kLjósmynd/Hafsteinn Viðar Ársælsson.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. júlí, 2016

Makt myrkursins

Tríóið Kælan mikla býr yfir dulmagni, stöllurnar sem það skipa eru með gotnesku stílbrögðin á tandurhreinu og sveitin er glæsilega utangarðs í tónlistarsenu landsins. Fyrir stuttu kom fyrsta breiðskífa hennar, samnefnd henni, út á gríska merkinu Fabrika Records.

Kælan mikla var stofnuð í ársbyrjun 2013 en Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir, Margrét Rósa Dóru- Harrysdóttir og Laufey Soffía Þórsdóttir skipa tríóið. Þær kynntust í hinum listvæna Menntaskóla kenndum við Hamrahlíð og bjuggu til sveitina er Sólveig tók þátt í ljóðaslammi það ár. Fyrst um sinn var tónlistin nokkuð hrá, öskruð/sungin ljóð og stuðst við bassa og trommur. Síðasta ár var svo trommum skipt út fyrir hljóðgervil og hljómur sveitarinnar varð fókuseraðri. Á plötunni sem hér er til umfjöllunar er lagt út frá skuggabylgjunni svokölluðu („darkwave“); tónlistin hjúpuð drungalegum, gotarokkslegum blæ með sterkri skírskotun til upphafs níunda áratugarins, þegar frumstæðir hljóðgervlar leiddu m.a. framvinduna. Þessi sena rúllar stundum eins og eitt langt tilbrigði við Faith-plötu The Cure.

Þessi samnefnda plata er fyrsta platan sem kemur ærlega út ef svo má segja, hún er þegar komin út á vínyl og sem streymi á bandcamp og geisladiskur kemur mögulega í haust. Til þessa hafa þær átt lög á safnplötum, gefið út „demo“ o.s.frv. Lag samnefnt sveitinni opnar plötuna, hægt og drungalegt (þetta orð, drungalegt, var sérsamið fyrir stelpurnar) en svo hækkar aðeins í tempóinu í „Myrkrið kallar“ og Laufey öskrar tilhlýðilega texta. Lagatitlar eins og „Kalt“ og „Líflát“ segja sitt, restin af plötunni rúllar í nokkuð hefðbundnum skuggabylgjugír, lögin eru mis-spennandi verður að viðurkennast og textar eiga það til að vera helst til einfaldir og fyrirsjáanlegir á stundum. En heildarstemman er það sem skiptir máli, hún er flott og dregur mann inn. Dregur mann inn í myrkrið kalt og svalt… (hér hefði verið gott að geta sett broskarl).

En þessi tiltekna plata er í raun bara einn angi af því sem Kælan mikla er að færa okkur. Meðlimir hafa nefnilega dálítið sem skortir glettilega oft í dægurtónlistinni, það er sterkan og eftirtektarverðan stíl. Þær eru m.ö.o. svalar. Þessi bragur er líka yfir umslagshönnuninni, heildarímyndin er þannig flott og aðlaðandi. Og þetta nafn! Kælan mikla. Snilld. Ljósmyndir gefa af sér sterka gengis-áru, svipað og ég upplifði þegar Mínus fór mikinn í harðkjarnasenunni. Þetta er átatakalítil útgeislun sem aðeins þeir kornungu – sem eru óhræddir og til í allt – hafa. Það er allt að vinna, engu að tapa, og hér vinnur þekkingar- og reynsluleysið, sérstaklega í upphafi, jafnan með fólki. Það er eitthvað unglingalegt við þetta líka, en alls ekki í neikvæðum skilningi. Þetta er fallegt, saklaust, orkuríkt. Hreint.

Og það er meira. Meðlimir eru virkir í neðanjarðarsenu Íslands, duglegir að halda tónleika, skipuleggja tónleika o.s.frv. Sólveig stofnsetti útgáfuna Hið Myrka Man sem stendur m.a. fyrir tónleikaröð og í upphafi gáfu þær út ljóðabækur í takmörkuðu upplagi (í gegnum Fríyrkjuna). Kælan mikla er þá nýkomin úr tónleikaferðalagi um Evrópu. Þessi virkni er til fyrirmyndar og verður vonandi öðrum til eftirbreytni.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: