Í dag Ásgeir Trausti, anno 2022.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 2. júlí, 2022.

Algjör (dauða)þögn er best

Ásgeir Trausti fagnar tíu ára afmæli plötunnar Dýrð í dauðaþögn, verkinu sem hrundi ferli hans af stað, með endurútgáfu og hljómleikum.

„Þessi lög eru silfurtær eins og lind sem mann langar að teyga úr endalaust … Það er sannarlega dýrð í dauðaþögn en enn meiri dýrð er í góðri tónlist sem þessari. Vonandi er Ásgeir Trausti bara rétt að hefja ferð sína í gegnum þagnarmúrinn.“ Svona skrifaði María Ólafsdóttir í Morgunblaðið haustið 2012 er fyrsta plata Ásgeirs Trausta kom út. Og henni átti svo sannarlega eftir að ratast satt orð á munn. Platan sló óforvarandis í gegn hérlendis, seldist í bílförmum eiginlega (yfir 40.000 eintök seld í dag) og Frónbúar báru þennan rétt svo tvítuga pilt um á gullstóli í kjölfarið. Og ekki að undra, tónlistin er nokkurn veginn eins og María lýsir, falleg og melódísk og svo áreynslulaus eitthvað. Lindarlíkingin er góð. Í kjölfarið átti Ásgeir eftir að leggjast í víking og það með góðum árangri. Er í dag með þekktustu nöfnum íslenskum á erlendri grundu, með aðdáendur víða um veröld og bregður sér reglubundið í hljómleikaferðalög.

Sjálfur var ég nýfluttur til Skotlands þetta haustið og missti meira og minna af þessu fári öllu. Gat þó rýnt af krafti í næstu plötu hans, Afterglow , sem gagnrýnandi RÚV og líkti tónlistinni þá við fljót. Hafði ekki lesið dóm Maríu samt! Þar sagði ég m.a.: „ Afterglow er hugrakkt verk. Platan er seintekin, gefur sig ekki og eftir að hafa þrætt sæmilega kunnuglegar slóðir á fyrri hluta plötunnar tekur Ásgeir stökk inn á ókannað svæði á þeim seinni.“

Afterglow var sem sagt engin endurtekning á fyrra afreki, þess haglega gætt reyndar, og platan hin stöndugasta, verð ég að segja, einmitt vegna þess útgangspunktar. Fyrir minn hatt hefur hann þó aldrei gert betur en á síðustu plötu sem er óður til rótanna, heimahaganna. Í skrifum mínum um Sátt/Bury the Moon fyrir RÚV sagði ég: „Þetta eru fallegar smíðar, umlykja hlustandann, leyfa honum að gleyma sér. Strengir, blástur og forritun, allt í fallegu jafnvægi … Eins bjánalega og það kann að hljóma hefur Ásgeir aldrei verið meiri „Ásgeir“ en einmitt hér. Hann er kominn heim.“

Svona hefur Ásgeir haldið um tauma. Gætt þess að vera skapandi en halda sig þó innan kunnuglegs heims. Og nú hyggst hann taka ofan fyrir frumburðinum sem kom út í gær í sérstakri viðhafnarútgáfu, á þrítugsafmæli höfundarins. Um er að ræða tvöfaldan vínyl, í forláta opnanlegu umslagi („gatefold“) og er hann grænn í þokkabót. Fjórða hliðin er án tónlistar en skartar hins vegar grafinni mynd af Ásgeiri. Platan inniheldur fjögur aukalög og þar af eru tvö áður óútgefin. Einnig kemur hún út á svörtum vínyl og á geisladiski. Ekki nóg með það heldur verða tónleikar í Eldborg í endaðan ágúst. Stórhljómsveit og strengir styðja þá við flutning á plötunni í heild sinni.

Ég gluggaði í viðtal sem Silja Björk Huldudóttir tók við okkar mann í september 2012. Þá hafði platan verið að seljast von úr viti og Ásgeir standandi hissa eins og flestir. Þar lýsir hann því að hann gæti vel hugsað sér að gera tónlistarkennslu að framtíðarstarfi en þá var hann kenna krökkum á Hvammstanga tónmenntir. Svo varð ekki, eðlilega, þó að Ásgeir hafi vissulega kennt okkur eitt og annað með listfengi sínu á síðustu árum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: