Fengur Drengurinn fengurinn fagnar níu ára starfsafmæli í ár.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. júní, 2022.

Þvílíki sprengurinn

Drengurinn fengurinn er listasjálf Egils Jónassonar. Mergð platna og tónlistarverka liggur m.a. eftir hann þótt lágt hafi farið.

Drengurinn fengurinn fagnar níu ára starfsafmæli í ár. Hann gerir út frá Akureyri og tónlistarútgáfa hans hefur farið tiltölulega lágt, verður að segjast. En hvílíkur fjársjóður! Skrítipopp í anda Mouldy Peaches, lágfitls-fagurfræði („lo-fi“) og snjallir textar sem lýsa skemmtilegum hversdagsuppákomum. Bara í ár hafa komið út sjö plötur (!) og ein með hinum dásamlega, kersknislega titli, Ég hata að vinna . (Í fyrra komu út yfir tugur titla).

Pistilritari setti sig í samband við Egil og spurði hann spjörunum úr. Fyrir það fyrsta, hver pælingin væri með þessu öllu? Er þessi hráa vinnsla, þetta „næfi“ meðvitað eða jafnvel ómeðvitað?

„Ég vinn mjög hratt,“ svaraði Egill. „Það er að segja, ég er alltaf að reyna að vera á undan þessari lamandi sjálfsgagnrýni sem nær að laumast inn ef ég stoppa of lengi. Margir segja að maður ætti ekki að vera hræddur við að gagnrýna sjálfan sig en ég næ einhvern veginn ekki að aðskilja sjálfsgagnrýni og sjálfshatur, þannig að ég sleppi henni að mestu. Næfið er alveg meðvitað en ég er samt að gera mitt besta. Mig langar mjög mikið að kunna að gera venjuleg lög, sem verða spiluð í verslunum og jafnvel á klúbbnum, en ég á mjög erfitt með það.“

Aðspurður hvernig það sé að vera listamaður norðan heiða, segir hann það nett: „Ég er með góða aðstöðu hérna í Kaktus, sem er staðsett við hlið Listasafnsins á Akureyri. Þar er ég með stúdíó og málningarstúdíó. Ég neyddist til að byrja með „tónleikastað“ þar sem ég var búinn að gefast upp á því að bíða eftir að einhver annar gerði það. Margir í bæjarapparatinu eru tilbúnir í að keyra eitthvað í gang ef maður er með hugmynd, djörfung og dug.“

Egill kemur með skemmtilegar skýringar á hamsleysinu í sköpuninni. „Ég hélt að ég myndi pottþétt fá listamannalaun, þar sem ég verð með einkasýningu á Listasafninu í haust ásamt öðrum verkefnum. Var alveg búinn að gíra mig upp í að þurfa ekki að vinna (finnst það svo leiðinlegt) og tók að mér alls konar verkefni líka. Svo fékk ég ekki neitt, þannig að ég hætti bara að vinna. Núna blæðir mér peningum en hef tíma til að gera eitthvað uppbyggilegt. Stend t.d. fyrir tónleikaröð sem heitir Mysingur í samstarfi við Ketilkaffi og Listasafnið á Akureyri. Mér finnst að ég ætti að fá listamannalaun og styrk frá Myndlistarsjóði, held að það væri gott fyrir samfélagið og mig. Bráðum klárast nefnilega peningarnir mínir og þá neyðist ég til að vinna. Við eigum betra skilið. Maður þarf auðvitað að vera duglegur, þótt maður sé listamaður, en framtíðarplanið mitt er engu að síður að þurfa ekki að vinna meira en fjórar klukkustundir á dag í launavinnu.“

Svo mörg voru þau orð. Fyrir mitt leyti, þá flæða margir klukkutímar af nánast ókeypis efni um streymisveitur sem kætir bæði og bætir. Egill er því löngu búinn að vinna sitt og vel það.

Þegar ég spyr Egil af hverju hann kynni tónlistarútgáfuna ekki betur en raun ber vitni, svarar hann snilldarlega: „Þegar ég var lítill, þá var mér hrósað fyrir að vera hógvær. Ég hef aldrei beðið þess bætur.“

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: