Meiri fisk! Ask the Slave veit að þeir fiska sem róa. — Ljósmynd/Juliette Rowland.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 31. júlí, 2021.

Brotist undan hlekkjunum

Fyrsta plata rokksveitarinnar Ask the Slave í ellefu ár hefur nú litið dagsins ljós. Ekki nóg með það heldur hafa fyrri plöturnar tvær verið endurútgefnar.

Plöturnar þrjár koma út á geisladiskum í forláta öskju og er það norska útgáfan Crime Records sem stendur að útgáfunni. Útgáfan atarna er rekin af hugsjónaríku fólki sem er annt um tónlist, tjá meðlimir sveitarinnar mér, þeir Ragnar Ólafsson og Elvar Atli Ævarsson. Nægilega lítil til að sveitin týnist ekki í excel-frumskógi en nógu stór til að halda utan um sæmilega dreifingu og er pistilritari þegar farinn að rekast á dóma um sveitina í alþjóðlegu rokkpressunni.

Fyrri plöturnar tvær, Kiss your Chora (2007) og The Order of Things (2010), koma út endurhljóðblandaðar og endurhljómjafnaðar ásamt aukalögum og þá fylgir digur bæklingur með myndum og texta um sögu sveitarinnar, sem skrifaður er af Birki Fjalari Viðarssyni sem hefur marga rokkfjöruna sopið, hvort heldur í hljómsveitastússi, skrifum eða almennum „rekstri“ á rokksenum landans.

En hver er þessi sveit annars? Jú, hún tók til starfa árið 2004, rétt um það leyti er hin öfluga harðkjarnabylgja sem reið röftum upp úr 2000 var að líða undir lok. Og eitthvað rétt við það, því að sveitin hefði þrifist illa þar stíllega og meðlimir í raun á algerlega einstöku ferðalagi. Með góðum vilja væri hægt að líkja Ask the Slave við Dr. Spock en forsendur sveitarinnar þó harla ólíkar. Á Kiss your Chora mátti heyra sturlaða spretti með sterkar rætur í harð- og málmkjarna en proggbundnar sveigjur og beygjur stýrðu um leið málum – í bland við ægiblíð, tandurhrein popplög? Mr. Bungle og Mars Volta hafa verið nefndar til skilningsdýpkunar á þessum hrærigrauti og eiga þær samlíkingar fullan rétt á sér. Ég sé síðan í skjölum mínum að ég lýsi sveitinni sem „efnilegri“ í dómi um Kiss your Chora , þó að metnaðurinn og hugmyndaauðgin hafi á köflum keyrt sjálfa getuna í kaf („Hugmyndirnar krassandi en úrvinnslan síðri“). Sé að ég hef einnig vélað um The Order of Things og er þá í öllu betra skapi: „…vandræðagangur sem átti til að einkenna síðasta verk… er á bak og burt. Stílaflökt er ekki nægilega sterkt orð til að lýsa því sem í gangi er hér. Flóknar taktskiptingar, brass, glyskenndir sprettir; Sonic Youth-legt surg og Opeth-leg reisn.“

Crime Records taka enga áhættu með gripinn nýja og smella límmiða framan á plötuna þar sem segir að aðdáendur Faith No More, Tool, Mothers of Invention, kaffis, viskís og górillusafna muni ábyggilega finna eitthvað við sitt hæfi.

Grallaragrín þetta tónar vel við eigindir sveitarinnar sem þrátt fyrir allt er ekki að taka sig of alvarlega. Leikplanið hér er sem áður að hafa allt opið og það er því merkilegt að sveitin nær samt að halda utan um eitthvað sem væri hægt að kalla heildstæðan tón. Hvort það er hljóðfæraleikurinn, upptökuhljómurinn eða annað, ég er bara ekki viss á þessum tímapunkti. En hvort heldur í öfgabrjálaðri, epískri proggkeyrslu („Wounded Knee“) eða í göngutúr um popplendur („Catch 22“) er alveg klárt að þetta er sama hljómsveit. Og Ragnar gerir náttúrlega mikið fyrir þessa heildarupplifun, drengurinn býr yfir glæsilegum raddböndum sem hann nýtir á fjölsnærðan hátt; syngur fallega og næmt, hvasst og reiðilega, allt eftir því hvað hentar hverju sinni. Stílaflöktinu mikla er því sannarlega viðhaldið á nýja gripnum og er það vel.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: