Löng er leiðin heim…

Sumarið 1989, þegar ég var 15 ára, vann ég lagernum hjá Steinum hf. í Kópavogi. Ungur maðurinn kynntist þar mörgu mektarfólkinu, t.d. Kidda Kanínu, Ásgeiri Eyþórs, Dadda Diskó, Jónatani Garðarssyni og Gunnari Hrafnssyni. Heyrði tónlist eftir Hüsker Dü, Joy Division og fleiri í fyrsta skipti það sumarið.

Nú svo kynntist ég líka forstjóranum sjálfum, Steinari Berg. Man þegar hann var ræða við kollegga sína inni á lagernum um nýju Bandalög-safnplötuna. Sálin rokkaði vel, man ég að var niðurstaðan („100.000 volt“ opnaði plötuna). Í annarri umræðu voru menn ánægðir með nýja Stones lagið („Mixed Emtions“ af Steel Wheels). Enda gott lag! Ég var hvolpur, en með eyrun sperrt, og nam fróðleikinn í kringum mig.

Fékk góða sendingu á dögunum frá þessum velgjörðarmanni mínum. Plötuna Til í tuskið með sveitinni Grasösnum og það á vínyl. En í þetta sinnið er okkar maður hinum megin við borðið, er söngvari, gítarleikari, lagasmiður og söngvari í téðri sveit.

Vínylgripurinn byggir á samnefndum geisladisk frá 2012, en Grasasnar urðu að eiginlegri sveit við þá útgáfu. Æfingar urðu reglulegar og sveitin mótaðist og tók á sig mynd, hægt og bítandi. Menn vildu ólmir gera meira, taka upp, en annir fullorðins fólks geta verið miklar, eitthvað sem ég 45 ára gamall maðurinn er loksins farinn að skilja. Upptökur fyrir þessa gerð plötunnar hafa því staðið yfir í fjögur ár. Fjórum lögum var bætt við upprunalega safnið og nú stendur platan keik, tíu laga og heildarmyndin betri.

Grasasnar gera út frá Borgarbyggð, þar sem Steinar starfar sem ferðaþjónustubóndi. Nánar tiltekið í Fossatúni í Andakíl. Það hlýtur að útskýra, a.m.k að hluta, tónlistarstíl sveitarinnar sem liggur í amerísku kántríi að mestu en einnig er farið yfir til Írlands og Bretlandseyja. T.a.m. er fantagóð útgáfa af „Fields of Athenry“ hérna, þar sem stálgítar Sigurgeirs Sigmundssonar fær að njóta sín. Einnig er breitt yfir John Prine og Ralph McTell t.a.m.. „Heimurinn og ég“ er þá eftir Steinar sjálfan, lag í þekkilegum alþýðugír sem vísar í vestur og austur héðan hvað áhrif varðar.

Heimilislegur grasótarbragur liggur undir öllu hér, og er það vel. Mér skilst að ný plata muni svo líta dagsins ljós næsta vor.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: