Ber Einlægni, berskjöldun, sannleikur. Torfi sýnir djörfung bæði og
þor á EITT. — Ljósmynd/Kaja Sigvalda

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 4. maí.

Horft upp til stjarnanna

EITT er fyrsta plata Torfa Tómassonar en hann hefur vakið athygli að undanförnu fyrir smáskífur sínar og ekki síst tónleika sem eru hrífandi sjónarspil.

Það bar svosem ekki mikið á Torfa þegar ég kenndi honum í LHÍ um árið. Gott ef það var ekki á Zoom. Feimnislegur piltur en með sitt nokkurn veginn á hreinu, vann sín verkefni samviskusamlega og svosem ekkert meira um það að segja. En það var nálægð þarna þó að við værum í ríkisfyrirskipaðri fjarlægð.

Þetta var vorið 2021 og stuttu eftir að námskeiði lauk hlóð hann upp fjögurra laga stuttskífu á Bandcamp. Væntumþykjast er titillinn og hangir hún þar enn og á Spotify reyndar líka (undir nafninu Torfi Tómasson).

Ég sendi honum kveðju í gegnum Messenger-skjóðuna í kjölfarið og við áttum stutt spjall, helst þá um meistara Perfume Genius sem ég nam í tónlistinni hans. Hann samsinnti, svona í og með.

Allt um það. Ég var með augu og eyru á honum áfram og sé hann næst á Músíktilraunum 2023. Þá var eins og viss hamskipti hefðu átt sér stað. Torfi Tómasson var orðinn TORFI og undir þeim reikningi er nýja platan. Hár sítt, líkaminn í óttalausri framstillingu. Hinseginleikinn í öndvegi. Það var eitthvað í fasi Torfa og allri holningu sem var spennandi, tja, eiginlega upplyftandi. Tónlistin tónaði vel við þetta allt saman og danssporin á sviðinu framúrskarandi enda piltur í nútímadansnámi. Þátttaka hans afar tilkomumikil og hvernig sem færi keppnislega vissi maður að TORFI væri að fara lengra. Nú er það orðin raunin.

Torfi hefur lýst tilurð plötunnar á RÚV, í Morgunblaðinu og á fleiri vettvöngum og er það vel. Ég ætla hins vegar að nota restina af plássinu til að fara á bólakaf í tónlistina sem slíka.

„EITT er gerð til að skemmta, til að ögra, til að fá fólk til að hugsa sig um og gleyma sér, allt á sama tíma,“ segir Torfi í textanum sem fylgir plötunni úr hlaði og er birtur á Fésbók. Að hugsa og gleyma, ég kann að meta þessar línur. Platan hefst í gáskabundinni gleði, titillagið er óður til hinsegin klúbbamenningar sem er yfirlýstur tilgangur plötunnar, svona meðal annars. Verkið er nefnilega giska fjölbreytt (eins og ég mun sýna fram á) og titillagið er þannig sveittur, hressilegur slagari. Frelsisyfirlýsing: „Hver ég er og hvernig kemur engum öðrum við.“ Teningunum er kastað, hnefinn settur í borðið og bara, „dílaðu við það!“ Glæsilegt. Fleiri lög eru með þessum blæ, t.d. „Silfrað frelsi“, hvar samnemendur Torfa syngja í kór. Söngurinn er glettinn, ertandi og Torfi leyfir sér að sleppa sér, öskra og hlæja. En svo eru lög hvar ástarjátningar fara mikinn. „Hrifnastur“ er frábært að því leytinu til og ansi áhrifamikið. „Ég get ekki hætt að hugsa um þig“ er endurtekið í sífellu. Síðan þetta: „Svo ótrúlega sætur að það verður næstum pirrandi / Svo ótrúlega næmur að það gerir næstum út af við mig.“ Torfi tekur andköf af ást og fnæsir af frygð á einum tímapunkti. Ég vona að sem flestir, gagn- sem samkynhneigðir, hafi upplifað þetta ástand sem er í senn dásamlegt og hrikalegt.

Tónlistin er mestanpartinn pumpandi dansvænt tölvupopp en það eru hreinar ballöður líka, sjá hið undurfagra „Ofurhægt“: „Ég kyssi þig ofurhægt / svo ég missi ekki af neinu … hver sekúnda með þér er eilíf / Samt líður mér eins og sé alltaf að kveðja þig.“ Að heyra þetta flutt af löngunarfullum Torfa leggur mann.

Virkilega vel gert verð ég að segja. Frábær frumburður og megi hann berast sem lengst og sem víðast. Fyrirsögnin er svo frá Oscar Wilde: „Við erum öll í ræsinu en sum okkar horfa upp til stjarnanna.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: