Ljósmynd/Berglind Lilja Þórarinsdóttir.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. mars, 2019.


Milli svefns og vöku

Plata Sunnu Friðjóns, Enclose, fór meira og minna undir radarinn á síðasta ári. Það er vonandi að sem flestir ljái henni eyru þar sem verkið – sem er frumburður listamannsins – er ógnarsterkt.


Það er meira en að segja það að ætla að henda reiður á öllu því sem út kemur á sviði tónlistar hérlendis. Útgáfa hér er, nú sem ætíð, með mesta móti, og er það fagnaðarefni. Samt hugsar maður alltaf, „rækallinn!“, þegar gripir sleppa óséðir frá manni.

Enclose, plata Sunnu Friðjóns, kom út í janúar á síðasta ári, en þá hafnaði hún að minnsta kosti á Bandcamp-setri hennar (einnig má nálgast verkið á Youtube og Spotify). Það var ekki fyrr en ég settist við dómnefndarstörf fyrir Íslensku tónlistarverðlaunin nú í ár að ég kynntist plötunni og rak mig óðar í rogastans. Hér var komin næm og natin nútímatónlist, dansandi á mörkum kammerlistar og dægurtónlistar. Meistari Julia Holter kom t.a.m. upp í hugann, sem hefur hvað lengst náð í samslætti tilraunakenndrar nútímatónlistar og því sem kalla mætti neðanjarðarrokk eða -popp (og Sunna er og að spila inn í heim Ólafs Arnalds, Jóhanns Jóhannssonar og Max Richter, hinnar svokölluðu síðklassíkur (post-classical)).

Það er ákveðið andrúm á Enclose sem grípur mann. Fyrsta lagið, „Intro / Night Time / Curiosity“ er borið uppi af píanóslögum, strengjum, blásturshljóðfærum og viðkvæmnislegri en um leið áhrifaríkri röddu Sunnu. Lagið fær að anda, það er mikilúðleg þögn á milli nótna, og í því er knýjandi melankólía sem snertir mann. Ástríða. Og platan er rétt að byrja! Það er rafmagn hérna. Stilla, en samt ekki. Lögin leita á þig, það er ómöguleg að hafa þetta í bakgrunni (og erfitt að skrifa þennan pistil, af því að ég er alltaf að stoppa og hlusta). Annað er eftir þessu, og klárt að hér er mikið efni á ferðinni. Ég meina, lesið það sem ég var að skrifa og hlustið svo! Fleiri voru á sama máli í dómnefndinni minni og ég fór svo að platan var tilnefnd til verðlauna sem besta platan í Opnum flokki.

En hver er Sunna? Eiginlegt æviágrip er stuttaralegt, ég komst að því að heimahagarnir eru Akureyri og Hafnarfjörður og hún lærði m.a. við Tónlistarskólann á Akureyri. Í dag starfar hún við tónlistarkennslu í Vogaskóla. En sumsé, eftir klassískt tónlistaruppeldi og nám í þverflautuleik beindi Sunna nýlega fókusnum að lagasmíðum og tónsmíðum og því að stíga fram sem söngkona eigin hljómsveitar. Pistilritari ákvað að fara á stúfana, hafði samband við tónlistarkonuna og lagði fyrir hana nokkrar spurningar. Hún sagði mér m.a. að það hefði alltaf verið í DNA-inu hennar að koma fram, og gerast sólólistamaður. „Þegar ég steig þessi skref og lagði flautuna aðeins til hliðar þá var það bara rétt, ég gat loksins ,,slakað á og slakað inn í þá breytingu,“ segir hún og lýsir ferlinu sem snúnu, eðlilega. „Já, sú breyting og ákvörðun var að sjálfsögðu erfið. Að byrja að elta draum sem maður hefur alltaf verið hræddur við – semsagt hræddur við að mistakast eða vera ekki nóg – var mjög ógnvekjandi en svo spennandi á sama tíma. Allar dómhörkuraddirnar tóku að blómstra í fyrstu, sem er mjög eðlilegt við þær aðstæður, en í dag tek ég mun sjaldnar mark á þeim þegar þær láta í sér heyra.“

Sunna lauk nýlega námi við LHÍ, í skapandi tónlistarmiðlun, og lýsir því sem einkar hagnýtu. „Lagasmíðarnar sem ég lærði fleygðu mér mörg skref áfram þar sem mér mistókst mikið á stuttum tíma! Og í námi þar sem maður neyðist til að vera berskjaldaður lærir maður mest, þó að það sé ekki auðvelt að horfast í augu við allt. Ég hef náttúrlega verið í tónlistarnámi frá því ég var 7 ára, og tónlistin er eins og annað móðurmál hjá mér. Nám í tónlist er algjörlega ómetanlegt en það þýðir ekki að það sé nauðsynlegt til að vera framúrskarandi tónlistarmaður í eigin hljóðheimi.“

Sunna vinnur nú að annarri plötu sinni.Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: