dauðyflin

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. júní, 2016

Meira pönk … meira helvíti!

Það er líf og fjör í íslensku grasrótarpönki um þessar mundir. Hljómsveitin Dauðyfli er á fleygiferð nú um stundir og fleiri sveitir eru á sporbaugi í kringum þessa spriklandi og ærslafullu senu.

Hljómsveitin Börn kom sem hressandi vatnsgusa inn í íslenskt tónlistarlíf fyrir ca tveimur árum síðan. Ekki að tónlistin hafi beint verið nýstárleg en um var að ræða hart seinni bylgju anarkistapönk með dassi af melódísku en þó dökklyndu síðpönki. Textar beinskeyttir og feminískir nokk en liðskipan samanstendur af þremur konum og einum karlmanni. Tónlistin var ekki ný af nálinni en hins vegar var frískandi að nema afstöðuna, ástríðuna og framreiðsluna alla; finna fyrir lífinu og fjörinu sem var í kringum þennan hóp allan.

Trymbillinn þar, Fannar Örn Karlsson, hefur um langa hríð verið einn af forkólfunum í lítilli en öflugri íslenskri pönksenu sem á sér griðastað og miðstöð í Paradísarborgarplötum (PBP). Í gegnum þær hefur hann ásamt fleirum staðið fyrir fjölda hljómsveita, útgáfna og tónleika. Nýjasta nýtt þaðan er t.d. ROHT og Kvöl, sem leika sér með blöndu af svartþungarokki, vélatónlist („industrial“) og kuldabylgju. Undir PBP er svo annað merki, Ronja Records, sem hefur gefið út Ösku, Kvöl og Kæluna miklu og efni með Þóri Georg t.a.m., en sá ágæti maður tengist þessari senu sterkum böndum.

Þá hafa Dauðyflin verið áberandi á þessu ári, fimm laga prufuplata eða „demo“ kom út í janúar og fyrir stuttu kom út platan Drepa drepa, bæði sem sjötomma og streymi (lungann af því sem ég hef verið að tala um má finna á netinu). Þýska útgáfan Erste Theke Tonträger gefur vínylinn út.

Nafngiftir laga segja sína sögu, „Drukknið í skít“, „Rusl“, „Drepum allt“ og „Túrblettir“ þar sem ráðist er að vinsælli bannhelgi í vestrænu þjóðfélagi. Áðurnefndur Fannar skipar sveitina ásamt þeim Alexöndru (söngur), Júlíönu (gítar) og Dísu (bassi). Tónlistin er harðari en í tilfelli Barna, keyrslan er grimm og einföld, eins berstrípað pönk og það gerist. Dásamlegt. Júlía Aradóttir úr PBP hópnum lýsti því í Fréttablaðinu fyrir stuttu að senan væri einkar virk nú um stundir og fagnaði m.a. ríkri þátttöku kvenna í henni. Við skulum nefnilega hafa eitt á hreinu, þrátt fyrir að við séum að þokast í átt að einhvers konar jafnvægi, þá er grasrótarrokk leikvöllur stráka fyrst og fremst.

Gangvirki PBP er því aðlaðandi og ljúft, harðneskjuleg ímynd sem og tónlist er ekki lýsandi fyrir gildin sem þar þrífast sem gera út á umburðarlyndi, sameiningu, ást og frið. Minnir ekki lítið á Dischord-senuna í Washington og fleiri pönkdrifna hópa sem vinna þrotlaust að framgangi óheftrar sköpunar og allra handa valdeflandi virkni, þó að meginstraumurinn verði jafnan lítið var við það. En það skiptir heldur ekki máli og er síst tilgangurinn með starfseminni. Megi PBP og þeirra góða starf seytla víðar á næstu misserum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: