Skuggabaldrar Andrew McKenzie í miðið, Guðmundur Ingi Markússon lengst til vinstri og Jóhann Eiríksson lengst til hægri. Indriði Viðar úr Inferno 5 er aftastur en hann tók auk þess myndina með tímastilli.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 26. júní, 2021.

Hvað er hér á seyði?

Íslenska „industrial“ sveitin Reptilicus er nú í óða önn að endurútgefa illfáanlegt efni. Nýverið kom Designer Time út, plata sem hún gerði með The Hafler Trio og gaf út árið 1994.

Reptilicus er eitt merkasta fyrirbærið sem íslensk tilraunatónlistarhugsun hefur getið af sér. Hljómsveitin kom fyrst saman árið 1988 og hefur frá upphafi verið skipuð þeim Guðmundi Inga Markússyni og Jóhanni Eiríkssyni. Þeir félagar sinntu „industrial“-tónlist sem nálega enginn hreyfði við og eljan skilaði þeim nokkuð langt inn í alþjóðlegu tilrauna- og jaðarsenuna við upphaf tíunda áratugarins. Unnið er með tölvur, raftónlist og óhljóð meðal annars og stundum er tónlistin afar torræð og óhlutbundin en hún á það líka til að vera lokkandi, dulúðug og straumlínulöguð. Eftir sveitina liggur slatti af útgáfum og nú hafa þeir félagar hrundið af stað endurútgáfustarfi, enda margar af plötunum löngu ófáanlegar. Designer Time kom upprunalega út á Staalplaat en hefur nú fengið laglega yfirhalningu hjá hinu kanadíska Artoffact Records sem hefur m.a. gefið út hinar íslensku Kælan mikla, Legend og Horrible Youth. Platan kemur nú út á hvítum vínyl og geisladiski (auk þess að liggja á streymisveitum) og var endurhljómjöfnuð af Curver Thoroddsen.

Þeir Guðmundur og Jóhann höfðu verið starfandi í þrjú ár og komið frá sér þremur plötum er þeir komust í kynni við Andrew M. McKenzie sem er hvað kunnastur fyrir eins manns sveit sína The Hafler Trio. McKenzie var þá þegar orðin goðsögn innan „industrial“-geirans og var í heimsókn á Íslandi ásamt Carl Michael von Hausswolff. McKenzie flutti í kjölfarið til landsins, bjó hér í áratug og hafði mikil áhrif á þróun og viðhald íslenskrar tilraunatónlistar. Designer Time var tekin upp árið 1992 í kæliklefa í yfirgefnu sláturhúsi. Með í för var Indriði Einarsson (nú Indriði Viðar) úr hinni mikilhæfu tilrauna- og uppákomusveit Inferno 5. Þessi mannskapur hófst handa við að hljóðrita hin ýmsu hljóð í rýminu sem voru svo skæld til og unnin áfram í tölvuforritum. Útkoman, sem var blanda af óhljóðum, töktum og sveimbundnum sprettum, kom svo út 1994 í gegnum hið virta hollenska fyrirtæki Staalplaat eins og áður er getið.

Þó að platan vísi í létthlustunartónlist á umslaginu er ekkert slíkt að finna í sjálfri tónlistinni sem samanstendur af fimm lögum eða verkum, hið síðasta 20 mínútur. Tónlistin er samt ekkert sérstaklega áleitin, hörð eða bylmingsbundin; þetta er ekki gargandi hávaði og brjálæði. Nei, tónlistin er lúmskari en svo og eiginlega læðist aftan að manni. Hún er draugaleg og næsta prakkaraleg og fyrsta lagið býr yfir smávegis Residents-blæ. Hið tuttuga mínútna „Theolepsy“ virðist t.d. samanstanda af sömu einföldu sínusbylgjunni út í gegn en er samt „skreytt“ með öðrum áhrifshljóðum sem virðast koma frá einhverjum skuggalegum handanheimi. Martraðarkenndin minnir á köflum á Selected Ambient Works II eftir Aphex Twin sem kom út sama ár. Heyrn er sögu ríkari og Artoffact heldur að sjálfsögðu úti öflugri Bandcamp-síðu þar sem hægt er að nálgast tóndæmi. Dr. Gunni ritaði dóm á sínum tíma um plötuna og sökum eðlis verksins sleppti hann stjörnugjöf. Gaf þess í stað táknin „?!“ og kallaði það hreina fífldirfsku að ætla sér að hlusta á það sem fyrir lá.

Til stendur að vera með allsherjar endurútgáfu á öllu efni Reptilicus í gegnum Artoffact Records og staðfest hefur verið að næsta verkefni verði hin magnaða Crusher of Bones (1990). Designer Time má nú nálgast á Bandcamp og Spotify en efnisleg eintök eru væntanleg síðsumars.

Tagged with:
 

One Response to Reptilicus: Designer Time endurútgefin

  1. Upplýsingar þínar eru mjög áhugaverðar. Takk fyrir að deila

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: