með reglulegri viðkomu í djúpfögrum tónhvilftum, já, svo ég segi það bara hreint út. Yfir henni er reisn og pundið er þungt. En ljósgeislarnir því sterkari. Rúnar samdi plötuna á píanó og Nick Cave hefur verið nefndur sem áhrifavaldur, þá sérstaklega plötur hans Skeleton Tree og Ghosteen og þetta heyrist í fyrsta lagi, „Út í þögnina“. Hægstreymt og höfugt lag, helgibundnar raddanir og strengir styðja við og hér er ekki verið að fara sér óðslega fremur en annars staðar á plötunni. Heildaráferðin er í raun einfaldari en sú sem einkennir margar af fyrri plötum Rúnars, skrítisprettir og hljómaæfingar víkja fyrir hreinum melódíum og á köflum epískum pörtum. „Svífum“ minnir helst á helgidóminn sem sveipar vanmetna plötu Van Morrison frá 1980, Common One. Brassið yljar í þessu laungrípandi lagi og Rúnar stenst eðlilega ekki mátið ef hann getur laumað inn pínu fléttum í annars „hefðbundin“ lög. Titillagið er hins vegar strípað og nokk magnþrungið, Sigur Rós kemur í hugann hvar yfir okkur steypist blýþung fegurðin.

Restin er með svipuðum hætti. Þetta er sterk plata, einkum vegna þeirrar heilsteyptu myndar sem hér er að finna. Platan fjallar um alvöru mál og er því með þeim brag en það er ekki svo að við séum í einhverjum solli. Vonbirta og djarfleiki speglast þvert á móti í framvindunni allri og platan er í raun réttu óður til lífsins. Eða eins og segir í „Gefst ekki upp“: „Þú gefst ekki upp þó fellt hafir tár / Ég veit hversu erfitt það er / Þú gefst ekki upp eins og fugl flýgur burt / Og þú finnur og veist þú verður frjáls.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: