Fersk Sucks to be you Nigel stillir sér upp á síðustu Kraumsverðlaunaafhendingu. — Ljósmynd/Kraumur.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 26. mars, 2022.

Ungæðislegt, ómótstæðilegt…


Það er enn verið að búa til hrátt og ægiskemmtilegt neðanjarðarrokk eins og hin skemmtilega nefnda Sucks to be you Nigel sannar.


Tína blóm er fyrsta plata ungsveitarinnar Sucks to be you Nigel. Það er merkilegt að líta yfir sviðið þegar maður er kominn fast að fimmtugu og sjá og heyra að vissir hlutir í dægurtónlist virðast sígildir. Einfalt, hrátt bílskúrsrokk virðist síendurtekið eiga upp á pallborðið, hvort sem það er Velvet Underground, Buzzcocks, Jesus and Mary Chain eða hvaða það band sem fólk vill nefna. Setjum þessa ágætu sveit sem hér er til umfjöllunar í þennan flokk, því ekki það?

En fyrst langar mig til að veita hljómsveitinni Sucks to be you Nigel verðlaun Arnars fyrir besta hljómsveitarnafnið. Þvílík snilld! Þessi rokksveit, sem spilar hrátt og skemmtilegt bílskúrspönkrokk með dassi af síðpönki, vakti mikla athygli á síðasta ári fyrir líflega sviðsframkomu og skemmtilega tónlist sem bókstaflega titrar af lífsgleði hinna ungu. Allt má, allt er hægt og allt er gert. Ástríða í forgrunni, gleðin við það að skapa og búa til. Þessi mektarsveit er annars skipuð þeim Silju Rún Högnadóttur söngvara og öskrara, Erni trommara, Krumma bassaleikara og Vigfúsi gítarleikara.

Tónlistin er eins og lýst er; hrá og lifandi bílskúrstónlist, og ég hugsa um sveitir eins og Gróu, Spaðabana og Pínulitlar peysur. Hljóðfærakunnátta oft af nokkrum vanefnum og mikið sem það er hressandi. Þegar þú kannt ekki reglurnar, þekkir ekki lögmálin, þá kemur eitthvað óvænt, eitthvað öðruvísi, eitthvað skemmtilegt. Þetta er svona yndisleg búbbla eiginlega sem hverfur eðlilega þegar fólk verður betra á hljóðfærin. Vanþekking á tónlistarsögunni er líka kostur, en hérna – eins og reyndar með hinar sveitirnar sem ég nefni – er hægt að finna samanburð við pönkhetjur til forna, krúttbylgju níunda áratugarins og gaddavírsrokk frá tíunda áratugnum. Svo eitthvað sé nefnt. Ekki er hægt að segja til um hvort vísanirnar séu meðvitaðar eða ómeðvitaðar. Sagan hefur reyndar sýnt okkur að þegar þú ert unglingur, með aðgang að rokkhljóðfærum og með slatta af orku, ástríðu og hugmyndum, ber útkomuna iðulega að sama brunni.

Lögin hérna eru flest hver stutt og snörp, sjá t.d. titillagið, sem er rúm mínúta. Þriggja gripa rokk og ról er dagskipunin, Silja orgar af festu og lagið er búið um leið og það byrjar. „Læk á það,“ segja Purrkurinn og Wire. Í bland eru þó lengri lög og tilraunakenndari. Sjá „Mara“ sem er surgandi þunglamalegt og hefði sæmt sér á fyrstu plötum Sonic Youth. „Sillý sinth sóló“ er nokkurn veginn það, furðusmíð sem fer í hinar og þessar áttir. Hljómar nánast eins og óklárað. Þetta, að því er virðist, hirðuleysi fyrir því hvað er rétt, skynsamlegt og áferðarfallegt er í senn styrkur plötunnar og galli. Eins og ég hef lýst: að gera hlutina beint af augum er það sem heillar en að sama skapi eru hérna hlutir sem verða trauðla endurteknir. Gleymum því ekki að þetta er frumburður og því marki óhjákvæmilega brenndur í ákveðnum tilfellum. Sjá t.d. „Er það un-pc að skera börn í tvennt?“ sem er í besta falli flipp en að mestu hálfgert frákast.

Svo ég taki saman. Allur „ófullkomleiki“ sem hægt er að finna á plötunni er því ekkert nema nauðsynlegur vaxtarverkur. Það sem ég heyri, fyrst og síðast, er gleðirík og ástríðufull sköpun, áhersla á að gera og gefa út, eins og sannur pönkandi segir til um. Skítt með fínpússningar. Meira pönk, meira helvíti og áfram veginn!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: