Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. desember, 2018

Líður að tíðum

Sólhvörf nefnist nýútkomin jólaplata tónlistarhópsins Umbru. Hópurinn útsetur á henni gömul jafnt sem ný jólalög með sínum hætti.

Maður skimar eðlilega ár hvert eftir viðbótum við íslenska jólatónlist. Hér á skrifborðinu mínu er t.a.m. forláta vínylplata sem nefnist Jól sko!, sem er tillegg hinna austfirsku Dúkkulísna í þennan merka geira. Annar hópur, skipaður kvenmönnum eingöngu, er og með framlag að þessu leytinu til. Stofnað var til Umbru árið 2014 og hefur sveitin einbeitt sér að flutningi fornrar tónlistar en einnig nýrrar. Í höndum meðlima leika því miðaldastemmur en einnig nútímatónlist, en Umbra starfar reglubundið með dans- og spunahópum og hefur flutt ný verk, skrifuð sérstaklega fyrir hópinn. Virkni hefur verið með besta móti í ár en Sólhvörf er önnur platan þetta árið, og er það hið ágæta forlag Dimma sem stendur að útgáfunum (Úr myrkri var fyrri platan, dularfull og seiðandi miðaldatónlist frá Íslandi og meginlandi Evrópu). Hópinn skipa þær Alexandra Kjeld (kontrabassi og söngur), Arngerður María Árnadóttir (keltnesk harpa, orgel og söngur), Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir (barokkfiðla og söngur) og Lilja Dögg Gunnarsdóttir (söngur og slagverk).

Það sem hefur vakið athygli mína hvað Umbru varðar er hversu meðvitaðar þær stöllur eru um heildaráferð. Orðið er „svalt“, hugtak sem flögrar venjulega nokkuð langt utan við þann heim sem þær tilheyra, það er hinn klassíska. Bara þegar litið er til umslaga þaðan, svo ég taki lítið dæmi, er íhaldssemi og formfesta grunntónninn, hvort sem er í leturgerð eða ljósmyndum. Umbra rokkar þetta hins vegar upp; ljósmyndir af hópnum eru töff, heimasíða flott og stíliseruð og allur pakkinn því aðlaðandi. Umslag Sólhvarfa er t.a.m. með þeim betur heppnuðu þetta árið, fjórar hendur og snjór (eða er það salt?) sem sáldrast á milli fingra. Bakgrunnur svartur og stemningin á plötunni sjálfri glæsilega undirstungin (hönnuðir enda hinar hæfileikaríku Inga og Lilja Birgisdætur).

Innihald plötunnar er fjölskrúð ugt, þó allt sé það svo bundið í útsetningar Umbru. Við erum með lítt þekkt lög, eins og „Personent hodie“ sem er að finna í finnsku söngbókinni Piae Cantiones og er rakið til fjórtándu aldar. Einnig eru hérna íslenskir „slagarar“ eins og „Hátíð fer að höndum ein“ og „Með gleðiraust og helgum hljóm“. Einnig erlend lög sem eru djúpt inni í jólalagakanónunni, eins og „God rest you merry, Gentlemen“ og sálmarnir kenndir við Wexford og Coventry.

Stemning næst á plötunni, og framreiðsla er góð. Niður aldanna er þarna; sólhvörf, myrkur, vetur og norðangarri en um leið mýkt, höfgi, stilla og þægilegheit. Ég segi „stemning næst“ því að þrátt fyrir góðan vilja hefur svona konseptum verið klúðrað með glæsibrag í gegnum tíðina. Það er hægt að detta í of mikla tilgerð, of mikla hátimbrun, of mikið nýaldargutl og hreinlega hafa svona plötur fallið marflatar, þó að uppleggið lofi allt öðru. En það er hægt að gera þetta af alúð og smekklegheitum. Það er t.d. frábær lagaspotti (playlist) á Spotify sem kallast Mystical Christmas, uppfullur af svipuðu efni og ágæt sönnun á að þessi nýja öld lagaspotta fremur en platna hafi kosti til að bera. Mér varð líka hugsað til nokkurra listamanna sem hafa náð að skjóta beint í mark með viðlíka efni, Loreena McKennit hin kanadíska t.d. (dulúðugur, keltneskur rammi), Caitriona O’Leary (plata hennar Wexford Carols er vel heppnuð) og Maddy Prior, hin kunna enska þjóðlagasöngkona gerir gott mót á Tapestry of Carols. Að ekki sé talað um Hátíð fer að höndum ein, hina stórmerku og stórglæsilegu plötu Þriggja á palli. Líkt er með Sól hvörf, metnaðarfullt verk sem gengur að öllu leyti upp og stendur klár og keik við hlið alls þess sem ég hef nefnt hér.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: