Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. júní, 2022.

Niður alda og nútíma

Ný plata hljómsveitarinnar Umbru kallast Bjargrúnir en þar er leitað af krafti bæði og elju í íslenskan tónlistararf. Hér er rýnt sérstaklega í plötuna en einnig eigindir sveitarinnar sem slíkrar.

Bjargrúnir eru fjórða plata Umbru og hefur starfsemi verið með blómlegasta hætti að undanförnu. Í kófinu lögðust meðlimir nokkurn veginn í hýði eins og heimurinn allur (þær Alexandra Kjeld, Arngerður María Árnadóttir, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir og Lilja Dögg Gunnarsdóttir) en nýttu tímann til að hefja rannsóknir fyrir þessa plötu hér. Ísland er í algerum brennidepli nú en við gerð fyrri platna Umbru hefur verið leitað fanga utan landsteina.

Í desember 2020 tókst Umbru að halda jólatónleika í Háskóla Íslands, sem streymt var, og í júní 2021 léku þær tónleika í Hörpu fyrir framan grímuskrýdda áheyrendur. Seint í ágúst tróðu þær svo upp á kirkjutónlistarhátíð í Helsinki. Bjargrúnir var svo tekin upp í Reykholti í september, hæfandi staður verður að segjast. Það er svo til vitnis um hversu skemmtilega Umbra er aldrei við eina fjöl felld, að sveitin tróð upp á öfgarokkshátíðinni Ascension í nóvember en hún fór fram í Mosfellsbæ. Sérstaklega dökk andlitsmálning var brúkuð af tilefninu! Síðastliðinn apríl ferðaðist Umbra svo til Svíþjóðar og tók þátt í Nordic Folk Alliance-hátíðinni (ásamt Blood Harmony og Svavari Knúti).

Bjargrúnir kom svo út á vegum Dimmu í síðasta mánuði, afrakstur þriggja ára þrotlausrar vinnu. Lögin; þjóðlög, sagnadansar og ballöður byggjast allt í senn á eldra efni, nýjum útsetningum á því og í tveimur tilfellum frumsaminni tónlist eftir meðlimi. Þeir Matthías M.D. Hemstock og Eggert Pálsson lögðu til slagverk og Ragnheiður Jónsdóttir hljóðritaði, hljóðblandaði og hljómjafnaði. Annað var í höndum Umbru.

Það er fallegur – og mikilvægur – pólitískur undirtónn á þessari plötu. Í upplýsandi texta, sem fylgir geislaplötunni, ræða Umbruliðar um að þær nálgist efnið eins og „lifandi uppsprettu“ og tóku sér því skáldaleyfi er andinn kallaði á slíkt. Staða og raunir kvenna um aldirnar eru t.d. dregnar markvisst fram á plötunni. Heimildir um slíka hluti eru eðli málsins samkvæmt af afar skornum skammti, enda sagan skrifuð af þeim sem með völdin fara. Kveðskapur plötunnar tekst gjarnan á við erfiðleika og hörmungar og sá í yngri kantinum gjarnan miðaður að þætti kvenna í þeim efnum. En eins og segir í upplýsingatextanum er þetta ekki eintómur drómi og djöfulgangur: „Þessum raunamyndum fylgir þó ekki algert vonleysi, heldur þvert á móti bera mörg ljóðin líka með sér óbilandi elju, seiglu, drifkraft, æðruleysi og lausn: það eru bjargrúnir“. Bjargrúnir eru galdrarúnir sem valkyrjan Sigurdrífa lét Sigurði fáfnisbana í té, svo lina mætti þrautir kvenna í barnsnauð.

Áferð plötunnar kallast á við fyrri verk Umbru. Þróunin er til þess að gera línuleg en þessi penni hér vill þó merkja framfarir með hverju og einu verki, þó ekki sé nema bara fyrir uppsafnaða reynslu hópsins. Ég hef áður rætt um það hversu hrifinn ég er af framsetningu hópsins, hvernig myndmál, hönnun og slíkt kallast á við þá tónlist sem á borð er borin hverju sinni. Þetta skiptir máli. Meðlimir stunda afar fínlegan (sagna)-dans hvað þetta varðar. Jafnvægis er gætt. Platan lítur hvorki út, né hljómar, eins og ódýr þjóðlagahræra sem er seld í lundabúðum, heldur líta þær stöllur meira út eins og rokkhljómsveit á umslaginu. En um leið er hinn „klassíski“ jarðvegur sem þær koma úr vökvaður nægilega vel, það er m.ö.o. ekki farið útbyrðis í einhverju flippi.

Hljóðheimurinn hér kallar sannarlega fram eitthvað „íslenskt“ og já, harðræðið og myrkrið rúllar þarna um rásirnar. Sem Íslendingur „finn“ ég þetta bara, fyrir erlenda hlustendur er þetta ábyggilega spennandi, jafnvel framandi. Báðir aðilar vinna.

Lög eins og „Stóðum tvö í túni“ og „Grafskript“ sem maður þekkir í gegnum Þursa eru útsett með Umbruhætti og er það vel. Annað líður fagurlega um eyru og maður finnur vel fyrir þeirri ástríðu og þeim hjartatóni sem þessi magnaða sveit klæðir verk sín einatt í. „Úr Sigurdrífumálum“ er frumsamið verk en ekki að maður taki sérstaklega eftir því. Er þetta ársgamalt lag eða 500 ára? Skiptir ekki máli. Eða eins og sagt var um Sandy Denny, söngkonu ensku þjóðlagasveitarinnar Fairport Convention: „Hún gat látið þúsund ára gamalt lag hljóma eins og það hefði verið samið í gær og gætt þúsund ára gamla smíð slíku lífi að það var eins og nýtt.“ Það er það sem skiptir máli. Tónlist er ekki safnahlutur, hún er einmitt „lifandi uppspretta“.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: