Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. ágúst, 2018

Sköpun umfram skotsilfur

Bagdad Brothers er nýbylgjusveit sem gerir út frá Reykjavík. Tvær plötur liggja nú eftir mannskapinn.

Ég varð fyrst var við Bagdad Brothers í gegnum safnplötuna Drullumall 1 sem Listbandalagið post-dreifing gaf út á Bandcamp-vefsíðunni í mars á þessu ári. Hljóðheimurinn í lagi þeirra þar, „Sjálfbær elskhugi“, er kunnuglegur, hin svokallaða C86-stefna í hávegum höfð, „indí“-rokk frá níunda áratugnum sem hafði á að skipa mektarsveitum á borð við Pastels, Primal Scream (fyrri tíma) og Wedding Present, dagskipunin klingjandi melódískt gítarrokk; næmt og viðkæmnislegt með vísun í hetjur eins og Velvet Underground. Bagdad Brothers spila svona tónlist, hvort sem þeir gera sér grein fyrir vísuninni eða ekki.

Þessi stefna, C86, var áhrifarík og allt fram á þennan dag hefur melódískt neðanjarðarbundið gítarrokk verið nýtt reglubundið, eins og sannast á vinum okkar. Ég náði að rekja mig að heilli plötu með Bagdad Brothers, jazz kids summer project (með litlum stöfum að sjálfsögðu), sem kom út síðasta haust. Níu laga plata, einkar áhlýðileg og með áreynslulausan sjarma. Minnir smá á það sem hin stórgóða Nolo var að gera, smá sýrukeimur af þessu einnig. Fimm laga stuttskífa kom þá út fyrir stuttu en á henni, sem ber titilinn JÆJA, sigla þeir félagar um svipuð mið en meðlimir eru annars þeir Sigurpáll Viggó Snorrason og Bjarni Daníel Þorvaldsson.

Bagdad Brothers eru hluti af neðanjarðarsenu Reykjavíkur eins og hún er í dag (þó að meðlimir komi úr Kópavogi) en áðurnefnd post-dreifing hefur verið dugleg við að halda utan um starfsemina með safnplötum, tónleikahaldi og allra handa útgáfu. Hljómsveitir og tóndæmi má nálgast í gegnum Bandcamp t.d., en post-dreifing er þar með sérstakt setur.

Meðlimir lýstu því í útvarpsþættinum Lestinni (RÚV) að þeir hefðu verið í hljómsveitinni Vára, en orðið þreyttir á dimmunni þar yfir og ákveðið að vinna markmiðsbundið með léttleika og kímnigáfu. Íslenskir kjörgripir eins og Sumar á Sýrlandi með Stuðmönnum hafi þá m.a. verið áhrifavaldur (það heyrist) en Einnig Mannakorn og Brunaliðið, áttunda áratugar sveitir sem nú eru orðnar móðins hjá „hipsterunum“. Í viðtali við Grapevine nefndu þeir svo Ísak Harðarson og Gyrði Elíasson sem innblástur að textum.

Bæði í Lestinni og Grapevine lögðu þeir Sigurpáll og Bjarni ríka áherslu á þátt listamannabandalagsins post-dreifingar í þessu öllu saman. Markaðs- og gróðahyggju er þar alfarið neitað (það er von) og hugsjónirnar fallegar og ríkar. Sena sé í kringum fyrirbærið, sem er opið öllum og án yfirstjórnar, en þeir félagar sýna talsvert innsæi með því að gera sér grein fyrir elítuhættunni, nokkuð sem þeir vilji forðast fyrir alla muni. Hugmyndin sé, í sem skemmstu máli, að búa til annars konar og heilnæmara umhverfi en bransinn á alla jafna að venjast. Útgangspunkturinn sé ekki sá að selja eða troða sér inn á nýja markaði heldur fyrst og síðast að stuðla að umhverfi þar sem fólk geti skapað.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: