Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 15. apríl, 2023.

Skruðningar og skemmtilegheit

Íslensk raftónlist, í víðustum skilningi þess orðs, er við hestaheilsu um þessar mundir. Hér verður tæpt á ýmsum áhugaverðum útgáfum af þeim toganum frá því í fyrra.

Raftónlist á Íslandi nýtur góðrar virkni í dag eins og undanfarið, við eigum nokkrar útgáfur sem sinna þessum geira eingöngu auk þess sem Bandcamp, Spotify og hinn stafræni veruleiki gerir fólki kleift að koma tónlist sinni út á tiltölulega auðveldan máta. Hér er ég að tala um raftónlist af öllum stærðum og gerðum. Hústónlist, teknó, tilraunatónlist, „ambient“, spuna o.s.frv. Míkróveruleiki Íslands gerir það auk þess að verkum að hægt er að hafa nokkuð góða yfirsýn yfir þennan heim/heima. Hér ætla ég að þylja upp ýmislegt sem út kom á síðasta ári og eitthvað jafnvel á þessu ári. Ég mun gleyma plötum, það er óhjákvæmilegt. Sendið haturspósta á meðfylgjandi netfang eða rykkið í mig úti í Bónus.

Allra fyrst verð ég að nefna plötuna 1000 Cuts með dúettinum Final Boss Type Zero (Guðmundur Arnalds og Jón Múli Egilsson). Brjálæðislega hrá og orkurík tónlist með miklum „industrial“ blæ og minnir helst á Reptilicus og Front Line Assembly. Úr allt annarri átt er svo platan Dagur með Skurken (Jóhann Ómarsson) en hann hefur verið viðloðandi íslenska raftónlistarsenu lengi lengi. Höfundareinkenni hans og stíll hafa verið að mótast með hægð og er hans aðkoma að þessari eðla list einstök. Topparnir frá síðustu árum koma jafnt frá nýliðum sem reynsluboltum. Alfreð Drexler (og platan Drexler’s Lab) vakti verðskuldaða athygli en útgefandi er Heavy Knife Records sem Þórður Ingi Jónsson (Lord Pusswhip) stýrir ásamt Alfreð reyndar. Alfreð hefur starfað lengi vel á bak við tjöldin í íslensku senunni en steig inn á aðalsviðið með stæl á þessari plötu.

Ronja gaf þá út 000000. Afar efnileg og ein af fáum hérlendum listakonum sem eru að gera næturkjarna (e. nightcore) og ofsapopp (e. hyperpop). Þá er vert að tala um plötuna Hamraborg eftir Oh Mama, nafn sem Jónas Þór Guðmundsson styðst við (Ruxpin, Asonat, Octal Industries). Gáskafullt verk sem er óður til þessa ótrúlega staðar í Kópavogi og stefnur sem koma við sögu eru m.a. hús, „ambient“, níunda áratugar popp, diskó og hipphopp. Annar maður, eldri en tvævetur, er Árni Grétar, einn duglegasti útgefandi landsins. Hann læddi út plötunni Grænar baunir undir Futuregrapher-nafninu í fyrra, hægstreymandi stemningstónlist en útgáfufarganið vill stundum skyggja á þá staðreynd að Árni er hörkutónlistarmaður.

Subminimal gaf svo út Selected en „ambient“-senan, svo við tölum aðeins um undirundirstefnur, er sterk hérlendis þó að allt sé ekki vaðandi í listamönnum. Tjörvi Óskarsson er Subminimal, mest af efninu hans hefur komið út í gegnum glæsimerkið Möller Records og tónlistin virkilega vel samsett og „hönnuð“. Frábært „ambient“!

TRPTYCH, sem er Daníel Þorsteinsson, gaf þá út tvær verulega sterkar plötur. Spawn Apart kom út seint á árinu 2021 og sú nýjasta, Inner Terrestrial MMXXIII a.D., kom út í liðnum janúar.

Ég gæti haldið áfram svona lengi vel og er reyndar með annað eins af nöfnum sem komu út plötum, stuttum sem löngum, á síðasta ári. Sumir hverjir hafa verið að statt og stöðugt í áratugi jafnvel en nýliðar skjóta líka upp kolli. Tónlist þessi heyrist sjaldan í útvarpi, er ekki stillt fram í Olísbúðum og lítt er troðið upp í RÚV eða á Gauknum en eins og sést vonandi er iðandi líf og margir hverjir keyra feril erlendis samhliða. Að lokum kann ég kollegga mínum kærum, Trausta Júlíussyni, bestu þakkir fyrir margvíslega aðstoð við vinnslu þessa pistils. Haldið áfram að dansa, og hlusta, og pæla …

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: