vagina boys - icelandick

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. apríl, 2016

Kvenskapandi piltar

Icelandick er netplata eftir rafsveitina Vaginaboys. Hana má nálgast í gegnum hinar ýmsu streymis- og niðurhleðslusíður. Meðlimir fara huldu höfði og leynast bakvið grímur, og upplýsingar um hver gerir hvað í sköpuninni liggja ekki fyrir.

Það er til tónlist sem býr yfir nokkurs konar galdri og sleppur undan formlegum geiraskýringum og orðaleikfimi sem við gagnrýnendur stöndum alla jafna í. Það er „eitthvað“ í henni sem ekki er hægt að koma í orð en það er einmitt þetta „eitthvað“ sem heillar og dregur mann ítrekað að tónlistinni. Icelandick með Vaginaboys er þannig verk. Sveitin inniheldur unga raftónlistarmenn sem vilja ekki láta nafns síns getið og hafa þeir verið áberandi undanfarin misseri í íslensku tónlistarlífi í gegnum tónleikahald, plötusnúðasett, endurhljóðblöndunarstarfsemi og svo útgáfu, m.a. þessa sex laga stuttskífu.

Uppleggið er einfalt og er það eitt af töfrakornunum. Naumhyggjuleg, einföld raftónlist, lítið að gerast þannig, lögin eru tiltölulega einfaldar „mottur“ undir söng. Jaðarbundið r og b kemur í hugann, Earl Sweatshirt, Weeknd t.d. Söngurinn og textarnir er hins vegar það sem hefur þetta upp á næsta stig. Alveg fyrst hljómar þetta eins og sprell. Grallaragrín. Raddréttleiðrétting og -bjögun (auto-tune) er notuð í öllum lögum og það á ansi áhrifaríkan hátt (platan er eins og bastarður undan 808s & Heartbreak að því leytinu til).

Textarnir eru einfaldir ástarsöngvar, næstum því menntaskólalegir, og það er farið alla leið í slíkum pælingum. Í bland við einlægar ástarjátningar („Inn í þig“) kemur kynlífið góða við sögu, en alls ekki á dónalegan hátt. Það sem er sagt er nákvæmlega það sem fer í gegnum alla þá unglingshuga sem eru vaknaðir til vitundar um lystisemdir holdsins. Besta dæmið er „Í svefn“ en ég ætla ekki að hafa textann eftir, borgaralegt blað sem þetta höndlar það ekki. Sum textabrotin eru hrein snilld. Í „Ekki nóg“ segir m.a. „Taktu í höndina á mér, því ég er nóg/ég elska þú“. Þetta „þú“-uppbrot er stórkostlegt.

Vaginaboys er þá mjög gott dæmi um samtímatónlistarmenningu, dreifileiðir tónlistarinnar eru margháttaðar, efnislegt form er ekki nauðsyn og þetta er meira en bara tónlist. Vaginaboys framleiða t.d. klæðnað líka, líkt og flestar r og b-stjörnur dagsins í dag, og má nálgast boli og þvíumlíkt í gegnum opinbera síðu hljómsveitarinnar.

Það er „næfur“ galdur yfir hérna en samt ekki og það er það sem dregur mann ítrekað að. Sumpart hljómar þetta allt eins og svefndrukknir unglingar hafi verið að leika sér með tónlistarforrit en um leið virðist mjög ákveðinn útgangspunktur liggja til grundvallar. Kannski á hvorugt við og kannski er þetta blanda af hvoru tveggja. Skiptir samt á endanum engu, tónlistin talar fyrir sig sjálf. Og hún er æði.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: