Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. ágúst, 2018

Sannlega segi ég yður…

Séra Davíð Þór Jónsson bregður sér í hlutverk eldklerks og messar yfir lýðnum með fulltingi sveitarinnar Austurvígstöðvanna.

Davíð Þór hefur skrýðst margvíslegum hempum í gegnum tíðina (sjáum til hvað ég fer langt með þetta trúarlíkingamál…), sinnt ritstýringu, þýðingum og grínaktugheitum, en sem Radíusbróðir var hann í forvígi endurnýjunar íslenskra gamanmála ásamt Fóstbræðrum. Ný kynslóð, nýjar áherslur. Tónlistinni hefur hann líka sinnt, m.a. í gegnum Káta pilta og svo gaf hann út plötu með sveitinni Faríseunum, samnefnda, árið 1996, þar sem hann lék sér m.a. með trúarminni.

Nú þjónar Davíð Þór sem prestur í Laugarnesprestakalli en það stoppar hann ekki í að þjóna tónlistargyðjunni um leið, nú í gegnum pönksveitina Austurvígstöðvarnar. Davíð er einn þeirra presta sem reyna að sinna eðli og eigindum nútímans, trúr sinni köllun um leið og hann vandar sig við það að vera „maður“. Eigum við að kalla slík sjálfsögðheit framsækni? Fleiri slíkir, eins og Hildur Eir Bolladóttir, hafa gert vel í því að leggja sig fram – með kostum og göllum – og hafa uppskorið virðingu og aðdáun fyrir. Þessi plata hér, Útvarp Satan – 16 pönklög, er á vissan hátt liður í þessu. Hér er aldrei mælt undir rós eða af þekkilegheitum heldur talað hressilega út um hin og þessi málefni. Þetta er argasta pönk, umslagshönnun (einkanlega bæklingur) heiðrun á framlagi Crass og viðlíka anarkískra pönksveita til dægurtónlistarinnar. Þetta er hápólitísk plata, þar sem stungið er á kýlum endalaust og Davíð og félagar skirrast ekki við að draga mann og annan til ábyrgðar, t.a.m. er titillinn meðvitað háð og gagnrýni á Útvarp Sögu og þann vitleysisgang sem þar þrífst. Trump, Bjarni Ben. og auðvaldslýðurinn fá á kjaftinn, „þekkirðu þennan – þetta er bróðir hans!“. Hamar (gítar) og sigð tróna glæst efst á upplýsingabæklingi þannig að enginn ætti að þurfa að efast um hvert hugmyndafræðilega inntakið er. Sveitin er þá með hnífjafnt kynjahlutfall en sveitina skipa þau Díana Mjöll Sveinsdóttir (söngur), Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir (bassi), Jón Knútur Ásmundsson (trommur), Jón Hafliði Sigurjónsson (gítar), Þórunn Gréta Sigurðardóttir (hljómborð) og svo syngur Davíð og spilar á ukulele.

Eins og segir: hér er groddalegt pönk og keyrslunni linnir aldrei. Við erum í fimmta gír allan tímann, kannski í fjórða einstaka sinnum. Sumt minnir á Helga og Hljóðfæraleikarana, Dr. Gunna jafnvel. „Sólskin og súkkulaði“ og „Gröð í völd“ eru grípandi smíðar, „Óður til heimskunnar“ og „Upplitsdjarfur“ sömuleiðis, fínasta pönk af sígildum toga. Lokalag plötunnar er líka flott. Hvað heitir það? Nú, „Endaþarmur“ auðvitað! Útvarp Satan er sannkölluð eldmessa.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: