Sírena Stína Ágústsdóttir fer um ókunna stigu á nýrri plötu sinni.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 30. apríl, 2022.

Smá popp, smá djass, smá tilraunir…

Ný plata Stínu Ágústsdóttur kallast Drown to die a Little. Valmenni eru með henni í för, tónlistin áheyrileg um leið og reynt er á ýmis mörk.

Platan var tekin upp í Sundlauginni í júlí síðastliðnum með einvalaliði tónlistarmanna. Gítarleikarinn Mikael Máni Ásmundsson, bassaleikarinn Henrik Linder, píanóleikarinn Magnús Jóhann Ragnarsson og trommarinn Magnús Trygvason Elíassen léku undir með Stínu auk þess sem Katie Buckley leikur á hörpu, Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir, Þórunn Harðardóttir og Laura J. Liu á fiðlu og Unnur Jónsdóttir á selló. Þessi mannskapur, svona að mestu, kom auk þess fram með henni á útgáfutónleikum sem fram fóru í Hörpu í síðasta mánuði. Platan er gefin út af hinu virta sænska plötufyrirtæki Prophone og dreift af Naxos.

Stína býr alla jafna í Svíþjóð en kemur reglulega til Íslands vegna tónlistarástundunar og hafa heimsóknir hennar færst í vöxt síðastliðin ár. Í Svíþjóð hefur hún m.a. unnið með listamönnum eins og Maz Schultz, Håkan Brosträm, Erik Söderlind, Simon Berggren, Henrik Linder, Joel Lyssarides og Kjetil Mulelid. Talsvert hefur verið um plötuútgáfu, árið 2019 kom jólaplatan frábæra Hjörtun okkar jóla út sem hún gerði í samstarfi við söngkonuna Marínu Ósk og ári síðar kom platan The Whale út. Þá kom platan Jazz á íslensku út árið 2017.

Nýja platan sprettur úr jarðvegi heilunar og bata. Stína segir í fréttatilkynningu að hún hafi veikst alvarlega árið 2016 og upp úr því hafi ganga úr myrkri í átt að ljósi hafist. Platan fjalli í raun réttri um það ferðalag. Mikael Máni hefur reynst Stínu góður meðreiðarsveinn og vinur og átti hann þátt í samningu nokkurra laga. Einnig komu Maïa Davies og Jan Alexander að lagasmíðum. Albert Finnbogason tók þá þátt í að hljóðrita plötuna og hljóðblanda hana.

Þetta er merkisplata um margt og það er enginn hægðarleikur að pinna hana niður stíllega. Ég vísa í þessa erfiðleika í fyrirsögn, það er djass hérna, popp og ákveðin tilraunastarfsemi líka, allt í bland. „Maternal“ rúllar henni af stað, hægfara smíð og varkár, hörpusláttur í bland við meistaralegar trommur Magnúsar, gítara og fleira. Lagið svona tekur pláss mætti segja, er engan veginn að flýta sér og þessi rólyndisopnun virkar. „Possessions of Grace“ er djassmiðaðra, hraðara tempó og yfir svífur kröftug rödd Stínu. Hún er með svala rödd, er með „swagger“ eins og það heitir á engilsaxnesku. Heillandi pæjustælar, svo ég gerist forn í máli. En reglubókin var greinilega skilin eftir fyrir utan þröskuldinn þegar lagt var í plötugerðina og er það vel. „Forest in me“ er t.a.m. vel tilraunaglatt. Og gefur sig illa þegar ég reyni að veiða það í skilgreininganetið mitt. Popp, eða rokk? Smá progg jafnvel. Viðlagið er æsingslegt, ef ekki tryllt, og lagið endar með mikilli flugeldasýningu. Meiriháttar!

En svo erum við með lag eins og „Body“ sem sveiflast út í nokkurs konar nútímapopp, Katy Perry með djasssveiflu. Adele? Eitthvað svoleiðis.

Þannig eru allir litir regnbogans yfir þessari plötu og aldrei víst hvað leynist handan við hornið. Sjá t.d. „Shameless Nothings“, sem er kvikmyndalegt, jafnvel smá Portishead-keimur. Undarlega uppbyggt og nýstárlegt. Það er eitthvað hetjulegt við þetta verk og hugrakkt. Fyrri plötur Stínu hafa siglt um hefðbundnari mið en hér var greinilega ákveðið að ástunda nákvæmlega það sem blési höfundi í brjóst. Á því græðum við. Og Stína að sjálfsögðu líka.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: