bLjósmynd/Krummi Björgvinsson

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3o. júlí, 2016


Tónlist, alltaf tónlist

Heiða Eiríksdóttir á að baki langan og fjölskrúðugan feril sem tónlistarmaður. Hún er með ýmis járn í eldinum um þessar mundir og fyrir stuttu kom út sex laga plata, Third-Eye Slide-Show, sem inniheldur tilraunakenndar smíðar.

Það er óþarfi að eyða mörgum orðum í margháttaðan feril Heiðu og ef ég gerði það spryngi plássið hérna fljótt. Hún hefur starfað með hljómsveitum eins og Unun, Heiðingjunum, Dys og Hellvar en einnig sem sólólistamaður. Sem slík gaf hún út plötuna Svarið árið 2000 en hún hefur líka starfað sem Heiða trúbadúr eða Heidatrubador og við ætlum að einbeita okkur að henni hér. Auk þess að skapa tónlist er Heiða líka umsvifamikil í annars konar tónlistarstörfum, situr t.d. í dómnefndum, skrifar um tónlist og stýrir hinum frábæra þætti Langspil á Rás 2, þar sem einblínt er á nýja íslenska tónlist.

Tildrög Heidatrubador má rekja allt aftur til ársins 1989 en Heiða var þá stödd í Marseille og hóf að koma þar fram ein með kassagítar. Sjálfur man ég eftir því að hafa séð hana á 22 stuttu eftir 1990. Það hefur verið ´91 eða ´92. Í ár og í fyrra hefur Heidatrubador verið ansi virk en í endaðan maí kom hin tilraunakennda Third-Eye Slide-Show út og það á mektarmerkinu FALK sem hefur verið ansi duglegt að hlúa að íslenskri grasrót, einkanlega þeirri sem er nokkuð langt úti á jaðrinum. Platan kom út á kassettu í 50 eintökum en einnig er hægt að nálgast hana á bandcamp (og fleira efni er á bandcamp-setri Heiðu). Þá kom ansi lagleg sjötomma út í takmörkuðu upplagi í febrúar. Kallast hún Root og er tónlist á a-hliðinni en myndverk á b-hliðinni. Um er að ræða smáskífu sem er undanfari lágstemmdrar, þjóðlagaskotinnar plötu sem væntanleg er með hausti og kallast Fast. Heiða lék það efni á tónleikum í Mengi fyrir rúmri viku.

Third-Eye Slide-Show hefst í raun á stílbroti þar sem fyrsta lagið er gítarlag. Surgandi, skældur gítar og söngur yfir og minnir smíðin doldið á Sonic Youth/Kim Gordon. Strax í næsta lagi erum við komin í ósunginn tilraunaheim hins vegar; drungalegt og naumhyggjulegt „ambient“ stýrir málum og í því þriðja, „Bald Nun“, sem er fimmtán mínútur, erum við komin út í „industrial“ hljóðlykkju. Þetta er gott stöff, og virkar. Það er þægilegt að hlusta (endurtekningin er eitthvað svo áhrifarík) en líka spennandi (surg og hávaði gerir vart við sig reglulega). Í hinu frábærlega nefnda „Arnim“ erum við komin ofan á hafsbotn, manni finnst eins og maður sé kominn inn í kafbát (ég veit ekkert notalegra en kafbátakvikmyndir!). Smávegis söngur og gítar gerir vart við sig í fimmta laginu og svo er plötunni slitið á líkan hátt og hún byrjaði, með lagi fremur en stemmu.

Vel heppnað verk verð ég að segja, Heiða veldur alveg þessu afstrakt dæmi og ég hlakka til að heyra „hina“ hliðina í haust.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: